Áhrif á Íslandi

Almennt

Samkvæmt REACH reglugerðinni þarf að skrá efni sem eru framleidd eða flutt inn frá löndum utan EES í meira magni en sem nemur 1 tonni/ári hvort sem þau eru hrein, í efnablöndum eða hlutum. Þetta þýðir að þeir sem flytja inn efni til Íslands frá löndum utan EES eða framleiða þau hér á landi þurfa að skrá. Þeir sem flytja inn vörur til Íslands frá löndum innan EES eru skilgreindir sem eftirnotendur og þurfa ekki að skrá efnin. Á þeim hvílir hins vegar rík upplýsingaskylda um örugga notkun.

Undanfarin ár hefur um 75% af innfluttum efnum og efnavörum verið frá löndum innan Evrópusambandsins en utan þess er mest flutt inn frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Sviss og Surinam. Munar þar mest um innflutning á súráli (Al2O3).

Almennt má segja að REACH hafi víðtæk áhrif á Íslandi því efni sem falla undir reglugerðina má finna í flestum vörum sem eru á markaðinum. Hér má nefna fyrirtæki sem framleiða, flytja inn, dreifa eða nota hrein efni, efnablöndur og efni í hlutum. Þó eru nokkrar almennar undantekningar, t.d. matur og matvara, og smásöluverslun.

Framleiðendur

Framleiðendur efna og innflytjendur efna frá löndum utan EES svæðisins, hvort sem þau eru hrein, í efnavörum eða hlutum hafa fengið aukin hlutverk og ábyrgð með innleiðingu REACH. Þeir gegna líka lykilhlutverki í því að markmið REACH reglugerðarinnar gangi eftir. Fyrirtæki þurfa því í auknum mæli að setja sig inn í þessar nýju reglur og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra.

Skilgreining á framleiðanda skv. REACH

Til að byrja með þarf að gera greinarmun á þeim sem eru skilgreindir sem framleiðendur í REACH og þeim sem eru framleiðendur en falla þó ekki undir REACH skilgreininguna.

Í REACH eru framleiðendi skilgreindur sem einstaklingur eða lögaðili sem er með staðfestu í Bandalaginu og framleiðir efni þar. Efni er skilgreint sem frumefni og efnasambönd þeirra, náttúruleg og unnin með framleiðsluferlum, þ.m.t. öll aukefni sem eru nauðsynleg til að viðhalda stöðugleika varanna og öll óhreinindi sem verða til í vinnslunni, en þó ekki leysiefni sem skilja má frá án þess að það hafi áhrif á stöðuleika efnisins eða breyti samsetningu þess.

Framleiðendur á Íslandi

Skv. REACH eru þau fyrirtæki sem framleiða efni, skilgreind sem framleiðendur. Hér á Íslandi er framleiðsla efna fábrotin. Dæmi um framleiðanda er álver sem framleiðir ál úr súráli.

Þau fyrirtæki sem framleiða efnavörur (málningu, þvottaefni og slíkt) og staðsett eru hér á landi flokkast í flestum tilfellum sem eftirnotendur (downstream user) en í undantekningartilfellum sem innflytjendur.
 
Fyrirtæki sem framleiða hluti gætu haft þá skyldu að tilkynna eða skrá efni sem notuð eru í þá, ef þau hafi ekki verið skráð fyrir slíka notkun. Nánari upplýsingar má finna í flipum hér að ofan fyrir innflytjendur og eftirnotendur.

Skyldur framleiðenda skv. REACH

Framleiðendur efna þurfa að:

 • Forskrá efni í skráningarbið
 • Skrá efni hjá Efnastofnun Evrópu (ef framleiðsla yfir 1 tonn/ári)
 • Flokka og merkja skv. reglum
 • Útbúa öryggismat efnis (ef framleiðsla yfir 10 tonn/ári)
 • Útbúa öryggisblöð sem innhalda upplýsingar um váhrifaaðstæður (exposure scenarios)

Forskráning

Efni í skráningarbið þurfti að forskrá hjá Efnastofnun Evrópu á tímabilinu 1. júní 2008 - 1. desember 2008 og gaf forskráningin lengri frest til skráningar.

Skráning

Ein af grunnliggjandi stoðum REACH er að framleiðendur og innflytjendur efna ber skylda til að sýna fram á að hægt sé að markaðssetja og nota þau á sem öruggastan hátt. Framleiðendur (og innflytjendur) skulu því skrá efni sín hjá Efnastofnun Evrópu. Skráningunni skulu m.a. fylgja gögn um eiginleika efnanna, hvernig skuli nota þau, og upplýsingar um hugsanlega áhættu við notkun þeirra. Öll fyrirtæki sem framleiða eða flytja inn efni í meira magni en 1 tonn/ári, hvort sem þau eru hrein, í efnavörum eða hlutum, þurfa að skrá.

Öryggismat efna

Fyrirtæki þurfa í auknum mæli að meta áhættu af notkun efna við mismunandi aðstæður. Öryggismat þarf að gera fyrir efni sem framleidd eru eða flutt inn í meira magni en 10 tonn/ári pr. framleiðanda/innflytjanda

Flokkun og merking

Framleiðendur þurfa áfram að merkja efna og efnavörur sem þeir setja á markað en skulu nú sjálfir ákveða flokkun þerra og tilkynna Efnastofnuninni um þær. Reglur um flokkun og merkingu munu breytast með innleiðingu GHS reglugerðar (Grunnur að Hnattrænni Samræmingu á merkingu og flokkun) sem er væntanleg í Evrópu.

Öryggisblöð

Sjá reglur um öryggisblöð

Innflytjendur

Hvaðan er innflutningurinn?

Það er grundvallarmunur á skyldum fyrirtækisins eftir því hvort efnið er flutt inn frá löndum innan eða utan Evrópska Efnahagsvæðisins.

 • Ef innflutningurinn kemur frá löndum utan EES, eru skyldur fyrirtækisins á við þær sem framleiðendur þurfa að uppfylla, þ.e. skráningarskylda o.fl.
 • Ef innflutningurinn er frá löndum innan EES þurfa fyrirtæki að uppfylla skyldur sem settar eru á eftirnotendur (Downstream Users) eða dreifendur, eftir því sem við á.
 • Ef innflutningurinn er bæði frá löndum utan og innan EES hefur fyrirtækið því tvíþætt hlutverk, annars vegar sem innflytjandi og hinsvegar eftirnotandi eða dreifandi.

Birgjar utan EES landanna hafa möguleika á að skipa einkafulltrúa (e. only representative) á EES svæðinu sem sér um að uppfylla skyldur þeirra sem innflytjenda skv. REACH. Fyrirtæki sem flytja inn frá löndum utan EES ættu því að athuga hjá birgjum sínum hvort slíkur fulltrúi hafi verið skipaður.

Er um endurinnflutning að ræða?

Efni sem flutt hafa verið út af EES svæðinu og eru síðan flutt þangað inn aftur eru undanþegin skráningarskyldu, að því tilskyldu að þau hafi verið skráð þar áður. Fyrirtæki sem flytja þessi efni inn eru því skilgreind sem eftirnotendur eða dreifendur skv. REACH.

Hlutur eða efnavara?

Í REACH eru mismunandi reglur fyrir hluti og efnavörur (blöndur). Hlutur eru skilgreindur sem gripur sem fær í framleiðsluferlinu sérstaka lögun, áferð eða útlit sem ræður meiru um hlutverk hans en efnafræðileg samsetning hans.

Oft er erfitt að segja til um hvort um sé að ræða hlut eða efnavöru og mörg tilfelli þar sem varan gæti verið hvort sem er. T.d. slökkvitæki, kúlupennar, límstifti og dufthylki en hér gæti verið um að ræða hluti sem innihalda efnavöru.

Nánar má lesa um reglur um efni í hlutum í leiðbeiningaskjali um efni í hlutum.

Innflutningur efna og efnavara

Innflytjendur efna og efnavara hafa oftar en ekki tvíþætt hlutverk skv. REACH, þ.e. bæði sem innflytjandi og eftirnotandi.

Innflytjendur efna frá löndum utan EES hafa einnig aðrar skyldur sem eru þær sömu og skyldur framleiðanda, t.d. varðandi flokkun og merkingu og gerð öryggisblaða.

Innflutningur og framleiðsla hluta sem innihalda efni

Framleiðendur og innflytjendur hluta sem innihalda efni þurfa fyrst og fremst að svara eftirfarandi spurningum og getur almennur notandi einnig gert kröfu um að fá slíkar upplýsingar.

Eru efni til staðar í hlutunum sem fara úr vörunni við eðlilega notkun?

Ef svo er og magnið er meira en 1 tonn/ári pr. framleiðanda/innflytjanda þarf að skrá efnin svo fremi sem það hafi ekki verið skráð áður. Dæmi um slíka hluti eru prenthylki, kúlupennar, strokleður með lykt og bleyjur sem innihald krem.

Inniheldur hluturinn „sérlega varasöm efni”, sem að öllum líkindum munu verða á lista Efnastofnunarinnar um efni sem hugsanlega verða háð leyfisveitingum, og ef svo er, í hvaða magni?

Ef styrkur slíks efnis í hlut fer yfir 0,1% miðað við þyngd hans, þarf að afhenda þeim sem nota hlutinn í atvinnuskyni nægilegar upplýsingar þannig að þeir geti notað hann á sem öruggastan hátt. Að lágmarki þarf að tilkynna að efnið sé til staðar í hlutnum.

Tilkynning um hluti sem innihalda efni

Fjórum árum eftir gildistöku REACH skulu framleiðendur og innflytjendur hluta sem innihalda efni af ofangreindum lista, senda efnastofnuninni tilkynningu um tilvist þeirra, minnst 6 mánuðum eftir að efnið er birt á listanum. Tilkynninguna þarf aðeins að senda ef magn efnisins í öllum hlutum sem framleiddir eru eða fluttir inn fer yfir 1 tonn/ári og styrkurinn sé meiri en 0,1 % miðað við þyngd. Í tilkynningu þarf að koma fram upplýsingar um framleiðanda, skráningarnúmer, eiginleikar efnisins og notkunarsvið, flokkun og magn.

Eftirnotendur

Skilgreining á eftirnotanda skv. REACH

Í REACH reglugerðinni eru eftirnotendur (e. Downstream users) skilgreindir sem: “Sérhver einstaklingur eða lögpersóna sem starfar innan EB, önnur en framleiðandi eða innflytjandi, og notar efni, hreint eða í efnavöru, í atvinnuskyni”. Þeir sem flytja inn frá löndum innan EES eru einnig eftirnotendur. Bein geymsla á efni eða flutningur er þó ekki skilgreind sem eftirnotkun.

Eftirnotendur eru t.d. fyrirtæki sem framleiða þvottaefni, málningu, leikföng, vélar, raftæki eða húsgögn. Einnig eru það notendur sem nota efni við vinnu sína eins og t.d. málarar og múrarar.

REACH og eftirnotendur

Ein af þeim breytingum sem verða við innleiðingu á REACH er að eftirnotendur fá meiri upplýsingar um efni frá birgjum sínum, en eftirnotendur munu líka sjálfir þurfa að veita Efnastofnuninni og birgjum sínum upplýsingar. Með þessu er reynt að tryggja að upplýsingar um eðli efnisins og áhættu við notkun þess séu aðgengileg öllum í aðfangakeðjunni.

Skyldur eftirnotenda skv. REACH

Eftirnotendur skulu sjá til þess að notkun þeirra sé í samræmi við öryggisblöð og öryggisskýrslur sem fylgja þeim efnum og efnavörum sem þeir nota.

Ef notkun þeirra er ekki skráð og skilgreind í öryggisskýrslum ber þeim að koma upplýsingum um notkunina annað hvort beint til framleiðanda eða til dreifanda sem kemur þeim áfram til framleiðanda eða innflytjanda efnisins. Upplýsingarnar þurfa að vera nægjanlegar til að framleiðandi eða innflytjandi geti framkvæmt öryggismat sem fullnægir notkuninni.

Eftirnotandi getur einnig gert sitt eigið öryggismat fyrir notkun sína. Þetta öryggismat skal sett í öryggisskýrslu sem síðan skal fylgja efninu áfram í afhendingarkeðjunni á öryggisblöðum þar sem þess er þörf.

Aðrar skyldur eftirnotenda felast í:

 • að sækja um leyfi fyrir notkun sinni á leyfisskyldum efnum,
 • fylgja þeim skilyrðum sem sett eru varðandi leyfisskyld efni og takmörkunum á notkun þeirra,
 • að koma upplýsingum um efnið eða efnavöruna sem þeir vinna með upp og niður í framleiðslu- og afhendingarkeðjur.

Ef notkun eftirnotenda á leyfisskyldu efni fellur undir þá notkun sem framleiðandi/innflytjandi efnisins hefur fengið leyfi fyrir, þarf hann ekki að sækja um sérstakt leyfi sjálfur. Ef notkunin er ekki í samræmi við það sem framleiðandi/innflytjandi hefur þarf eftirnotandinn að tilkynna um notkunina á efninu til Efnastofnunar Evrópu í síðasta lagi 3 mánuðum eftir afhendingu þess.

Eftirnotendur og birgjar

Eftirnotendur ættu að kanna hjá birgjum sínum hvort efnin sem þeir eru að nota verði á markaði eftir að REACH tekur gildi. Einnig hvort þeirra notkun verði hluti af skráningu efnisins.

Ef fyrirtæki eru að nota efni á sértækan hátt og sú notkun er ekki sérstaklega áhættumetin og þ.a.l. ekki hluti af skráningu efnis hjá birgja þarf fyrirtækið að leita sér að öðrum birgja eða gera sitt eigið öryggismat fyrir sína notkun.

Dreifingaraðilar

Dreifandi (e. Distributor) er einstaklingur eða lögaðili sem hefur staðfestu í bandalaginu, þ.m.t. smásali, sem einungis geymir og setur á markað efni, eitt sér eða í efnablöndu, á vegum þriðja aðila.

Dreifandi hefur skyldu til að láta viðeigandi upplýsingar, s.s. öryggisblöð ef við á og öryggisskýrslur ef þær hafa verið gerðar, fylgja vörunni sem þeir dreifa, selja eða afhenda.

Dreifendur geta átt von á spurningum varðandi REACH frá viðskiptavinum sínum, einkum varðandi öryggisblöð og varúðarráðstafanir. Því er mikilvægt að þeir undirbúi sig sem best og geti svarað grundvallarspurningum.