Bráðamengun

Bráðamengun á sjó ber að tilkynna til Landhelgisgæslunnar í síma 511-3333

Bráðamengun á landi ber að tilkynna til lögreglu í síma 112

Eyðublað um bráðamengun

Með bráðamengun er átt við skyndilegan atburð sem krefst tafarlausra viðbragða. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með bráðamengun hafs og stranda og mengunaróhöppum almennt á landinu í heild. Skipulag sjálfra viðbragðanna er hins vegar skipt eftir staðsetningu mengunaróhappsins. Slökkviliðsstjóri á hverjum stað hefur með höndum stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi skv. lögum nr. 75/2000 um brunavarnir.  Hafnarstjórar annast viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða en Umhverfisstofnun ber ábyrgð á viðbrögðum vegna mengunar hafs og stranda þar fyrir utan. Nánar er kveðið á um viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda í reglugerð nr. 465/1998, með síðari breytingum.

Skilgreining á bráðamengun samkvæmt lögum nr. 33/2004 er eftirfarandi: Mengun hafs og stranda sem verður skyndilega og krefst tafarlausra aðgerða.

Hér má finna samantekt Umhverfisstofnunar um bráðamengun ársins 2015.

Bráðamengun utan hafnarsvæða

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist og annast stjórn á vettvangi. Umhverfisstofnun ber kostnað af störfum heilbrigðisfulltrúa. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar. Umhverfisstofnun, Siglingastofnun Íslands og Landhelgisgæsla Íslands hafa undirritað skriflega aðgerðaáætlun um aðkomu stofnanna og um framkvæmd einstakra verkþátta. Áætlunin fjallar um hvernig eigi að bregðast á við þegar óhöpp verða á sjó er varða skip í efnahagslögsögu Íslands sem ógna siglingaöryggi eða hætta er á að valdi umhverfisstjóni. Áætlunin var undirrituð af Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, Hermanni Guðjónssyni, forstjóra Samgöngustofu og Kristínu Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar. Áætlunin er hugsuð sem sameiginlegt stjórntæki Umhverfisstofnunar (UST), Landhelgisgæslu Íslands (LHG) og Samgöngustofu (SGS) og er ætlað að tryggja fumlaust verklag og framkvæmd viðbragða vegna bráðamengunar, þegar hætta er talin á bráðamengun sem og rétta framkvæmd við notkun skipaafdrepa, sem útnefnd eru af SGS. Skipaafdrep eru annars vegar innan hafna (neyðarhöfn) og hins vegar skjólgóð svæði sem eru tilgreind utan hafna. Aðgerðaáætlunina er hægt að virkja á fjórum stigum, þ.e. þegar atvik verður á sjó þar sem engin mengun er sjáanleg og engin hætta er talin á mengun; þegar hætta er talin á mengun; mengun er sýnileg og þegar skip þurfa að leita í skipaafdrep. Heimilt er að fela slökkviliðstjóra stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp með sérstökum samningi eða í einstökum tilvikum þegar við á.

Bráðamengun innan hafnarsvæða

Hafnarstjóri ber ábyrgð á og annast aðgerðir vegna mengunar innan hafnarsvæðis og ber honum að grípa til hreinsunar og annarra viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara tjón vegna bráðamengunar. Hafnarstjóra ber að tilkynna Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd um bráðamengun strax og vart verður við hana. Heilbrigðisfulltrúi, í umboði heilbrigðisnefndar, hefur eftirlit með hreinsunaraðgerðum og ákveður í samráði við Umhverfisstofnun hvenær árangur af hreinsun er nægur. Hafnarstjóri getur kallað eftir aðstoð Umhverfisstofnunar telji hann ástæðu til. Telji Umhverfisstofnun nauðsyn á frekari aðgerðum er stofnunni heimilt að hlutast til um þær.

Kortið sýnir þá staði þar sem mengunarvarnarbúnaður er til taks.

Flokkur 1 (rauðir staðir á korti)

 • 2 stk. rafstöðvar 4,5 KW
 • Háþrýstitæki með 20 metra þrýstislöngu framlengingu
 • 3 stk. 500W ljóskastarar á fótum
 • Olíuupptökutæki (skimmer) og fylgihlutir
 • Flotgirðingar 300 metrar
 • Færanlegur geymir (tankur) 10 m³
 • Dreifiefni 3 stk.
 • Handúðarar fyrir þrýstiloft
 • Handverkfæri
 • 10 sett tvískiptur hlífðarfatnaður
 • 2 stk. 20 feta gámar
 • Útbúnaður til að verja flotgirðingarnar fyrir skemmdum þegar verið er að sjósetja þær og/eða taka þær á land

Flokkur 2 (bláir staðir á korti)

 • 1stk. rafstöð 4,5 KW
 • Háþrýstitæki með 20 metra þrýstislöngu framlengingu
 • 1stk. 500W ljóskastari á fótum
 • Flotgirðingar 120 metrar
 • Dreifiefni
 • Handverkfæri
 • 5 sett tvískiptur hlífðarfatnaður
 • 1 stk. 20 feta gámur
 • Útbúnaður til að verja flotgirðingarnar fyrir skemmdum þegar verið er að sjósetja þær og/eða taka þær á land

Hlutverk Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laganna að svo miklu leyti sem ekki er mælt fyrir um annað í lögunum. Umhverfisstofnun er heimilt að fela tiltekna þætti eftirlitsins, sem undir stofnunina heyra, heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna eða faggiltum skoðunaraðilum í umboði stofnunarinnar. Skal í slíkum tilvikum gerður sérstakur samningur við hinn faggilta skoðunaraðila eða við hlutaðeigandi heilbrigðiseftirlit eftir því sem við á. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd framkvæmd þvingunarúrræða samhliða eftirliti.

 • Umhverfisstofnun skal sjá um að mengun hafs og stranda sé vöktuð.
 • Umhverfisstofnun skal sjá um gerð fræðsluefnis og fræða þá sem starfa að þessum málum og gefa út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur.
 • Nánari upplýsingar er að finna í lögum og reglum er varða málefni hafs og stranda.

Hlutverk Landhelgisgæslunnar

Landhelgisgæsla Íslands, undir yfirstjórn dómsmálaráðherra annast eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland, jafnt úr lofti sem af sjó. Landhelgisgæsla Íslands tilkynnir Umhverfisstofnun og lögregluyfirvöldum um svæði þar sem mengun getur borist á land ef hún verður vör við mengun eða grunur leikur á mengun hafs og stranda.

Stuðst er við ákveðna litaflokkun til þess að átta sig á magninu, út frá lit olíuflekksins er hægt að áætla hvert rúmmál olíunnar er. Taflan hér að neðan sýnir flokkunina.

Olíutegund

Útlit/þykkt

Áætlað rúmmál (mm)

Áætlað (m³/km²)

Olíuslæða

Silfurgljái

>0.0001

0.1

Olíuslæða

Óreglulegur gljái

>0.0003

0.3

Hráolía og

brennsluolía

Svart/dökk brúnt

 

>0.1

100

 

Þeyti

Brúnt/ appelsínugult

>1.0

1000

 

 

 

 

 

 

 

 

Samband á milli útlits, þykktar og rúmmáls olíubrákar

Hlutverk Siglingastofnunar Íslands

Siglingastofnun Íslands, undir yfirstjórn samgönguráðherra, annast eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna, sbr. lög um eftirlit með skipum.

Erlennt samstarf

Kaupmannahafnarsamkomulagið er samstarf Norðurlandanna um viðbrögð við mengunaróhöppum á sjó.

EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu, heldur utan um samstarf Evrópuríkja um viðbúnað og viðbrögð við megnun frá skipum.

Olíuskilja er mengunarvarnabúnaður fyrir fráveitur sem skilur að olíuefni og vatn til þess að frárennslið valdi ekki skaða í náttúrunni. Tryggja þarf að hvergi sé hætta á að olía eða olíumengað vatn berist út í umhverfið. Gerð er krafa um olíuskiljur eða annan fyrirbyggjandi búnað við alla starfsemi þar sem meðhöndluð eru olíuefni eða kolvetnissambönd.

OlíuskiljaVirkni olíuskilju byggist á því að olíur eða önnur kolvetni hafa tilhneigingu til þess að skiljast frá vatninu og vegna minni eðlismassa fljóta olíuefnin upp á yfirborð vatnslausnar.

Sandur og önnur föst efni skulu ekki berast í olíuskilju þar sem olíudropar geta loðað við föstu efnin og borist þannig í gegnum olíuskiljuna. Nota skal sandfang sem tekur við sandi, leðju og öðrum föstum efnum úr frárennsli áður en það berst í olíuskilju.

Hafa þarf reglulegt eftirlit með olíuskiljum þannig að tryggt sé að virknin sé eins og til er ætlast. Viðvörunarbúnaður sem varar við yfirfyllingu olíuskiljunnar þarf ætíð að vera í lagi.

Umhverfisstofnun gefur út leiðbeiningar um olíuskiljur, en hönnun og virkni olíuskilja skal einnig fylgja stöðlunum: ÍST EN 858-1: 2002 og ÍST EN 858-2:2003.  Fjallar sá fyrri um hönnunarforsendur og prófanir á skiljum (gerðarprófun) en sá síðari um val á skiljum og stærðarútreikninga m.t.t. aðstæðna og vökva sem er til meðhöndlunar.  Leiðbeiningar um olíuskiljur duga flestum sem þurfa að kaupa eða vinna með olíuskiljur. Staðlarnir nýtast fyrst og fremst þeim sem þurfa að hanna olíuskiljur eða ráðleggja um hönnun og virkni. Staðlana má fá hjá Staðlaráði Íslands.
Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira