Rotþrær og siturlagnir

Myndin sýnir hvernig rotþró skilur óuppleyst efni frá vatniSkólp veldur mengun vatns eða sjávar allsstaðar þar sem því er veitt út í umhverfið. Það samanstendur af saurmenguðum lífrænum úrgangi sem inniheldur áburðarefni og mikið magn örvera, m.a. sýkla. Skólpmengun getur því verið hættuleg heilsu manna og dýra sé skólpið ekki nægilega vel hreinsað. Vegna lífræna efnisins og áburðarefnanna veldur skólpmengun einnig álagi á vistkerfi þeirra viðtaka sem taka við skólpinu. Góð hreinsun skólpsins dregur hinsvegar verulega úr neikvæðum áhrifum þess í umhverfinu. 

Fráveita skal vera til staðar í þéttbýli þar sem íbúar eru fleiri en 50 og fjarlægð á milli húsa er að jafnaði undir 200 m. Sveitarfélög eiga að koma á fót og starfrækja fráveitur í þéttbýli.

Fyrir byggð utan þéttbýlis gildir að fráveita á að vera til staðar þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha og/eða atvinnustarfsemi felur í sér losun sem nemur u.þ.b. 50 persónueiningum eða meira á hverja 10 ha. Viðkomandi sveitarfélagi ber að sjá til þess að þetta nái fram. Kvaðir þessar gilda hinsvegar ekki fyrir byggð sem var til staðar fyrir 13. mars 2009. 

Húsaskólp einstakra húsa skal ætíð losa inn á fráveitu þar sem hún er til staðar. Ekki er gert ráð fyrir að skólp frá einstökum húsum sé hreinsað á staðnum þegar á að vera fráveita. Sumstaðar vantar þó ennþá tilskylda fráveitu og því ekki hægt að tengjast henni strax. 

Þar sem ekki er til staðar fráveita skal hreinsa skólp sérstaklega frá hverju húsi eða hverri þyrpingu fárra húsa. Gerð er krafa um tveggja þrepa hreinsun á skólpi frá híbýlum manna. Tveggja þrepa hreinsun getur m.a. falist í rotþró (fyrsta þrep) og siturlögn (annað þrep). Ef aðstæður eru réttar er rotþró og siturlögn fremur ódýr lausn fyrir einstökum íbúðarhús og krefst tiltölulega lítils viðhalds. 

Rotþró skilur föst efni frá skólpinu á þann hátt að þyngri efnin setjast á botninn (botnlag) en fita og önnur léttari efni fljóta upp (flotlag). Þegar rotnun er komin af stað í rotþrónni brotna efnin niður. Hinsvegar safnast smám saman upp efni sem brotna hægt niður og er því nauðsynlegt er að tæma hana reglulega. 

Á Íslandi er gerð krafa um þriggja hólfa rotþrær, en fleiri en þrjú hólf eru óþörf. Í rotþró má veita frárennsli frá salernum, eldhúsum og þvottahúsum. Hitaveituvatn úr ofnakerfum og afrennsli frá heitum pottum ætti ekki að leiða í rotþró. Sé það engu að síður gert þarf að nota mun stærri rotþró en ella auk þess sem klór frá heita pottinum hefur eituráhrif á bakteríur í rotþrónni og kemur þannig í veg fyrir niðurbrot lífrænu úrgangsefnanna. Af þeirri ástæðu á t.d. alls ekki á að nota bakteríudrepandi þvottalög, t.d. þegar salerni eru þrifin. Ef eitrað er fyrir bakteríunum í rotþrónni breytist virkni hennar þannig að hún þjónar aðeins sem safnþró og fyllist þar með fyrr en ella. 

Aldrei má leiða skólp beint úr rotþró út í umhverfið heldur á það að fara um siturlögn á svipaðan hátt og sýnt er á myndinni. 

Siturlögnin er götuð þannig að næst rotþrónni eru götin færri en fleiri eftir því sem lengra dregur. Götin eru á botni rörsins og allt upp að miðju rörhæðar. Þykkt malarlagsins undir siturlögninni ætti að vera a.m.k. 30 cm og fjarlægð frá malarlagi að grunnvatnsborði ætti að jafnaði ekki að vera undir 0,5 m. Þar sem aðstæður henta ekki fyrir siturlögn skal leita annarra leiða í samráði við viðkomandi heilbrigðisnefnd. 

Losun skólps má aldrei eiga sér stað þar sem hætta er á að vatnsból spillist. Hafa skal í huga að rennsli grunnvatns fylgir oft ekki halla á yfirborði en grunnvatnið streymir hinsvegar ætíð frá hærra grunnvatnsborði að lægra. Þar sem neysluvatni er dælt upp, t.d. úr borholu, má gera ráð fyrir að næst vatnstökuinni halli yfirborði grunnvatnsins að dælunni og skal ekki losa skólp nálægt slíkum niðurdrætti.

Tengd skjöl

Tenglar

Erlendar upplýsingar um lítil skólphreinsimannvirki og skólphreinsun á svæðum þar sem ekki er hægt að tengjast fráveitu.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira