Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi fyrir Malbikstöðina ehf. fyrir rekstur malbikunarstöðvar að Koparsléttu 6-8, Reykjavík. Stöðin er reist á svæði sem heyrir undir deiliskipulag athafnasvæðis á Esjumelum á Kjalarnesi.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar á tímabilinu 7. apríl til og með 5. maí 2020 og var gefinn kostur á skriflegum umsögnum um tillöguna á því tímabili.

Veitur ehf. og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendu inn umsagnir um tillöguna og komu þar fram athugasemdir um að ofanvatn frá lóð verði að vera nægilega hreint til að fara í fráveitukerfið. Athugasemdirnar koma til vegna þess að upphaflega var athafnasvæðið við Esjumela skilgreint sem svæði þar sem fyrst og fremst mætti vera iðnaður og önnur starfsemi sem ekki hefur teljandi mengunarhættu í för með sér og voru í því sambandi nefnd dæmi um verkstæði, gagnaver og vörugeymslur. Þessari skilgreiningu var síðar breytt og gert deiliskipulag fyrir malbikunarstöð að Koparsléttu 6-8. Af þessu leiðir að gæta þarf þess sérstaklega vel að ekki komi til vandamála varðandi rekstur fráveitukerfisins.

Breyting hefur því verið gerð á starfsleyfinu frá auglýstri tillögu og rekstraraðila gert að tryggja að hreinsun ofanvatns sé nægjanleg til að rekstraraðili fráveitunnar geti tekið við því. Til að hægt sé að fylgjast með því að kröfur séu uppfylltar var einnig sett inn ákvæði um að rekstraraðili hafi alltaf aðgengileg gögn fyrir Umhverfisstofnun sem sýna fram á að hreinsunin sé viðunandi og að reksturinn valdi ekki erfiðleikum í rekstri fráveitumannvirkja fyrir svæðið.

Starfsleyfi þetta, sem gefið er út í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, öðlast þegar gildi og gildir til 3. júní 2036.

Auglýsing þessi er birt á fréttavefsvæði Umhverfisstofnunar en auk þess í sérstökum dálk fyrir opinberar birtingar á starfsleyfum sem stofnunin gefur út.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Tengd skjöl: