Rafhlöður og rafgeymar

Framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma bera ábyrgð á þeim rafhlöðum og rafgeymum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn hingað til lands. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun varanna og nær ábyrgð þeirra til landsins alls án tillits til þess hvar varan er seld.

Auk þess eiga framleiðendur og innflytjendur að sjá til þess að rafhlöðurnar og rafgeymarnir séu merktir með mynd af yfirstrikaðri sorptunnu, en merkið gefur til kynna að safna skuli vörunum sérstaklega. Framleiðendum og innflytjendum ber einnig að upplýsa kaupendur um rétta förgun tækjanna og að það sé þeim að kostnaðarlausu.

Nýjustu breytingar

Haustið 2015 voru innleiddar breytingar á reglugerð hvað varðar undanþágur á efnainnihaldi í rafhlöðum og rafgeymum.

 • Hnapparafhlöður sem innihalda minna en 2% af kvikasilfri miðað við þyngd má ekki flytja lengur til landsins en sölu- og dreifingaraðilar hafa leyfi til að selja birgðirnar sínar þar til 1. júlí 2017.
 • Færanlegar rafhlöður og rafgeymar fyrir rafknúin handverkfæri sem innihalda meira en 0,002% af kadmíum miðað við þyngd má ekki flytja inn til Íslands eftir 1. júlí 2017 en sölu- og dreifingaraðilar mega selja birgðir sínar þar til 1. júlí 2018.

Óheimilt er að setja á markað rafhlöður og rafgeyma sem uppfylla ekki skilyrði þessarar reglugerðar.

Lög og reglugerðir

Innflytjendur og framleiðendur eru ábyrgir fyrir því að:

 • Vera skráðir í skráningarkerfi hjá Umhverfisstofnun svo hægt sé að hafa eftirlit með þeim (innflytjendur eru sjálfkrafa skráðir í gegnum Tollstjóra en framleiðendur þessara vara þurfa að skrá sig hjá Ríkisskattstjóra).
 • Merkja rafhlöður og rafgeyma (sjálfa vöruna) með tunnumerkinu (yfirstrikuð sorptunna)
 • Leiðbeina kaupendum um innihald og meðhöndlun á vörunni þ.e. að hana eigi að flokka sérstaklega og skila á móttökustöðvar (t.d. Sorpu, gámafélaga, Efnamóttökuna) eða til sölu- og dreifingaraðila og það sé gjaldfrjálst.
 • Mega ekki selja eða dreifa rafhlöðum og rafgeymum sem innihalda meira en 0,0005% af kvikasilfri miðað við þyngd og færanlegar rafhlöður og rafgeyma sem innihalda meira en 0,002% af kadmíum miðað við þyngd (á þessu eru þó undanþágur sem fyrirtæki þurfa að skoða betur í reglugerðinni eftir því hvað við á).
 • Innflytjendur og framleiðendur eru ábyrgir fyrir því að úrgangurinn sé meðhöndlaður með réttum hætti og komið til förgunar hjá starfsleyfisskyldum aðilum.

Sölu- og dreifingaraðililar eru ábyrgir fyrir því að:

 • Selja hvorki né dreifa rafhlöðum og rafgeymum sem innihalda meira en 0,0005% af kvikasilfri miðað við þyngd og færanlegar rafhlöður og rafgeyma sem innihalda meira en 0,002% af kadmíum miðað við þyngd (á þessu eru þó undanþágur sem fyrirtæki þurfa að skoða betur í reglugerðinni eftir því hvað við á).
 • Taka á móti notuðum rafhlöðum og rafgeymum fólki að kostnaðarlausu og bera ábyrgð á því að skila úrganginum til starfsleyfisskyldra móttöku- og förgunaraðila.
Síðan eru aðilar sem geta verið bæði t.d. innflytjandi og söluaðili og þá ber hann ábyrgð á því að fylgja eftir öllum þessum þáttum.

Markmið eftirlits er að sjá til þess að lögum og reglum sé framfylgt. Í því felst meðal annars að hækka söfnunarhlutfall þessa úrgangs, fylgja eftir banni og takmörkunum á ákveðnum efnum í rafhlöðum og rafgeymum og sjá til þess að upplýsingagjöf til viðskiptavina sé framfylgt. Því er mikilvægt að verkefnið sé unnið í góðu samstarfi við aðila á markaði og að allir hlutaaðeigandi komi að því að hvetja notendur til að skila úrganginum rétt af sér. Umhverfisstofnun hefur sett upp eftirlitsáætlun til ársloka 2020. Í henni er lögð áhersla á eftirlit með skyldum sveitarfélaga um móttöku rafhlaða, rafgeyma og raf- og rafeindatækjaúrgangs í samstarfi við heilbrigðieftirlitin. Þá verður farið í eftirliti til þeirra sem framleiða rafhlöður, rafgeyma og raf- og rafeindatæki á Íslandi og áhersla lögð á fræðslu og miðlun á þessum málaflokki. 

Raftækjaúrgangur er sá úrgangsflokkur sem er hvað mest vaxandi í heiminum og var söfnun á raftækjum árið 2016 aðeins um 32% á Íslandi. Því er mikilvægt að fræða almenning og fyrirtæki um söfnun og rétta förgun á slíkum úrgangi

Eftirlitstímabil

Tími

Fjöldi framleiðenda og innflytjenda

Tími

Fjöldi sölu- og dreifingaraðila

2015

4 vikur

32 aðilar

2 vika

16 aðilar

2016

4,5 vikur

36 aðilar

2 vikur

16 aðilar

2017

4,5 vikur

36 aðilar

2 vikur

16 aðilar

Hvað á fyrirtæki að gera sem fær athugasemd eftir eftirlitsheimsókn?

 • Ráðast í úrbætur samkvæmt niðurstöðum eftirlitsheimsóknar
 • Hægt að senda fyrirspurnir eða leita ráða hjá ust@ust.is
 • Innflutningsaðilar og framleiðendur bera mesta ábyrgðina á því að réttar upplýsingar berist til viðskiptavina. Þá geta þeir aðilar þar sem vörur eru ekki nægilega vel merkar leyst úr því með því að til dæmis:
  • Hafa almennar upplýsingar til viðskiptavina við afgreiðslukassa eða við hillur með rafhlöðum og rafgeymum.
  • Setja upplýsingar á kvittanir til viðskiptavina
  • Setja upplýsingar á vefsíðu
 • Sölu- og dreifingaraðilar bera ábyrgð á því að selja ekki rafhlöður og rafgeyma sem ekki eru leyfileg skv. reglugerð 1020/2011 og þeim ber að taka á móti notuðum rafhlöðum og rafgeymum viðskiptavinum að kostnaðarlausu
  • Setja upp ílát eða móttöku í verslun sem viðskiptavinir geta skilað notuðum rafhlöðum og rafgeymum í
  • Gæta þess að kaupa ekki inn ólöglegar rafhlöður og rafgeyma
Til að ná auknu söfnunarhlutfalli í rafhlöðum og rafgeymum þá er mikilvægt að öllum notendum (fyrirtækjum og einstaklingum) sé kunnugt um hvernig þeim ber að skila af sér þessum vörum þegar þær verða úrgangur.

Síðan 2012 hefur heildarsöfnun rafhlaða og rafgeyma lækkað úr 90% í 58% árið 2016. Árið 2017 var heildarsöfnun komin í 62% en mikilvægt er að söfnunin haldi áfram að aukast. Frekari greiningu á tölfræði þessara flokka má sjá hér. 

Möguleg innihaldsefni í rafhlöðum og rafgeymum geta verið skaðleg heilsu og umhverfi og því er mikilvægt að fá þessa úrgangsflokka aftur til baka til endurvinnslu og endurnýtingar. Með því getum við komið í veg fyrir að efni úr þeim mengi umhverfið okkar og við minnkum sóun á hráefnum eins og nikkel, blý og lithium en mikið af rafhlöðum og rafgeymum eru nú endurunnar og endurnýttar.

Hér fyrir neðan eru dæmi um upplýsingar (texta) sem framleiðendur og innflytjendur eiga að koma á framfæri við viðskiptavini sína en hægt væri að gera það t.d. með því að hengja upp skjal með textanum, við afgreiðslukassa, við hillu þar sem rafhlöður og rafgeymar eru, á kassastrimil eða á vefsíðu fyrirtækisins. Þessi skylda á einnig við sölu- og dreifingaraðila ef hann flytur inn og framleiðir rafhlöður eða rafgeyma (sjá grein 7. í reglugerð nr. 1020/2011um rafhlöður og rafgeyma).


Dæmi um texta

"Rafhlöður og rafgeymar geta innihaldið efni s.s. blý, kadmíum og kvikasilfur sem geta verið skaðleg heilsu og umhverfi. Skilum alltaf vörunum eftir notkun til okkar,  móttökustöðva sveitarfélaga eða til spilliefnamóttöku - neytendum að kostnaðarlausu"

"Setjum ekki hættuleg mengandi efni út í náttúruna - Flokkum og skilum rafhlöðum og rafgeymum – neytendum að kostnaðarlausu"

bæta við þar sem við á:

"Þú mátt skila rafhlöðum og rafgeymum hér"

"Rafhlöður og rafgeymar eru spilliefni og þau mega ekki fara í almennt sorp. Hjálpumst öll að við að flokka og skila. Þú mátt skila vörunum til okkar, móttökustöðva sveitarfélaga eða spilliefnamóttöku og það kostar þig ekki neitt."

Samkvæmt reglugerð nr. 1020/2011 og breytingareglugerð nr. 1090/2015 ber framleiðendum og innflytjendum rafhlaða og rafgeyma að skrá sig í skráningarkerfi í umsjá Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun er heimilt að notast við upplýsingar frá tolla- og skattayfirvöldum um greiðendur úrvinnslugjalds og sækir þær upplýsingar frá viðeigandi yfirvöldum.  Hingað til hefur Umhverfisstofnun fengið upplýsingar um innflytjendur frá Tollstjóra en skortur er á að fyrirtæki skrái sig hjá Ríkisskattstjóra sem framleiðandi. Umhverfisstofnun hvetur fyrirtæki til þess að gera það.

Skrá yfir framleiðendur og innflytjendur

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira