Náttúruvernd

Náttúruvernd snýst um verndun landslagsgerða, náttúruminja og líffræðilegrar fjölbreytni, en með líffræðilegri fjölbreytni er átt við fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og milli vistkerfa. Með náttúruvernd er dregið úr hættu á að líf, land, sjór, vatn eða andrúmsloft spillist eða mengist, reynt að vernda það sem þar er sérstætt eða sögulegt og stuðla að því að íslensk náttúra fái að þróast eftir eigin lögmálum. Um leið er leitast við að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum.

Friðun er ein þeirra aðferða sem beitt er við náttúruvernd. Tilgangur friðunar er margs konar, svo sem verndun búsvæða plantna og dýra, jarðmyndana og landslags. Með friðun er einnig reynt að tryggja rétt okkar og komandi kynslóða til að njóta útivistar í lítt snortinni náttúru.

Náttúruvernd er eitt af helstu viðfangsefnum Umhverfisstofnunar. Undir þennan lið falla friðlýsingar, rekstur friðaðra svæða, gerð og framfylgd Náttúruverndaráætlunar, samskipti við náttúrverndarnefndir sveitarfélaganna, fræðsla um íslenska náttúru og margt fleira. Sjálfbærnivísar eru afar mikilvægt tæki til að fylgjast með hvernig þessu starfi miðar. Hins vegar er ekki alltaf auðvelt að leggja mælistiku á árangurinn og í sumum tilvikum verður hann ekki ljós fyrr en komandi kynslóðir leggja mat á hann. Nokkra þætti er þó auðveldlega hægt að mæla og nýta til að gefa vísbendingu um árangurinn af starfinu.

Markmið

Umhverfisstofnun hefur sett sér eftirfarandi markmið varðandi náttúruvernd:

  • Gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar almenningi og hagsmunaaðilum og gera þeim þannig kleift að hafa áhrif á umhverfi sitt.
  • Vinna að vernd, viðhaldi, endurheimt og nýtingu þeirra auðlinda sem felast í náttúru Íslands, byggt á sjónarmiðum um líffræðilega fjölbreytni, varðveislu jarðmyndana og landslagsheilda.
  • Stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu villtra dýrastofna.
  • Kynna rétt almennings til að njóta útivistar í náttúrunni og með því bæta og tryggja lýðheilsu landsmanna.
  • Vistkerfisnálgun verði beitt við heildstæða stjórnun á umhverfi í vatni og hafi.  

Sjálfbærnivísar

Umhverfisstofnun notar eftirtalda sjálfbærnivísa til að fylgjast með loftgæðum og miðla upplýsingum um þau:

  • Friðlýst svæði
  • Endurheimt votlendis
  • Haförninn
  • Fjöldi starfsvikna
Ísland hefur ákveðnum skyldum að gegna í náttúruvernd, bæði samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum samningum. Heildarflatarmál Íslands er 103.000 ferkílómetrar og á hverjum ferkílómetra búa aðeins rúmlega 3 einstaklingar að meðaltali. Ísland er því strjálbýlasta land Evrópu, og á Íslandi er að finna nánast einu óbyggðu víðernin í álfunni. 

Náttúra landsins er sérstök að mörgu leyti, m.a. vegna þess að Ísland er einn eldvirkasti staður jarðar. Lífríki á landi er tiltölulega fáskrúðugt, en hafið umhverfis landið er einstaklega frjósamt vegna aðstreymis næringarefna. Flatarmál friðlýstra svæða er einn þeirra mælikvarða sem hægt er að nota til að fylgjast með því hvernig Íslendingum gengur að varðveita náttúruleg gæði og náttúrulega sérstöðu landsins.
Súlurit og graf sem sýnir fjölda og flatarmál friðlýstra svæða milli ára
Heimild: Umhverfisstofnun.

Graf sem sem sýnir samanlagða endurheimt á votlendi frá 1993 til 2011Votlendi er mikilvægt búsvæði fugla, smádýra og plantna. Framræsla votlendis þurrkar upp jarðveginn og spillir búsvæðum, auk þess sem framræslan losar um hluta þess kolefnis sem bundið er í jarðveginum. Þetta kolefni losnar út í andrúmsloftið sem koltvísýringur, sem eykur á gróðurhúsaáhrifin.

Votlendi á Íslandi er nú um helmingur þess sem var á landnámsöld. Á síðari hluta 20. aldar var mikið af votlendi þurrkað upp með framræslu mýra, en sú þróun stöðvaðist að mestu um 1993. Síðan þá hefur nokkuð af votlendinu verið endurheimt með markvissum aðgerðum, en annars staðar hefur náttúran smátt og smátt færst til fyrra horfs án aðstoðar manna, með því að framræsluskurðum hefur ekki verið haldið við. Vegagerð á líka sinn þátt í eyðingu votlendis, en á síðustu árum hefur verið kappkostað að endurheimta votlendi í stað þess sem fer undir vegagerð, m.a. vegna ákvæða í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Áætlað er að heildarflatarmál framræsts lands á Íslandi sé um 4.000 km2 eða um 400.000 hektarar.

Heimild: Hlynur Óskarsson, Landbúnaðarháskóla Íslands.

Graf sem sýnir óðul í ábúð arnaÍslenskum stjórnvöldum ber skylda til að viðhalda fjölbreytninni í dýra- og plöntulífi lands og sjávar samkvæmt Samningnum um líffræðilega fjölbreytni og fleiri alþjóðasáttmálum sem Ísland er aðili að. Liður í þessu er að grípa til sérstakra aðgerða vegna tegunda í útrýmingarhættu. 

Haförninn er ein þessara tegunda. Hann var tiltölulega algengur fram eftir 19. öld en fækkaði síðan mjög, enda markvisst unnið að útrýmingu hans. Í byrjun 20. aldar var ljóst að í óefni stefndi. Árið 1914 var örninn friðaður með lögum, en áhrifa friðunarinnar tók ekki að gæta fyrr en eftir 1964 þegar bannað var að eitra fyrir ref. Þá urpu aðeins um 20 arnarpör í landinu, en eru nú komin vel yfir 60. Vernd arnarins er dæmi um árangursríka aðgerð í náttúruvernd.

Heimild: Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Graf sem sýnir vinnuframlag landvarða og sjálfboðaliða 2006 til 2012Fjöldi starfsvikna landvarða og sjálfboðaliða er einn þeirra mælikvarða sem geta gefið vísbendingu um hvernig miðar í náttúruverndarstarfinu, eða í það minnsta um þá áherslu sem lögð er á það starf. 

Landverðir hafa umsjón með margvíslegum störfum í þjóðgörðum og á náttúruverndarsvæðum víðs vegar um landið. Meðal annars má nefna móttöku og fræðslu til ferðamanna, náttúruvernd og eftirlit og rekstur gestastofa. Auk landvarða starfar fjöldi sjálfboðaliða í þjóðgörðum landsins á hverju sumri. 

Fjöldi starfsvikna er hér birtur frá árinu 2006 en það ár var Vatnajökulsþjóðgarður stofnaður.

Heimild: Umhverfisstofnun.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira