Flokkun og endurvinnsla

Allir hlutir sem við notum verða á endanum að úrgangi. Það er því nauðsynlegt að hafa í huga að til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum úrgangs er mikilvægast að draga úr myndun hans, þ.e. með því að nýta hluti vel og forðast einnota hluti. Sé það hins vegar ekki mögulegt er næstbesti kosturinn sá að leggja áherslu á að hluturinn komist í endurvinnslu.

Úrgangurinn okkar er hráefni sem við getum endurunnið aftur og aftur. Þegar auðlindir eins og málmar, olía, matvæli eða annað er af skornum skammti í heiminum er ekki vænlegt að sóa þessum auðlindum með því að grafa þau í jörðu. Margir spyrja sig hvort það borgi sig virkilega að senda endurvinnanlegan úrgang erlendis en það gerir það svo sannarlega því þá erum við að draga úr auðlindanotkun og um leið að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna urðunar. Það er undir okkur komið að hráefnið sem til er á jörðinni haldist áfram í notkun í stað þess að þurfa sífellt að sækja nýtt hráefni.

Við eigum að flokka úrganginn okkar af því að við viljum draga úr auðlindanotkun og sóun. Markmiðið fyrir árið 2020 er að ná að endurvinna 50% af úrgangi frá heimilum en raunin er í dag er að einungis um 30% endurunnið.

 • Hráefni í notkun og sem fara til endurvinnslu eru verðmæti
 • Hráefni sem úrgangur er mengun 

Af hverju ættum við að flokka?

Því tæknivæddari og flóknari sem vara er, því fleiri og mismunandi hráefni þarf til að framleiða hana og því endar hlutfallslega minna af hráefninu í lokaafurðinni.

Allt sem fer óflokkað í ruslatunnuna hjá okkur endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni. Úrgangur er ýmist brenndur eða brotnar niður á löngum tíma á urðunarstöðum og við það losna efni af ýmsum toga eða þá brotna nær ekkert niður og safnast þá upp í miklu magni. Flokkun og endurvinnsla er því algjört lykilatriði í því að forða hráefnum frá því að verða mengunarþáttur.

Hvað er hægt að endurvinna?

Langflest það sem við notum á degi hverjum er hægt að endurvinna. Ef nefna ætti eitthvað sem ekki er hægt að endurvinna þá væri það til dæmis tyggigúmmí, svampur eða einnota bleyjur. Timbur, plast, gler og pappír missa ekki eiginleika sína þó að við höfum ekki lengur not fyrir það og málma er hægt að endurvinna margoft án þess að verðmæti þeirra minnki. Pappír er einnig mjög hentugur til endurvinnslu en hann er hægt að endurvinna fjórum til sjö sinnum án þess að hann tapi gæðum.

Sumt af því sem við notum inniheldur skaðleg efni og kallast sá flokkur efna og vöru einu nafni - spilliefni. Slíka hluti verður að flokka og skila inn til endurvinnslu því það er einfaldlega bannað að urða þá eða brenna. Þar má nefna rafhlöður, olíumálningu, terpentínu, tjöruleysi, lyf og margt fleira.

Hvernig byrja ég að flokka?

Engin ein leið er best, heldur ætti hver og einn að setja upp þá aðstöðu sem hentar þeim og þeirra heimili. Við eigum það til að flækja hlutina óþarflega mikið en það þarf yfirleitt ekki miklar breytingar á heimilum okkar til að rýma fyrir flokkun. Þetta þarf t.d. ekki að vera flóknara en að hengja poka á bak við hurð eða inni í skáp fyrir plastið og setja pappírinn í einhvern kassa sem við eigum eða margnota poka með botni. Sama á við um aðrar tegundir úrgangs.

Hættum að velta flokkuninni fyrir okkur og byrjum bara. Það er algjört glapræði að við séum að urða allt þetta fína hráefni. Um leið og við tökum t.d. pappírinn og plastið frá, þá sjáum við strax mikinn mun á magni úrgangsins sem fer í urðun og okkur líður miklu betur þegar við vitum að við erum að leggja okkar af mörkum.

Sveitarfélögin sjá um sorphirðu fyrir íbúa sína svo það er gott að athuga hvaða þjónustu það býður uppá. Einnig er hægt að kaupa þjónustu frá einkaaðila ef við viljum að flokkaði úrgangurinn sé sóttur heim til okkar. Svo er líka mjög auðvelt að skottast bara með flokkaða sorpið okkar á grenndar- eða endurvinnslustöðvar en þær eru t.d. einar 80 talsins á höfuðborgarsvæðinu og því auðvelt að nýta sér þær.

Sama á við um fyrirtæki. Allir ættu að flokka úrganginn sinn en fyrirtæki þurfa hins vegar að fá einkaaðila til að sækja úrganginn eða fara með hann sjálf.

Sorphirða fyrir flokkaðan úrgang er yfirleitt ódýrari vegna þess að hann er söluvara en hér má sjá kostnaðinn í Reykjavík (september 2017):

Tunna

Flokkur

 

Lítrar

sótt

krónur á ári

Græn

plast

 

240

21 daga fresti

9.300

Blá

pappír/pappi

 

240

21 daga fresti

9.400

Grá

blandaður úrgangur

 

240

14 daga fresti

22.800

Grá (spar)

blandaður úrgangur

 

120

14 daga fresti

12.700

Í þessu dæmi sjáum við að það er ódýrara að fá spartunnuna og t.d. Grænu tunnuna fyrir plastið heldur en að hafa bara eina tunnu fyrir almennt sorp. Síðan er hægt að fara með pappírinn á grenndarstöð.

Svo er líka hægt að fá endurvinnslutunnur frá einkafyrirtækjum eins og Íslenska gámafélaginu og Gámaþjónustunni en báðir aðilar bjóða upp á eina tunnu sem tekur pappír, plast og málma í sömu tunnuna. Kostnaðurinn við eina slíka tunnu og litla tunnu fyrir almennt sorp er u.þ.b. sá sami á ári.

 

Úrgangur er ekki rusl nema óflokkað sé 

Að leifa mat er ekki góður siður. Ekki nóg með að þá fari maturinn sjálfur til spillis og enginn fær að njóta hans heldur er um leið verið að sóa fjármunum og auðlindum jarðar. Þar að auki tekur maturinn mikið pláss á urðunarstöðum heimsins, kyrfilega pakkaður í plastpoka og fluttur um langan veg. 

Vestræn lönd sóa gífurlegu magni matvæla á hverju ári sem hefðu hugsanlega geta brauðfætt milljónir manna. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna metur það sem svo að 1,3 milljón tonn af matvælum fari í ruslið á hverju ári. Semsagt um þriðjungur þess matar sem keyptur fer beint í ruslið.

Talið er að á Vesturlöndum hendi hver einstaklingur nýtanlegum mat að virði um 60.000 króna á ári. Í fjögurra manna fjölskyldu gerir það 240.000 krónur á ári. Hver vill ekki nýta þessar krónur í aðra hluti en til metanframleiðslu á urðunarstöðum? 

Lestu frekar um matarsóun, hugmyndir til að minnka hana og aðgerðir gegn matarsóun á Íslandi á www.matarsóun.is

Plast var uppgötvað í kringum aldamótin 1900 og varð strax mikilvægur staðgengill fyrir vörur sem gerðar voru úr dýrum s.s. horn, skjalbökuskeljar o.fl. Plast kemur við sögu í lífi flestra á hverjum degi og er hluti af nánast öllum okkar daglegum athöfnum, bæði heima við og  í vinnu. Vörur úr plasti geta verið vörur sem auka öryggi okkar eins og öryggishjálmar- og gleraugu ásamt barnabílstólum. Margar vörur sem auðvelda líf okkar eru úr plasti t.d. umbúðir utan um matvæli, tölvur, farsímar og burðarpokar. Einnig er plast í vörum sem hafa skemmtanagildi fyrir okkur eins og leikföng, sjónvörp og annað.

Plast er því orðið nánast órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi og hefur marga kosti en því miður hefur samfélag okkar þróað með sér gríðarmikla neyslu og notkun á plasti, bæði fjölnota og einnota. Eins og með alla aðra hluti þurfum við að komast út úr þeim vítahring að líta hluti sem einnota, enda mikil umhverfisáhrif sem fylgja framleiðslu vara og því sorglegt að sóa auðlindum okkar á þann hátt. 

Til að framleiða plast er að mestu leyti notuð olía og jarðgas en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Eins og svo margt annað sem við erum að nýta frá jörðinni þá eru olíuauðlindir okkar ekki endurnýjanlegar. Sem þýðir að á endanum mun auðlindin klárast. Þess vegna er mikilvægt að fara vel með okkar dýru olíuauðlind og eyða henni ekki í efni sem síðan er hent eftir aðeins eina notkun.

Eiginleikar plasts eru þannig að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill. Plast er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri plasthluta í náttúrunni, kallað örplast. Plast er það létt efni að það flýtur. Það getur þar af leiðandi borist um hundruði kílómetra í vötnum og höfum og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum. Gríðarstórir flákar af plasti hafa þegar myndast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi þar sem hafstraumar hafa borið plastið þangað. Það er síðan fast þar í þessum gríðarstórum hringstraumum sem þar eru.

Magn umbúðaplasts

Notkunartími einnota plasts er mjög stuttur því einnota umbúðum er hent um leið og búið er að drekka vatnið, kaffið, borða brauðið, ávextina og fleira. Að meðaltali er talið að hver plastpoki sé notaður í um 20 mínútur og endi síðan í ruslinu eða úti í náttúrunni. Þessi óþarfa notkun á einnota plasti verður til þess að allt of mikið er til af því og það safnast fyrir í umhverfinu og veldur skaða á lífríki.

Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 40 kg á hvern íbúa á hverju ári eða alls á Íslandi um 13.000 tonn á ári. Þegar við tölum um umbúðaplast er átt við allt umbúðaplast sem tengist lífi einstaklings, heimili, skóli, vinna. Endurvinnsla á umbúðaplasti er aðeins um 11- 13% á Íslandi. Ekki eru til góðar heildartölur fyrir annað plast sem ekki er skilgreint sem umbúðir og er t.d. í raftækjum, leikföngum, húsgögn og slíkt. Svo þær tölur vantar hér.

Áhrif plasts á heilsu, lífríki og umhverfi

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á efnum í plasti og áhrifum þeirra á heilsu og umhverfi okkar. Áhyggjur manna eru aðallega tvíþættar: Í fyrsta lagi þá er ýmsum efnum (þalötum (e. phthalates), bisphenol A (BPA) og eldvarnarefnum (PBDEs og TBBPA) bætt út í plastið til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum. Við notkun geta efnin losnað úr plastinu og haft skaðleg áhrif á heilsu og umhverfi. Þessi efni eru þrávirk og safnast fyrir í lífverum upp fæðukeðjuna. Rannsóknir hafa sýnt að ákveðin efni úr plasti hafi mögulega hormónaraskandi áhrif. Þalöt sem notuð eru í t.d gólf vínil, matarumbúðir og sjúkragögn hafa fundist í mælanlegu magni í börnum og fullorðnum en talið er að þetta efni geti haft áhrif á þroska kynfæra drengja. Efnið bisphenol A (BPA) sem notað er t.d. í drykkjarflöskur og matarumbúðir getur lekið út í matinn. Efnið er hormónaraskandi og hefur verið tengt við hjartasjúkdóma og sykursýki. Um ákveðin þalöt og BPA efni gilda þó strangar takmarkanir og bönn í dag.  Í svokölluðu PVC-plasti er klór sem gerir það að verkum að bæði framleiðsla þess mengar meira en mörg önnur plastframleiðsla og við brennslu getur myndast díoxín. Það vantar þó fleiri rannsóknir, sér í lagi  lýðheilsurannsóknir og rannsóknir á því hvort öll þessi efni geti haft samverkandi áhrif á heilsu og umhverfi okkar.

Í öðru lagi þá loða ýmis eiturefni vel við plast. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ýmis eiturefni geta loðað við plastagnir s.s. skordýraeitur, úrgangsefni frá bílum, iðnaði og landbúnaði, þessi eiturefni innbyrða dýrin með plastinu sem fer síðan út í vefi og líffæri dýranna. Rannsókn vísindamanna í Pangea- leiðangrinum sem farinn var frá Bermúda til Íslands í júní 2014, sýndi að sjávardýr og fuglar ruglast oft á þessum plastögnum og mat, sem sást á bitförum á plasti og magainnihaldi dýra. Einnig voru vísbendingar um að tenging sé á milli þess hve mengaðir fiskarnir eru og magni plastrusls í hafinu. Vegna eiginleika plasts til að fljóta geta eiturefni sem festast við plastið á einum stað borist víða vegu og mengað staði og dýr á fjarlægum stöðum. Líkur eru á að eiturefni sem loða við plast geti borist hærra og hærra upp fæðukeðjuna og að endingu til okkar. 

Plastrusl í hafi getur einnig haft verulegan kostnað í för með sér fyrir útgerðir þegar það festist í veiðarfærum, skrúfum o.s.frv. Til að mynda er talið að minnsta kosti 8 milljónir tonna af plasti endi í hafinu. Til Hornstranda berst mikið af rekavið frá hafi en í dag rekur þar einnig á fjörur gríðarmikið magn af plastrusli. Þar fer fram árlegt hreinsunarátak sem margir aðilar koma að til að hreinsa rusl úr fjörum í friðlandinu. Varðskipið Ægir flutti til að mynda um 46 rúmmetra af rusli til hafnar á Ísafirði sumarið 2015. Sambærileg hreinsun er nú hafin á ströndum Rauðasands þar sem sjálfboðaliðar og stofnanir taka til höndum. Einnig hafa samtökin Blái herinn staðið lengi fyrir hreinsunum við strandlengjuna og í maí 2017 hleypti Landvernd ásamt fleirum af stað samnorrænu verkefni sem kallast Hreinsum Ísland.

Það er ekki gott til þess að vita að í íslenskri náttúru sem við viljum kalla ósnortna, séu fleiri tonn af rusli bæði frá Íslendingum og rusl sem borist hefur hingað um óravegu með hafstraumum. Ruslið hefur ekki aðeins slæm áhrif á lífríkið í náttúrunni heldur einnig á ímynd Íslands.

Af hverju skiptir þetta mig máli?

 • Af því plast berst í höf eða vötn, veldur skaða á lífríki og getur drepið dýr. Dýr festast í plastrusli og hljóta af því ljót sár eða deyja vegna þess að þau geta ekki náð í mat. Dýrin geta líka innbyrt litlar plastagnir sem þau fyrir mistök telja vera mat. Þessar agnir geta stíflað meltingaveg dýra og valdið síðan kvalafullum dauðdaga. Plastið getur einnig safnast fyrir í dýrum og borist upp fæðukeðjuna og þar með endað í okkar líkama.
 • Plast er að stórum hluta gert úr óendurnýjanlegum auðlindum.
 • Plast getur verið erfitt að endurvinna
 • Í plasti eru stundum efni eins og þalöt, BPA, brómeruð eldvarnarefni og fleiri sem geta safnast fyrir í náttúrunni og geta hafa slæm áhrif á heilsuna.
 • Plast brotnar ekki niður heldur verður að minni og minni ögnum sem veltast um í sjó og vatni eða safnast fyrir í seti og jarðvegi.
 • Plast í sjó, ám og vatni getur virkað sem flutningstæki fyrir dýr og plöntur milli staða sem geta verið ágengar framandi lífverur á nýja staðnum og valdið þar miklum umhverfisáhrifum og breytingum á lífríki.

Hvað get ég gert?

Eins og áður sagði er plast til margs nýtilegs og er okkur mjög mikilvægt, en við erum að nota alltof mikið af því og við erum ekki að endurvinna eða endurnýta nægilega mikið af því. Þess vegna þurfum við að breyta hegðun okkar sem fyrst;

Nokkur góð ráð

 • Hætta notkun á einnota plasti s.s. poka, borðbúnað, umbúðir, rör, kaffimál og fleira.
 • Nota fjölnota matvælaumbúðir t.d. gler, plastbox, úr býflugnavaxi og umbúðir úr náttúrulegum efnum. Taka með okkur ferðamál fyrir drykki, þannig forðumst við plastlok og plaströr
 • Velja umbúðalausar vörur þar sem það er hægt, s.s. grænmeti í lausu eða þurrvörur sem hægt er að hella beint í eigið ílát. Taka með eigin ílát í kjöt- og fiskborð í búðinni. 
 • Flokka allt sem við getum, þar með minnkar þörf á einnota ruslapokum.
 • Velja hreinlætisvörur sem innihalda ekki t.d. polyethylene efni sem er plast og í tilvikum hreinlætisvara er það kallað örplast sem skolast beint út í sjó þegar við notum það.
 • Búa til eigið umhverfisvænt hreingerningarefni og geyma í glerflöskum eða brúsum sem við getum notað aftur og aftur
 • Kaupa minna af plastdóti, velja t.d. frekar heimilisbúnað og leikföng úr við eða öðrum efnum.

Plast er ekki bara plast heldur eru til margar mismunandi gerðir af því og til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum t.d. mýkt, endingu, að það brenni síður og hörku eru ýmsum efnum bætt út í það.

Til að hægt sé að búa til nothæfa afurð þarf að aðskilja ólíkar plasttegundir. Endurvinnslu- og/eða móttökuaðilar sjá yfirleitt um það. Neytendur ættu þó að vera meðvitaðir um mismunandi tegundir plasts því þær henta misvel til endurvinnslu og hafa ólík áhrif á umhverfið. Forsenda þess að hægt sé að flokka umbúðir rétt er að þær séu merktar á viðeigandi hátt. Merkin eru ýmist númer eða skammstöfun en samband númers og plasttegundar má sjá í töflu hér að neðan. Plasti er skipt upp í 19 tegundir sem númeraðar eru frá 1 upp í 7. Innan flokks nr. 7 rúmast 13 tegundir og hentar sá flokkur því illa til endurvinnslu.

 

Númer

Skammstöfun

Heiti

Dæmi um vöru

Athugasemd

Hala niður plastmerkingu

PET

Polyethylen terephthalat

Gosflöskur og flíspeysur.

Hentar mjög vel til endurvinnslu.

Slóð .EPS

Slóð .PNG

HDPE

Polyethylen - High Density (HDPE)

Umbúðir fyrir snyrtivörur og flöskur

Eitt algengasta og mest notaða plastefnið, hentar vel til endurvinnslu.

Slóð .EPS

Slóð .PNG

PVC

Polyvinylchlorid

Plastfilma, leikföng og regnföt

Framleitt úr lífrænum klórsamböngum og er mengandi bæði við framleiðslu og förgun.

Slóð .EPS

Slóð .PNG

LDPE

Polyethylen - Low Density (LDPE)

Innkaupapokar, ruslapokar og frystiumbúðir

Eitt algengasta plastefnið.

Slóð .EPS

Slóð .PNG

PP

Polypropylen

Bílar og gólfteppi, í matvælaumbúðum svo sem jógúrt- og skyrdósir.

 

Slóð .EPS

Slóð .PNG

PS

Polystyren

Frauðplast svo sem plastbakkar og áhöld.

 

Slóð .EPS

Slóð .PNG

AÐRAR, OTHER, A, O

Allt annað plast, t.d. ABS, EVA, nylon, akrýl

LEGO kubbar, flöskur og öryggisgler.

Slóð .EPS

Slóð .PNG

Raf- og rafeindatæki er sá flokkur úrgangs sem hefur aukist hvað mest í Evrópu síðustu árin. Raftæki eru gott dæmi um vöru sem þarf hráefni sem sótt eru út um allan heim t.d. er báxít sem notað er til að búa til ál frá Ástralíu, blý frá Rússlandi, Kína, Kanada. Járn frá Japan Suður Kóreu, Indlandi. Kopar frá Bandaríkjunum, Kanada, Brasilíu. Stál frá Kína, Evrópu og Japan, olía frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Kanada og Íran og svo mætti lengi telja. Hráefnin í vörurnar eru sótt frá öllum heimshornum, sett saman á einum stað og svo flutt á milli landa til sölu eða notkunar. Því tæknivæddari og flóknari sem vara er, því fleiri og mismunandi hráefni þarf til að framleiða hana og því endar oft hlutfallslega minna af hráefninu í lokaafurðinni. Allt þetta ferli hefur í för með sér mikil neikvæð umhverfisáhrif.

Þess vegna er mikilvægt að böndum sé komið yfir bæði ofneyslu á þessum vörum og að þeim sé skilað í endurvinnslu eða endurnýtingu þegar fólk hættir að nota tækin. Endurnýting og endurvinnsla á efnum eins og kopar, gull o.fl. minnkar ágang á óendurnýjanlegar auðlindir jarðarinnar en aðeins um 37% raf- og rafeindatækja skila sér til endurvinnslu í dag.

Raftæki geta innihaldið m.a. efni eins og kvikasilfur, kadmíum, blý, kopar, brómeruð eldtefjandi efni og plastefnið PVC. Öll þessi efni geta verið skaðleg umhverfi okkar og heilsu. Árið 2006 var sett bann við að flytja inn, flytja út, dreifa eða selja ný raftæki ef í þeim væri blý, kadmíum, kvikasilfur, sexgilt króm, PBB (fjölbróm-bífenýl) eða PBDE (fjölbróm-dífenýleter), en eldri raftæki gætu innihaldið eitthvert þessarra efna.  Raftæki eiga alls ekki að fara í tunnuna fyrir venjulegt heimilissorp og eiga öll ný raf- og rafeindatæki að vera merkt með yfirstrikaðri sorptunnu sem gefur það til kynna.

Nokkur góð ráð

 • Förum vel með raftækin en gott viðhald á raftækjum tryggir betri endingu þeirra og minnkar brunahættu.
 • Gera við raftæki fremur en að kaupa ný
 • Gefið raftæki sem ekki nýtast lengur til annarra eða farið með þau á nytjamarkaði
 • Skilum öllum úr sér gengnum raftækjum á endurvinnslu- eða móttökustöð, gjaldfrjálst
 • Rafhlöður fara að leka með tímanum og geta skemmt raftækið.
 • Raftæki eiga að vera CE merkt. CE merking gefur til kynna að tækið uppfylli þær lágmarkskröfur um öryggis-, heilsu- og umhverfisvernd sem tilskipanir Evrópusambandsins kveða á um.
 • Minnkum rafmagnsnotkun. Að setja rafmagnstæki í biðstöðu (stand by) eyðir líka rafmagni svo best er að slökkva alveg á tæki eða taka það úr sambandi.

Á Íslandi eru nokkrir aðilar sem taka á móti notuðum raf- og rafeindatækjum, gera við þau og koma aftur í endurnotkun s.s. Fjölsmiðjan og mögulega aðrir tækniskólar. Endilega hringið áður en þið losið ykkur við tækin.

Rafhlöður og rafgeymar flokkast sem spilliefni vegna þeirra efna sem þau geta innihaldið eins og  kadmíum, kvikasilfur, blý og ætandi sýrur. Yfirleitt ber rafhlaðan merkingar sem tilgreina hvaða efni hún inniheldur en því miður ekki alltaf. Þess vegna er mjög mikilvægt að farga öllum rafhlöðum á sama hátt en samkvæmt lögum er bannað að henda rafhlöðum með óflokkuðum úrgangi. Gott er að velja Svansmerktar rafhlöður en þá er víst að þær innihaldi ekki óæskileg efni eða endurhlaðanlegar rafhlöður sem þá eru nýttar aftur og aftur í stað þess að sífellt þurfi að kaupa nýjar rafhlöður og henda þar af leiðandi fleirum.

Hægt er að skila notuðum rafhlöðum á endurvinnslustöðvar, til spilliefnamóttöku og til sölu- og dreifingaraðila (bensínstöðvar, raftækjaverslanir og fleiri) rafhlaða og rafgeyma. Athugið að gamlar rafhlöður geta lekið og því er ekki gott að geyma þær lengi. Hægt er nálgast ílát fyrir ónýtar rafhlöður hjá t.d. endurvinnslustöðvum SORPU og Efnamóttökunni.

Fyrir frekari upplýsingar um magn og endurvinnslu á raf- og rafeindatækjum og rafhlöðum og rafgeymum er hægt að skoða tölfræði http://ust.is/einstaklingar/urgangur/tolfraedi/

Vart er hægt að hugsa sér daglegt líf án notkunar vefnaðarvara. Heimili okkar er fullt af allskonar vefnaðarvörum, s.s. fatnaðinum sem við klæðumst, handklæði og rúmföt sem við notum daglega.

Fyrirtæki sem framleiða og flytja inn vefnaðarvörur bera ábyrgð á að vörurnar séu öruggar og valdi ekki skaða, hvorki á heilsu manna eða umhverfi. Þrátt fyrir það er við framleiðslu vefnaðarvara notaður fjöldi efna, hvort sem er við framleiðslu hráefnis eða vöruna sjálfra. Við framleiðslu hráefnisins t.d. bómull eru oft notuð varnarefni, til að koma í veg fyrir skemmdir á plöntunni. Við meðhöndlun hráefnis til framleiðslu nýrra þráða og tilbúinnar vefnaðarvörur eru notuð efni eins og bleikingaefni, litarefni, mýkingaefni og þvottaefni. Áður en varan er send á markað er hún einnig oft meðhöndluð með efnum til að koma í veg fyrir myglu og skemmdir af völdum meindýra.

Það eru ákveðnar reglur í gildi við notkun efna í en þrátt fyrir það eru ennþá notuð efni í vefnaðarvörum sem geta verið hættuleg, og þess vegna er áfram unnið við frekari takmarkanir á notkun slíkra efna við framleiðslu og markaðssetningu vefnaðarvara.

En hvað er vefnaðarvara?

Vefnaðarvörur eru þræðir úr allskonar efnum svo sem ull, bómull og viskósa en einnig tilbúnum trefjum og plastefnum sem hægt er að spinna í þræði. Síðan er vefnaðurinn notaður í allskyns vörur; fatnað, skó, rúmföt, gluggatjöld, garn, gólfteppi, húsgagnaáklæði og tjöld svo eitthvað sé nefnt.

Við framleiðslu þráðanna er notaður fjöldi mismunandi efna til að bæta og breyta eiginleikum vefnaðarins. Þetta eru eiginleikar eins og áferð, mýkt og vatnsfráhrindandi eiginleikar. Þræðirnir geta einnig verið meðhöndlaðir með mismunandi efnum, bæði við framleiðslu þráðanna og seinna við sjálfa vefnaðarframleiðsluna.

Leifar þessara efna geta komist í snertingu við húð þegar við notum vöruna eða þegar við öndum að okkur ryki eða lykt frá vörunni. Einnig geta efnin borist í umhverfið við framleiðslu vefnaðarvaranna og þegar við þvoum þær. Það skiptir því máli fyrir heilsu og umhverfi hvaða efni eru notuð við framleiðslu vefnaðarvörunnar og hvaða efnaleifar eru í hinni tilbúnu vöru.

Fatasóun

Í dag er framleitt gríðarlega mikið af fatnaði. Framleiðslan er ódýr vegna þess að meðal annars er umhverfiskostnaður ekki tekinn inn í verðið við framleiðsluna. Heilmikið af efnavöru og auðlindum þarf til framleiðslu á vefnaði eins og ræktarland, notkun á vatni, skordýraeitri og ýmsu fleiru.

Mikil ofneysla er á fatnaði á Íslandi og öðrum Vesturlöndum og mikið er framleitt af endingarlitlum fatnaði. Hver Íslendingur kaupir rúmlega 17 kg af vefnaðarvöru árlega, sem er um þrisvar sinnum meira en meðal-jarðarbúi. Á hverju ári eru framleiddar um 150 milljarðar flíka sem svarar til 20 flíkum á hvert mannsbarn í heiminum árlega.

En hvert fer allur þessi fatnaður? Hafa þarf í huga að vefnaðarvara er auðlind sem á ekki heima í urðun. Í dag er þó um 60% hent í ruslið og endar annað hvort með því að vera brenndur eða urðaður. Aðeins 40% fer í endurnotkun og endurnýtingu. Næstum allur notaður textíll sem safnast á Íslandi er sendur í flokkunarstöðvar erlendis þaðan sem honum er svo dreift til endursöluaðila eða settur í endurnýtingu. Endurnýting felur í sér að aðrar vefnaðarvörur af verri gæðum eru unnar úr textílnum, svo sem tuskur.  

Nokkur góð ráð

 • Draga úr fatakaupum
 • Kaupa endingarbetri flíkur bæði hvað varðar gæði og hönnun
 • Fá lánað og gefins föt sem aðrir eru hættir að nota
 • Gefa föt til annarra
 • Fara með allan textíl, líka það sem er ónýtt, blettótt eða með götum í endurvinnslu
 • Æskilegt er að þvo allan fatnað og heimilisvefnað fyrir notkun í fyrsta skipti
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira