Samgöngur

Flestum okkar finnst þægilegast að grípa í einkabílinn þegar fara þarf á milli staða en ef við ætlum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum hjá okkur sjálfum er auðveldast að gera breytingar á samgöngumynstrinu fyrst.

Samgöngur er ein af aðaluppsprettum losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi auk þess að hafa neikvæð áhrif á loftgæði. Við bruna á jarðefnaeldsneyti og ekki síður við framleiðslu þess og flutning til landsins, losnar mikið af gróðurhúsalofttegundum. Árið 2015 var losun frá vegasamgöngum um 30% af metinni heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (þ.e. þeirri losun sem stjórnvöld eru ábyrg fyrir) Sjá frekari umfjöllun um loftslagsmál hér.

Enn sem komið er nota Íslendingar einkabílinn í mun meira mæli en margar Evrópuþjóðir. Í könnun Evrópusambandsins árið 2013 um viðhorf evrópubúa til samgangna, kom í ljós að 50% þeirra nota bíl á hverjum degi. Samkvæmt ferðavenjukönnun sem gerð var árið 2008 fóru 75% íbúa á höfuðborgarsvæðinu á einkabíl til vinnu eða skóla, 6% með almenningssamgöngum og 12% gangandi og hjólandi. Samskonar könnun var gerð árið 2011 og niðurstöðurnar sýna að litlar breytingar hafa orðið á ferðamáta höfuðborgarbúa. Árið 2011 fóru 75% íbúa á höfuðborgarsvæðinu á einkabíl þennan dag sem könnunin var gerð. 4% fóru með strætó, 3.8% á hjóli og 15% gangandi. Í sömu könnun kom fram að á heimilum 40% höfuðborgarbúa eru tveir bílar og einn bíll á 43% heimila, aðeins 4,3% svöruðu því til að á heimilinu væri enginn bíll. 

ganga og hjóla er ekki aðeins gott fyrir umhverfið og fjárhaginn heldur líka mjög góð hreyfing. Könnun á ferðavenjum höfuðborgarbúa árið 2012 sýndi að meðalvegalengd milli heimilis og vinnu á höfuðborgarsvæðinu er aðeins um 6 km löng og ferðatími um 11 mínútur, en slíkar vegalengdir eru t.d. fljótfarnar á hjóli. Það er því mikill misskilningur að ekki sé hægt að nota hjól á Íslandi sem valkost í samgöngum.

Samtökin Hjólafærni hafa útbúið nokkur kort sem sýna hvað fjarlægðir eru í raun og veru stuttar í borgum og bæjum landsins og að það taki ekki langan tíma að nýta hjólið sem ferðamáta. Kortin sýna radíus sem má hjóla út frá miðju á 6 eða 15 mínútum í allmörgum sveitarfélögum. Göngu- og hjólreiðastígar höfuðborgarsvæðinu verða betri með hverju árinu. Um leið dregur úr álagi á samgöngumannvirki og kostnaði samfélagsins vegna viðhalds og reksturs og þar með umhverfisáhrifa.

Að nota almenningssamgöngur sparar einnig útblástur gróðurhúsalofttegunda ef það dregur úr notkun einkabílsins. Samtímis minnkar álag á samgöngumannvirki, kostnað vegna viðhalds og reksturs lækkar og samhliða minnka umhverfisáhrif.  Ekki láta það hræða þig að ferðin taki 20- 30 mín, að vera á eigin bíl er kannski einhver tímasparnaður en mun dýrara, auk þess getur svona slökunartími í strætó verið afar dýrmætur, eða til að skipuleggja daginn og fjölskyldulífið. Svo þarf ekki að hafa áhyggjur af færð, skafa glugga og finna bílastæði. Við erum líka einstaklega heppin á Íslandi hvað vegalengdir eru stuttar til og frá vinnu. Það kemur mörgum á óvart þegar þeir skoða í fyrsta sinn strætóleiðir í nágrenni við sig, oft jafnvel munar ekki svo miklu í tíma hvort farið er með strætó eða eigin bíl.

Um það bil 45.000 manns ferðast með Strætó á hverjum degi en hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu er þó aðeins um 4% allra ferða. Ef við berum saman fjárhagslegan ávinning af því að nota strætó eða eiga bíl þá kostar t.d. heilsárskort hjá strætó um 60.000 kr. en samkvæmt FÍB er rekstrarkostnaður ökutækis, sem kostar 2,8 milljónir og er ekinn 15.000 km á ári, um 1.200.000. Fyrir þann pening er því hægt að fjármagna kaup á strætókortum í 20 ár. Innan þess ramma er alveg hægt að leyfa sér að leiga bílaleigubíl eða nota leigubíl fyrir t.d. stærri innkaupaferðir.

Á Íslandi eru bæði hjólreiðar og almenningssamgöngur raunverulegur kostur fyrir flesta. Það má spara miklar upphæðir og losun gróðurhúsalofttegunda á ári hverju með því að losa sig við einkabílinn. Venjum börnin okkar á að ganga, hjóla eða taka strætó, þau eru fljót að læra á kerfið og verða sjálfstæðari fyrir vikið. Það er tvímælalaust hagræðing fyrir alla aðila og kemur í veg fyrir heilmikla keyrslu til og frá vinum eða frístundum.

Samgöngusamningar verða sífellt vinsælli kostur bæði hjá stofnunum og fyrirtækjum. Eftir því sem ökutækjum fjölgar og bílastæðum fækkar verður nauðsynlegra fyrir þessa aðila að finna aðrar og betri leiðir fyrir starfsfólk sitt til að komast til og frá vinnu. Auk þess hafa visthæfar samgöngur ákveðna heilsufarslega kosti og ýta undir það að starfsfólk hjóli, gangi eða noti strætó í stað einkabíls. Kostnaður fyrirtækja við gerð og viðhald á bílastæðum getur einnig verið mikill og því töluvert hægt að spara með vistvænum samgöngum starfsmanna. Samgöngusamningarnir geta verið með ýmsum hætti en yfirleitt er gert samkomulag þess efnis að starfsmaðurinn skuldbindur sig til þess að hjóla, ganga eða nota strætó minnst þrisvar í viku.

Samakstur og sameign á bílum

Þurfum við endilega að eiga okkar eigin bíl? Þegar við förum að nota visthæfar samgöngur þá þurfum við sjaldnar á bíl að halda og því gæti verið þægilegt að sleppa því að eiga eigin bíl en hafa frekar afnot af bíl með öðrum og geta gripið til hans þegar þarf. Þannig höldum við bæði í vistvænni lífsstíl og nútímaþægindi að geta ferðast á milli staða án þess að þurfa að skipuleggja okkur um og of. Kannski er einhver sem þú þekkir, til í að taka þig uppí á leiðinni í vinnuna gegn t.d. því að greiða hluta af bensíninu? Svo er líka hægt að prufa að eiga bíl með öðrum og skiptast á að nota hann.

Visthæfir leigu- og bílaleigubílar

Við neytendur getum haft áhrif á framboð og eftirspurn, en með því að óska eftir umhverfisvænni leigu- og bílaleigubílum þegar við þurfum á þeim að halda, sköpum við þrýsting á þjónustuaðila og hvetjum þá til þess að bjóða upp á slíka kosti. Í dag getum við miðað við að visthæfur bíll losi minna en 120 gr af CO2 á km eða að hann sé rafmagns- eða metanbíll.

Bílar eru ekki umhverfisvænir og verða það aldrei, vegna umhverfisáhrifa sem verða til við framleiðslu þeirra, notkun og förgun. Þó er hægt að velja bíla sem hafa minni neikvæð umhverfisáhrif en aðrir bílar. Aðstæður eru breytilegar þegar skoðaður er umhverfisvænasti bílakosturinn og er megin ástæðan fyrir því hver uppspretta orkunnar er. Á Íslandi eru það bílar sem ganga alfarið á rafmagni eða metani. Báðir orkugjafarnir eru innlend framleiðsla, rafmagnið er framleitt úr grænni orku og metanið verður til á urðunarstöðum. Metanið sem ekki er nýtt á bílana sleppur út í andrúmsloftið sem mjög virk gróðurhúsalofttegund eða er brennt á urðunarstöðum. Á Íslandi eru rafmangnsbílaeigendur háðir því að geta hlaðið bílinn sinn á lengri ferðum en slíkt verður raunhæfara með hverjum mánuði sem líður þar sem sífellt fleiri hleðslustöðvar fyrir rafbíla eru settar upp um allt land. Á vefsíðu ON má  t.d. sjá hvar á landinu þær eru. Metan er enn sem komið er aðeins fáanlegt á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.

Næst besti kosturinn í bílakaupum eru tvíorku bílar þ.e. bílar sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni eða metani og bensíni.

Kostir umhverfisvænni bíla eru ótvíræðir en þeim fylgir bæði fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur. Orkan sem þeir nota er ódýrari og hefur minni neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. Þess má geta að virðisaukaskattur hefur verið lagður niður á rafmagnsbifreiðar í nokkur ár og vörugjöld af ökutækjum er breytilegt eftir skráðri losun koltvísýrings ökutækisins.  Upphæð bifreiðagjalds fer einnig eftir þyngd bifreiðar og losunar koltvísýrings (CO2). 

Umhirða og rekstur bíla

Mest öll efnisnotkun er almennt óæskileg þegar við skoðum þau út frá umhverfismálum. Bæði efnin sjálf geta verið skaðleg ef þau fara út í náttúruna óhreinsuð og svo er það líka framleiðsla efnanna sem hefur umhverfisáhrif. Reglurnar eru almennt þessar:

  1. Þvo bílinn á bílaþvottastöð þar sem frárennslisvatn er að einhverju leyti hreinsað eða efni af bílum skolast frá og eru meðhöndluð sem spilliefni. Það er betra að óæskileg efni fari í frárennsli þar en í afrennsli heima á bílaplaninu sem fer beint í ofanvatn án hreinsunar.
  2. Sleppa hreinsiefnum eins og hægt er eða
  3. Fá umhverfisvottuð hreinsiefni, bón og aðrar vörur til þvotta á bílnum.

Kolefnisjöfnun

Eins og fram hefur komið fylgir öllum okkar daglegu athöfnum losun gróðurhúsalofttegunda. Það verður að þykja afar ólíklegt er að við náum að draga svo mikið úr neyslu og öðrum athöfnum að við munum ekki hafa nein áhrif á umhverfið okkar. Þá er hins vegar hægt að líta til kolefnisjöfnunar en í tilfelli Íslands er þar um vannýtt tækifæri að ræða.

Kolefni bindst gróðri með þeim hætti að það nýtir CO2 til ljóstillífunar og umbreytir í lífræn efni, sem geymd eru í gróðri og jarðvegi. Skógrækt er því alþjóðlega viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Á Íslandi eru aðallega tveir aðilar sem bjóða upp á að fólk og fyrirtæki kolefnisjafni útblástur sinn, Kolviður og Skógræktin. Á vefsíðu Kolviðs er hægt að reikna út hversu mikið bílar og flugferðir einstaklinga og fyrirtækja eru að losa af CO2 og á móti, hversu mörg tré þarf til að binda losunina. Þannig getur fólk tekið enn frekari ábyrgð á losun sinni. Skógræktin hefur einnig verið að bjóða uppá að fyrirtæki geri samning um skógrækt en þar er fyrirkomulagið svipað að ræktað er fyrir jafnvirði útblásturs bíla eða flugferða.

Landgræðsla og endurheimt votlendis eru einnig mikilvægar mótvægisaðgerðir en best er að leita sér upplýsinga á vefsíðum Landgræðslunnar og Landbúnaðarháskóla Íslands eða hafa samband við þau varðandi slíkt.

Ekki á þó að líta á kolefnisbindingu sem einhvers konar „leyfi til að menga“ og mikilvægt að reyna að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarefna samhliða því sem kolefnisbindingin er aukin. Þá eru einnig óbein umhverfisáhrif af samgöngum sem hafa áhrif á umhverfið þó það sé ekki okkar nánasta umhverfi, líkt og ofnýting auðlinda annarra ríkja, mengun í framleiðslulandi farartækja og svo framvegis. Slík áhrif er mikilvægt að hafa í huga og kynna sér eins og kostur er. 

Ferðalög

Flug er sennilega einn stærsti þátturinn í losun gróðurhúsalofttegunda hjá einstaklingum og eykst mjög nú þegar mun auðveldara er að hoppa upp í flugvél og ferðast um allan heiminn. Losun gróðurhúsalofttegunda frá flugstarfsemi hefur aukist mjög mikið og mun koma til með að aukast meira í framtíðinni. Þess má geta að heildarlosun íslenskra flugrekenda af koltvísýringi árið 2014 var 900.000 tonn í millilandaflugi og rúm 1.000.000 tonn árið 2015. Ein flugferð, fram og tilbaka til Danmerkur losar t.d. um 370 kg af CO2 á farþega, en hægt er að skoða losun ferða á vefsíðu alþjóða flugmálastofnunarinnar ICAO.

Ef við skoðum betur töluna 370 kg af CO2  þá er það svipuð losun og ef fólksbíl er ekinn um 2600 kílómetra (m.v. 140 g CO2/km í meðalakstri) eða tvisvar sinnum í kringum Ísland. 

Það sem við þurfum því alvarlega að skoða er að fljúga minna eða fljúga styttri ferðir og nota meira af t.d. lestarsamgöngum þar sem það er hægt. 

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira