Mengun hafs og stranda

Lífríki hafsins er mikilvæg uppspretta fæðu fyrir mannkynið og sjósókn er gjarnan mikilvægasta atvinnugrein samfélaga við ströndina og jafnvel heilu þjóðanna. Mengun hafsins getur haft víðtæk áhrif. Breyting á efnasamsetningu og lífríki hafsins hefur ekki bara áhrif á veiðar og afkomu fólks heldur í raun allt líf á jörðinni. Mörg mengunarefni eru alvarleg ógn við heilsu þeirra sem neyta sjávarfangs sem mengað er þessum efnum. Rusl á ströndum hefur áhrif bæði á lífríki og útivistargildi fjörunnar

Strendur eru mikilvægar vegna mikillar framleiðni í fjöru og á grunnsævi og sem svæði til að njóta útivistar og til annarrar afþreyingar. Mikill fjöldi fugla sækir fæðu sína í fjöru, sumar tegundir fugla halda til í fjöru að vetri til og dreifast svo upp á land á sumrin. Lífríki fjörunnar er viðkvæmt fyrir hvers konar mengun á öllum árstímum þar sem fjaran er virk allan ársins hring.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með vörnum gegn mengun hafs stranda, með það að markmiði að vernda hafið og strendur landsins gegn mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess, spillt umhverfinu eða hindrað lögmæta nýtingu hafs og stranda.

Mengun hafsins getur haft víðtæk áhrif. Mengunarefni berast til sjávar frá landi sem loftborin mengun (með ryki, úrkomu eða sem uppgufuð efni eða efnasambönd) og með frárennsli frá almennum fráveitum, fyrirtækjum eða öðru afrennsli af landi. Mengun berst einnig í hafið frá starfsemi á hafinu, vegna reksturs skipa og losunar á úrgangi og efnum í hafið. Af allri þeirri mengun sem berst til sjávar eru um 80% upprunnin frá starfsemi í landi (frárennsli af landi og loftborin mengun). Því er ljóst að ef árangur á að nást í að verja hafið gegn mengun er árangursríkast að beina athyglinni að starfsemi í landi.

Strönd á íslandi

Íslendingar hafa stært sig af heilnæmu og tæru hafi og hreinum ströndum. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að sú fullyrðing er um margt á rökum reist. Sömu rannsóknir hafa einnig sýnt að víða getum við tekið okkur á og gert betur. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að Ísland verði í fylkingarbrjósti í baráttunni við mengun heimshafanna. 

Sum mengunarefni og úrgangur berast langar vegalengdir með vindum eða straumum. Alþjóðlegt samstarf er því sérstaklega mikilvægt í baráttunni við mengun hafs og stranda.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira