Framandi tegundir

Grjótkrabbi. Höfundur myndar: Marínó Fannar PálssonFramandi tegundir eru tegundir sem flytjast til nýrra heimkynna og breiðast þar út. Sumar þessara framandi tegunda verða ágengar og hefur samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni skilgreint ágengar framandi tegundir sem tegundir sem flytjast til nýrra heimkynna, breiðast þar út og ógna því lífríki sem fyrir er.

Tegundir sem flytjast milli svæða gera það ýmist af manna völdum eða á náttúrulegan hátt. Flutningur tegunda milli svæða af manna völdum hefur tíðkast frá örófi alda, en í kjölfar iðnbyltingarinnar og með bættum samgöngum, flutningi fólks, ferðalögum og verslun hefur flutningur tegunda milli svæða aukist verulega. Einnig eru fjölmörg dæmi um að tegundir flytjist á milli svæða og út fyrir sín náttúrulegu heimkynni á náttúrulegan hátt, t.d. með vindum, straumum og dýrum. Oft koma þó náttúrulegar hindranir í veg fyrir þennan náttúrulega flutning, t.d. mismunandi loftslag, úthöf, fjallgarðar, eyðimerkur o.s.frv. Með hnattvæðingunni breyttist hegðun manna með þeim hætti að nytjategundir voru fluttar verulegar vegalengdir milli svæða og þannig fluttust tegundir til svæða sem áður voru þeim lokuð af líffræðilegum eða landfræðilegum orsökum.

Við flutning tegunda er ekki sjálfgefið að tegundir nái fótfestu á nýju svæði. Dæmin hafa sýnt að u.þ.b. tíunda hver tegund (5-20%) sem sleppur út í náttúruna á nýju svæði nái fótfestu, og u.þ.b. tíunda hver þessara tegunda (5-20%) verði ágeng. Margar undantekningar eru á þessari reglu, en hryggdýr, sérstaklega spendýr, virðast vera líklegri en aðrir hópar lífvera til að verða ágeng. Þær tegundir sem ná að verða ágengar geta haft gríðarleg áhrif. Þær geta valdið verulegum breytingum á starfsemi vistkerfa, t.d. með afráni, samkeppni eða kynblöndun, borið með sér sjúkdóma, breytt búsvæðum og raskað jafnvægi tegunda sem fyrir eru. Þegar náttúrulegir óvinir eru ekki lengur til staðar geta þær auðveldlega orðið ofan á í samkeppni við þær tegundir sem fyrir eru. Það eru þó ekki bara innfluttar tegundir sem geta orðið ágengar, heldur geta upprunalegar tegundir líka orðið ágengar ef aðstæður breytast þeim í hag. Með hlýnandi loftslagi á norðurslóðum má reikna með að hegðun tegunda breytist og að sumar tegundir gætu gerst ágengar þó að þær hafi ekki áður sýnt merki um slíkt.

Oft getur reynst verulega erfitt að koma í veg fyrir þá þróun sem ágengar tegundir valda. Í Þúsaldarmati Sameinuðu þjóðanna eru ágengar tegundir taldar á meðal helstu ógna við líffræðilega fjölbreytni í heiminum í dag og á alþjóðlegum vettvangi hafa framandi tegundir, og þá sér í lagi þær sem eru þekktar fyrir að vera ágengar, fengið sífellt meiri athygli. Þá hefur athygli manna einnig í auknum mæli beinst að fjárhagslegu tjóni vegna ágengra framandi tegunda, sem getur á tíðum orðið umtalsvert.

Þegar ágengra tegunda verður vart í náttúrunni er mjög mikilvægt að bregðast skjótt við í því skyni að lágmarka tjón á lífríki og kostnað við aðgerðir vegna þessara tegunda. Í flestum tilvikum er auðveldast að útrýma tegundum á fyrstu stigum útbreiðslu þeirra, en sé það ekki gert er hætta á því að neikvæð áhrif ágengra tegunda á vistkerfi verði óafturkræf. Annað gildir um útbreiðslu framandi tegunda í hafinu, en því sem næst ómögulegt getur verið að hindra útbreiðslu framandi tegunda sem náð hafa fótfestu í nýjum heimkynnum í hafinu. Í hafinu er því auðveldara að koma í veg fyrir að tegundir berist á milli svæða heldur en að stöðva útbreiðslu þeirra. Það er hins vegar ekki einfalt mál og hefur verið verkefni alþjóðasamfélagsins í mörg ár. Því var mikilvægum áfanga náð þegar samstaða náðist um nýjan alþjóðlegan samning um kjölfestuvatn árið 2004. Samningurinn hefur ekki enn öðlast gildi á alþjóðavísu en allnokkur ríki hafa sett takmarkanir á losun á óhreinsuðu kjölfestuvatni á sínum hafsvæðum, þ.m.t. Ísland.

Lengi vel var innflutningur lífvera í kjölfestuvatni hér við land ekki talinn vandamál. Lítið var um að skip kæmu hingað tóm og auk þess voru flest skipin að koma frá næstu strandríkjum og frá umtalsvert hlýrri sjó. Með vaxandi alheimsvæðingu, aukinni iðnaðarstarfsemi hér á landi og vegna hlýnunar sjávar, hafa aukist líkur á því að hingað sigli skip frá fjarlægum heimshlutum og losi kjölfestuvatn með lífverur sem geta dafnað hér. Til að koma í veg fyrir að nýjar framandi lífverur, svo sem þörungar, krabbadýr, þari og bakteríur, berist með kjölfestuvatni til hafsvæða og stranda umhverfis Ísland var árið 2011 sett reglugerð sem takmarkar losun kjölfestuvatns á íslensku hafsvæði.

Hagsmunir Íslendinga af verndun lífríkis sjávar eru miklir, en við strendur Íslands hafa að minnsta kosti þrjár nýjar tegundir numið land á undanförnum árum. Þetta eru tegundirnar flundra, sandrækja og grjótkrabbi.

Innflutningur tegunda á ný svæði getur átt sér stað með ýmsum hætti, ýmist vísvitandi eða fyrir slysni. Þegar tegundir eru fluttar inn vísvitandi hefur tilgangur innflutningsins í gegnum tíðina verið æði mismunandi, allt frá því að innfluttu tegundirnar séu notaðar til skrauts í görðum fólks, nýttar í landgræðslu og í landbúnaði, til þess að dýr eru flutt inn og sleppt í þeim tilgangi að vera fæða fyrir önnur dýr eða til að éta önnur dýr. Tegundir hafa einnig verið fluttar inn í því skyni að endurheimta glötuð vistkerfi eða til að hægt sé að stunda sportveiði á þeim.

Algengt er að plöntutegundir séu fluttar inn sem skrautplöntur í garða eða til að nota í landbúnaði eða landgræðslu. Sumar plöntutegundir sem hafa verið fluttar inn með þessum hætti hafa náð fótfestu og mikilli útbreiðslu. Vísvitandi innflutningur er ekki eina innflutningsleið plöntutegunda. Þær geta t.a.m. flust inn með því að taka sér far með öðrum tegundum (t.d. vatnaplöntur sem berast með vatnafuglum, fræ með býflugum og fleiri dýrum), með manninum eða farartækjum á hans vegum sem geta borið fræ á milli staða, með korni og öðrum landbúnaðarvörum (m.a.s. dæmi um að fræ hafi borist með kaffibaunum) og með mold, jarðvegi og garðaúrgangi. Þá er einnig algengt að plöntur sem notaðar eru sem skrautplöntur í fiskabúrum berist út í náttúruna þegar fiskabúrin eru losuð, en plöntur og fræ þeirra geta borist langar leiðir með vatni.

Algeng innflutningsleið skordýra og smádýra er að þær tegundir taki sér far með öðrum tegundum sem fluttar eru til (t.d. egg spánarsnigils á plöntum, nýsjálenski flatormurinn á skrautplöntum og ýmis sníkjudýr með fiskum). Þessar tegundir geta einnig borist með manninum, t.d. með veiðiútbúnaði milli vatna, á farartækjum og með manninum sjálfum, með mold og garðaúrgangi (egg skordýra og skordýrin sjálf), með innflutningi á timbri og með fiskabúrum (sleppa út í náttúruna þegar fiskabúrin eru losuð) eða með flutningi á matvælum. Flutningur smádýra og skordýra milli hafsvæða getur einnig átt sér stað. Þau geta borist með kjölfestuvatni eða með því að setjast utan á báta.

Stærri dýr hafa í flestum tilvikum verið flutt inn á ný svæði af manna völdum, en þó eru einnig dæmi þess að þau flytjist af sjálfsdáðum, t.a.m. kanadagæs. Í flestum tilvikum hafa tegundirnar verið fluttar milli svæða í því skyni að nýta þær með einhverjum hætti eða til að halda sem gæludýr og dýrin síðan sloppið úr haldi, náð fótfestu og útbreiðslu. Þá eru einnig dæmi um að dýr, ýmist stór eða smá, hafi flust milli svæða þegar þau hafa verið notuð sem beita fyrir önnur dýr.

Í töflunni hér fyrir neðan er yfirlit yfir helstu innflutningsleiðir framandi tegunda, flokkað eftir því hvort innflutningurinn sé vísvitandi, óbeinn (þ.e. ekki vísvitandi) eða hvort hann sé eftir öðrum leiðum.

Tafla 1. Yfirlit yfir innflutningsleiðir framandi tegunda.

Vísvitandi innflutningur

Óbeinn innflutningur

Aðrar innflutningsleiðir

Innflutningur á skrautplöntum

Með öðrum tegundum

Að sjálfsdáðum

Innflutningur á gæludýrum

Með manninum

 

Innflutningur á tegundum til nýtingar

Með landbúnaðarvörum

 

 

Með mold og jarðvegi

 

 

Með garðaúrgangi

 

 

Með fiskabúrum

 

 

Með vatni

 

 

Með innflutningi á timbri

 

 

Með kjölfestuvatni

 

 

Með farartækjum

 

 

Með matvælum

 

Á Íslandi hefur á undanförnum árum verið unnið að uppbyggingu gagnagrunns um framandi og ágengar tegundir með þátttöku í verkefni sem gengur undir heitinu NOBANIS. Verkefnið er samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu sem vinna að því að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra framandi tegunda. Tilgangur verkefnisins er að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegundir í Norður-Evrópu og gera þær aðgengilegar. Upplýsingar úr gagnagrunninum má nýta til að finna þær tegundir sem taldar eru vera ágengar eða líklegar til að verða það og þar er að finna ýmsar upplýsingar varðandi tegundirnar.

SpánarsnigillTegundafjölbreytni á Íslandi telst ekki mikil og er talið að flestar innlendar tegundir eigi rætur sínar að rekja til Evrópu. Ljóst er að mjög margar tegundir hafa borist hingað til lands af manna völdum og er nú að finna a.m.k. 135 framandi tegundir í náttúru landsins, þar af eru 7 ágengar framandi tegundir hér á landi skv. gagnagrunni NOBANIS verkefnisins og 18 mögulega ágengar. Þær sem nú þegar hafa verið skilgreindar sem ágengar eru hæruburst, alaskalúpína, skógarkerfill, búrasnigill, spánarsnigill, húshumla og minkur.

Minkurinn var fyrst fluttur til Íslands árið 1931 til ræktunar vegna skinna. Hann slapp fljótlega úr haldi, breiddist hratt út og um 1975 hafði hann numið láglendissvæði um allt land. Minkurinn var af sömu ástæðu fluttur til margra Evrópulanda og lifir nú villtur í flestum löndum Norður-Evrópu. Minkurinn er talinn meðal 100 verstu ágengu tegunda Evrópu og einn af fjórum verstu ágengu spendýrategundum álfunnar.

Alaskalúpína var fyrst flutt hingað til lands árið 1895 og hefur verið notuð í landgræðslu frá því um miðja 20. öld. Hún er mjög útbreidd á Íslandi og finnst víða á láglendi þar sem land er friðað eða sauðfjárbeit lítil. Vísbendingar eru um að fræ alaskalúpínu geti borist langar vegalengdir með vatni, sterkum vindum og fuglum, en aðaldreifingarleiðin hefur hingað til verið sáning manna.

Skógarkerfill barst fyrst hingað til lands árið 1927 sem garðplanta. Hann finnst víða á landinu en virðist ekki hafa orðið ágengur fyrr en tiltölulega nýlega. Skógarkerfillinn hefur að mestu dreifst hér á landi af manna völdum.

Spánarsnigill fannst fyrst hér á landi árið 2003 og eru taldar líkur á að hann hafi borist hingað með innflutningi plantna eða jarðvegs. Hann er á lista yfir 100 verstu ágengu tegundir Evrópu og getur fjölgað sér gríðarlega hratt. Helsta dreifingarleið hans er með mönnum þar sem hann getur ekki ferðast sjálfur langar vegalengdir.

Hæruburst fannst fyrst hér á landi árið 1983 og hefur breiðst hratt út og finnst nú bæði á norður og suðurlandi. Hún er líkt og minkur og spánarsnigill á lista yfir 100 verstu ágengu framandi tegundir Evrópu.

Húshumla fannst fyrst hér á landið árið 1979 en hefur dreifst hratt um landið og finnst nú á öllu láglendi og allt upp í 600 m hæð.

Búrabobbi er talinn hafa borist fyrst út í íslenska náttúru undir lok áttunda áratugarins og fannst fyrst í Fossvogslæk, en á þeim tíma var vatni frá heimilum veitt út í lækinn. Erlendis hefur hann margoft borist úr fiskabúrum og hugsanlegt er að það sama hafi átt sér stað hér á landi.

Grjótkrabbi (Cancer irroratus) er framandi tegund sem hefur tekið sér bólfestu hérlendis. Hann hefur verið skráður á lista NOBANIS sem hugsanlega ágeng tegund. Grjótkrabbi er tiltölulega stórvaxin tífætla (Decapoda), en hann getur orðið allt að 15 cm á skjaldarbreidd. Náttúruleg heimkynni þessarar tegundar eru við austurströnd Norður-Ameríku, frá Flórída í suðri að Labrador í norðri.Grjótkrabbi fannst fyrst hér við land í Hvalfirði árið 2006 og er Ísland nyrsti þekkti fundarstaður krabbans til þessa. Talið er sennilegast að tegundin hafi borist hingað til lands á lirfustigi í kjölfestuvatni skipa.

FlundraFlundra (Platichthys flesus) er einnig framandi tegund sem hefur nýlega tekið sér bólfestu hér við land. Hún er flatfiskur af kolaætt sem getur orðið allt að 60 cm að lengd en er þó sjaldan lengri en 30 cm. Flundra lifir á sjávarbotni, frá fjöruborði niður á 100 m dýpi. Hún hrygnir ávallt í sjó en vaxtarskeið fisksins fer fram á ósasvæðum og í ferskvatni. Náttúruleg heimkynni flundru eru strandsvæði Evrópu, allt frá Svartahafi og Miðjarðarhafi í suðri að Kólaskaga í norðri. Hrogn og smáseiði flundrunnar eru sviflæg og kann hún að hafa borist hingað með kjölfestuvatni. Talið er sennilegast miðað við útbreiðslusvæði flundru að hingað hafi hún borist frá Evrópu, hugsanlega frá Færeyjum. Flundra veiddist fyrst við Ísland í september 1999, en breiðist núna hratt út við landið

Sandrækja (Crangon crangon) fannst í fyrsta sinn hér við land svo vitað sé árið 2003. Hún er botnlæg og er búsvæði hennar aðallega í fjörum og á grunnsævi (0 -50 m) með sendnum eða leirkenndum botni. Hún er gráleit með svörtum eða dökkbrúnum þverröndum en breytir auðveldlega um lit og lagar sig að botngerðinni. Sandrækja er algeng með allri strönd meginlands Evrópu, allt frá ströndum Noregs að strönd Finnlands í Eystrasalti og suður í Miðjarðarhaf og Svartahaf. Þar sem sandrækja finnst við Norður-Noreg er ekki hægt að rekja fund hennar hér við land til hlýnunar sjávar, enda er sviflægt lirfustig of stutt til að hún berist með straumum frá Skotlandi eða Noregi til Íslands. Líklegast er að lirfur hafi borist hingað með kjölfestuvatni.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira