Skuldbindingar

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna  um loftlagsbreytingar (loftslagssamningurinn) hefur það meginmarkið að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu innan þeirra marka að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum. Þeim mörkum ætti að ná innan tímamarka sem nægja til þess að vistkerfi geti sjálf aðlagað sig að loftslagsbreytingum og þannig megi tryggja að matvælaframleiðsla sé ekki í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram með sjálfbærum hætti. Markmið samningsins er því ekki að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar heldur að halda aftur af hraða þeirra og að koma þannig í veg fyrir hættulega röskun á loftslagi af mannavöldum.

Með samningnum skuldbinda aðildarríki sig til þess að grípa til aðgerða til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að auka bindingu kolefnis með ræktun eða verndun gróðurlenda. Einnig skuldbinda ríkin sig til þess að veita upplýsingar um losun sína, stefnumörkun og aðgerðir. Þá eru einnig skuldbindingar um samstarf á sviði tækniyfirfærslu og þekkingaruppbyggingar í þróunarríkjunum. Í samningnum er almenn skuldbinding um að heildarlosun iðnríkjanna verði ekki meiri árið 2000 en hún var árið 1990.

Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992 og tók gildi árið 1994. Í dag hafa 197 ríki fullgilt samninginn

Nánar um skuldbindingar og losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Kyoto-bókunin

Vindhverflar (wind turbines) við sólsetur

Þegar á fyrsta fundi aðildarríkjaþings loftslagssamningsins í Berlín árið 1995 komust fulltrúar aðildarríkjanna að sameiginlegri niðurstöðu um að skuldbindingar samningsins nægðu ekki til þess að ná markmiðum hans. Með ákvörðun sem kölluð var Berlínarumboðið var sérstakri nefnd falið að móta tillögur að strangari skuldbindingum iðnríkjanna, sem skyldu meðal annars fela í sér magntakmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda innan tiltekins tímaramma. Afraksturinn af vinnu nefndarinnar varð sá að á þriðja aðildarríkjaþinginu, sem haldið var í Kyoto árið 1997, var samþykkt að leggja fram til undirritunar bókun við loftslagssamninginn (Kyoto-bókunin). Kyoto bókunin var samþykkt þann 11. desember 1997 en tók ekki gildi fyrr en 16. febrúar 2005.

Eins og er, eru 192 aðilar að bókuninni. Kyoto bókunin er í raun framkvæmdaskjal loftslagssamningsins. Í henni skuldbinda iðnríkin sig til að koma á stöðugleika losunar gróðurhúsalofttegunda, á meðan samningurinn sjálfur hvetur ríki einungis til að gera það.

Samkvæmt bókuninni skuldbinda 36 iðnríki, auk ríkja Evrópusambandsins sig til að minnka losun, í heildina að minnka losun um 5% í samanburði við losun árið 1990 á fimm ára tímabili (2008-2012, sem var fyrsta skuldbindingatímabilið).

Kyoto bókunin byggir á meginreglum loftslagssamningsins, og skuldbindur einungis þróuðu ríkin og leggur þyngri byrði á þau ríki undir meginregluna um „sameiginlega en aðgreinda ábyrgð og getu“ (e. Common but differentiated responsibility and respective capabilities), þar sem hún viðurkennir þá sem eru að mestu ábyrgir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið.

Árið 2012 var samþykkt að fella Doha breytinguna í annað skuldbindingartímabil Kyoto bókunarinnar sem gildir frá 2013-2020, en þessi breyting hefur ekki ennþá öðlast gildi þar sem 144 aðilar þurfa að staðfesta hana, en þann 18. júlí 2016 höfðu einungis 66 ríki gert það, og Ísland þar með talið.

Það eru tveir mikilvægir þættir í Kyoto bókuninni:

Í fyrsta lagi er það skuldbindingin um að minnka losun hjá þróuðum ríkjum. Það þýðir að rými ríkja til að menga takmarkast og verður bæði erfiðara og dýrara. Gróðurhúsalofttegundir, og þá sérstaklega CO2 varð að vöru, og bókunin gerði því það að verkum að það sem voru álitin óverðlögð ytri áhrif voru það ekki lengur.

Í öðru lagi er það stofnun sveiganlegra markaðsaðferða, sem byggjast á viðskiptum með losunarheimildir. Aðilar að Kyoto bókuninni eru bundnir markmiðum sem nást helst með innlendum aðgerðum, það er, að draga úr losun heima fyrir. Þeir geta þó náð hluta markmiða sinna í gegnum markaðstengt fyrirkomulag sem byggir á aðferðum sem hvetja til þess að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda þar sem það er hagkvæmast, til dæmis í þróunarríkjum. Það skiptir ekki máli hvar dregið er úr losun, svo lengi sem hún er fjarlægð úr andrúmsloftinu. Þetta hefur þann samhliða ávinning að græn fjárfesting í þróunarríkjunum er örvuð og hvetur einkaaðila til þess að taka þátt og halda losun gróðurhúsalofttegunda stöðugri. Þetta leiðir af sér að mögulegt er að skipta eldri, óhreinni tækni út fyrir nýja og hreinni sem er hægkvæmari til lengri tíma litið. Með Kyoto bókuninni kom einnig sterkara eftirlit, endurskoðun og sannprófun kerfa, auk þess sem að gagnsæi er tryggt.

Íslenska ákvæðið

Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir á aðildarríkjaþinginu í Kyoto árið 1997 að þau gætu ekki fallist á þær magntakmarkanir sem ríkinu voru ákveðnar skv. Kyoto-bókuninni. Fyrir því voru færð þau rök að vegna smæðar íslenska hagkerfisins hefðu einstakar stóriðjuframkvæmdir svo mikil hlutfallsleg áhrif á heildarlosun ríkisins að skuldbindingar bókunarinnar útilokuðu þær framkvæmdir sem áætlað var að ráðast í á Íslandi á þessum tíma. Aðildarríkjaþingið samþykkti að láta fara fram athugun á möguleikum þess að koma til móts við sjónarmið íslenska ríkisins. Sú vinna leiddi til þess að á aðildarríkjaþinginu í Marrakess árið 2001 var samþykkt ákvörðun nr. 14/CP.7, sem felur upp að vissu marki í sér undanþágu frá skuldbindingum Kyoto-bókunarinnar fyrir ríki þar sem einstök stóriðjuverkefni hafa veruleg hlutfallsleg áhrif á heildarlosun ríkisins á fyrsta skuldbindingartímabilinu. Hefur þessi ákvörðun verið kölluð íslenska ákvæðið

Íslenska ákvæðið gerir ráð fyrir því að koldíoxíðlosun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera, sem hefur starfsemi eftir 1990 og leiðir til meira en 5% aukningar í losun á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar (2008 - 2012) miðað við koldíoxíðlosun árið 1990, verði haldið utan við losunarskuldbindingar skv. bókuninni eftir að losunarheimildir viðkomandi lands hafa verið fullnýttar. Ákvörðunin nær aðeins til þeirra ríkja sem losuðu minna en 0,05 % af heildarkoldíoxíðlosun iðnríkjanna 1990. Auk þess voru sett ákveðin viðbótarskilyrði. Meðal annars er gerð krafa um notkun endurnýjanlegrar orku, að notkun hennar leiði til samdráttar í losun á heimsvísu, besta fáanlega tækni sé notuð og að bestu umhverfisvenjur séu viðhafðar við framleiðsluna.

Mikilvægt er að undirstrika að íslenska ákvæðið nær einungis til koldíoxíðlosunar frá iðnaðarferlum. Við álframleiðslu losnar auk koldíoxíðs umtalsvert magn af flúorkolefnum. Þetta eru mjög virkar gróðurhúsalofttegundir sem eru langlífar í andrúmsloftinu. Það er því mikilvægt að halda myndun þeirra í skefjum. Losun þessara efna þarf að rúmast innan almennra losunarheimilda Íslands.

Við uppgjör fyrsta viðskiptatímabils Kyoto bókunarinnar árið 2014 nýtti Ísland sér þetta ákvæði, og gerði upp 3.257.140 heimildir undir íslenska ákvæðinu.

Frekari upplýsingar um uppgjör Íslands á fyrsta viðskiptatímabilinu má finna hér.

 

Heimildir Íslands

Á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar frá 2008 til 2012 nema losunarheimildir Íslands 18.523.847 tonnum koldíoxíð-ígilda. Þetta jafngildir því að losun gróðurhúsalofttegunda megi á tímabilinu nema árlega að meðaltali rúmlega 3,7 milljónum tonna koldíoxíðígilda. Samkvæmt ákvörðun 14/CP.7 við Kyoto-bókunina (íslenska ákvæðið) var Íslandi þó heimilt að halda koldíoxíðlosun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera, sem hefur starfsemi eftir 1990 og leiðir til meira en 5% aukningar í losun á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar, utan við losunarskuldbindingar sínar eftir að losunarheimildir hafa verið fullnýttar. Heildarmagnið sem halda má utan við losunarheimildirnar nemur samtals 8 milljónum tonna á fyrsta skuldbindingartímabilinu, eða að meðaltali 1,6 milljónum tonna á ári. Að auki verður mögulegt fyrir Ísland eins og önnur aðildarríki samningsins að kaupa heimildir ákolefnismörkuðum og að fá úthlutað sérstökum heimildum vegna þátttöku í verkefnum á sviði loftslagsvænnar þróunaraðstoðar og/eða vegna bindingar kolefnis með landgræðslu og skógrækt.

 

Parísarsamningurinn

Þar sem að Kyoto bókunin nær einungis til ársins 2020 var ljóst að frekari samninga væri þörf og eftir langt og strangt ferli var Parísarsamningurinn samþykktur í desember 2015. Samningurinn er sögulegur að því leyti að í fyrsta sinn er gengið út frá því að öll ríki taki höndum saman við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Aðalmarkmið samningsins er að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar, en jafnframt skuli leitast þess að halda hækkuninni undir 1,5°C. Að auki miðar samningurinn að því að efla getu ríkja til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga með aðlögun og stuðningi þróaðra ríkja við þróunarríki og viðkvæmari lönd.

Samningurinn krefst þess að öll ríki setji fram landsákvörðuð framlög, sem felur í sér að allir aðilar haldi traust bókhald og sendi reglulega frá sér skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda. Þessi landsákvörðuð framlög eiga að vera uppfærð á 5 ára fresti og sameiginlegar framfarir metnar til að ná markmiðum samningsins.

Samningurinn hefur verið opinn til undirritunar frá 22. apríl 2016. Nú þegar hefur hann verið fullgiltur af meira en 55 ríkjum með meira en 55% af heimslosun og mun öðlast samningurinn því öðlast gildi 4. nóvember 2016. Hægt er að fylgjast með stöðu mála hér: http://unfccc.int/paris_agreement/items/9444.php

 

Frekari upplýsingar um Parísarsamninginn má finna hér.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira