Herðubreiðarlindir, Skútustaðahreppi

Herðbreiðarlindir voru friðlýstar árið 1974.  Hvatinn að friðlýsingu var líklega sú tign sem Herðubreið ber, ásamt því að á bökkum Lindaár og í Grafarlöndum er gróskumikill og fjölbreyttur gróður, miðað við hæð yfir sjávarmáli. Mest ber á ætihvönn, gulvíði, grávíði og grasvíði. Litskrúðugust er eyrarrós sem blómstrar frá miðjum júlí og slær þá bleikum lit á eyrar og mela. Aðdáunarvert er að sjá fjölda tegunda sem teljast til frumstæðra plantna prýða hraunin.

Fjalla-Eyvindur átti sér þar griðastað um tíma.

Ódáðahraun, norðan Vatnajökuls, er um 5.000 km2  stórt víðerni sem afmarkast af Bárðardalsdrögum í vestri og Jökulsá á Fjöllum í austri og af Mývatnsöræfum í norðri. Þar eru nokkrar gróðurvinjar, svo sem Surtlu- og Marteinsflæða suðvestan til, Suðurárbotnar norðan til en austan megin eru Grafarlönd og Herðubreiðarlindir. Um mitt hraunið liggur gosbelti úr suðvestri frá Dyngjufjöllum.

Stærð friðlandsins er 16.361 ha.

Hvað er áhugavert?

Landið einkennist af víðfeðmum hraunbreiðum og söndum. Margar sérstæðar jarðmyndanir eru í Ódáðahrauni. Herðubreið er þekktust, oft nefnd drottning íslenskra fjalla. Hún er stapi, orðin til þegar ísaldarjökull var um 1.000 metra þykkur á þessum slóðum. Dyngjufjöll, Dyngjufjöll ytri og Trölladyngja sjást einnig víða að, m.a. af Sprengisandi.

Dyngjufjallaleið liggur með rótum Dyngjufjalla ytri og norður fyrir Þríhyrning og Trölladyngju. Dyngjufjalladalur er milli Dyngjufjalla og Dyngjufjalla ytri. Um hann liggur vegslóði úr Suðurárbotnum og inn á Dyngjufjallaleið vestan Kattbekings. Dyngjusandur, suður af Dyngjufjöllum, er mótaður af Dyngjujökli og breytilegum farvegum kvísla Jökulsár á Fjöllum. Vestan hans er Urðarháls, dyngja frá hlýskeiði ísaldar, með stærsta dyngjugíg sem sjá má hérlendis Gæsavatnaleið liggur um gígbarminn að sunnanverðu og vestur í Gæsavötn að brú á Skjálfandafljóti.

Milli Dyngjusands og Vaðöldu rennur Svartá . Fallegur foss er neðst í ánni rétt áður en hún sameinast Jökulsá á Fjöllum. Fossinn er kallaður Skínandi því að hann myndar hvítt þil þar sem hann fellur fram af hraunbrún. Mörg önnur fjöll prýða þetta stórbrotna landsvæði og má þar nefna Ketildyngju, Kerlingardyngju, Herðubreiðarfjöll, Eggert, Kollóttudyngju og Herðubreiðartögl.

Víða í og við Herðubreiðarlindir eru minjar hamfarahlaupa en það eru gífurleg flóð sem hafa komið úr Kverkfjöllum. Stórir grjóthnullungar og malareyrar eru í hrauninu sunnan lindanna, allt frá ármótum Jökulsár og Kreppu niður fyrir Lindahraun.

Gróðurfar

Hraunkembingur, sem er ljósgrár mosi, vex í þyrpingum og er áberandi í hraunum Flötudyngju vestan Herðubreiðar. Naflar eru skófir en þær eru sambýli svepps og þörungs. Nafn sitt dregur þessi tegund af því að hún festir sig á steina með grönnum þræði, oftast mót úrkomuáttinni, norðri. Dýragrasið breiðir úr sinni fagurbláu blómkrónu rétt á meðan sólin skín og ormagrasið er þyrping slöngulaga ?orma".

Dýralíf

Herðubreiðarlindir laða að sér fjölbreytt fuglalíf. Í Herðubreiðarlindum og Grafarlöndum verpur fjöldi heiðagæsa á lækjar- og árbökkum. Ungar koma úr eggjum um miðjan júní og fjölskyldan yfirgefur hreiðrið nokkrum klukkutímum eftir að síðasti unginn er kominn úr eggi. Margar aðrar fuglategundir halda til við lindirnar. Þar má nefna straumönd, stokkönd, lóm, sendling, lóu, maríuerlu, sólskríkju, hávellu, óðinshana og kríu. Einnig sést fjallkjói, fálki, hrafn, sílamáfur, smyrill og skúmur. Á stærstu tjörninni sunnan við Herðubreiðarvötn heldur til álftapar sem verpur þar í hólma og er tjörnin stundum nefnd Álftavatn. Einn og einn refur sést í Herðubreiðarlindum og er þar eingöngu um að ræða svonefnd hlaupadýr því að búseta þeirra er víðs fjarri. Öðru hvoru sjást hreindýr í Lindunum. Hagamýs eru í Herðubreiðarlindum og þangað sækja stöku minkar.

Menningarminjar

Eyvindarkofi er í hraunjaðrinum þar sem Lindaá sveigir til norðurs með hraunbrún Lindahrauns, nokkru vestan við núverandi sæluhús.

Veturinn 1774-1775 hafði Eyvindur Jónsson, Fjalla-Eyvindur, vetrardvöl í Lindunum. Hann taldi þann vetur hinn versta í allri útlegð sinni. Talið er að hann hafi ekki haft eld en lifað á þurrkuðu kjeti, hvannarótum og fuglum. Núverandi vegghleðslur eru ekki upprunalegar því að Mývetningar hlóðu kofann upp árið 1923 til að bæta aðbúnað fjárleitarmanna. Einnig hafði Fjalla-Bensi og aðrir fjárleitarmenn gistiaðstöðu ýmist í Eyvindarkofa eða í byrgi í Grafarlöndum

Aðgengi

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs fer með daglega umsjón og rekstur Herðubreiðarfriðlands.

Úrkoma norðan Vatnajökuls og í Ódáðahrauni er með því minnsta sem gerist hér á landi. Landið er í skjóli Vatnajökuls og því bera sunnanáttir nær aldrei úrkomu með sér. Í norðan- og norðaustanátt er oft þungskýjað og úrkoma. Í Öskju er þá oftast bæði úlpu- og áttavitaveður. Slydda og snjókoma er þá gjarnan á Gæsavatnaleið og lítið skyggni. Nauðsynlegt er að staldra við eða endurskoða ferðaáætlunina við þessi veðurskilyrði því að Gæsavatnaleið er í um 1200 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem hún er hæst.

Tjaldstæði í austanverðu Ódáðahrauni eru einungis í Herðubreiðarlindum og við Drekagil. Ferðafélag Akureyrar sér um gistingu í skálum og á tjaldstæðum. Í Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum eru 30 svefnpláss, og í Dreka við Drekagil er svefnpláss fyrir um 50 manns. Í skálanum við Bræðrafell er pláss fyrir 12 manns og í skálanum í Dyngjufjalladal er aðstaða fyrir 16 gesti.

Ef leita þarf nánari upplýsinga um vegi, vegalengdir, veðurfar, gróður, fugla og dýralíf eða um hvað annað athyglisvert á svæðinu má leita upplýsinga hjá landvörðum sem starfa í Herðubreiðarlindum og í Drekagili austan Dyngjufjalla frá því að vegir opnast upp úr miðjum júní fram í september. Enn fremur má fá upplýsingar á skrifstofum Umhverfisstofnunar og Ferðafélags Akureyrar. Umgengni um landið allt lýtur lögmálum snyrtimennsku og heiðarleika. Akið aldrei út fyrir merkta slóða, látið ekki ykkar eftir liggja og takið sorp með heim aftur.

Gönguleiðir

Flatlent og greiðfært er norðaustan Herðubreiðar en varast ber að vanmeta fjarlægðir og villugjarnt getur verið í hrauninu. Um margar gönguleiðir er að velja í Herðubreiðarlindum, svo sem umhverfis Herðurbreiðarvötn, niður með Lindaá, inn að ármótum Jökulsár og Kreppu, auk fræðslustígs inn í hraunið. Upplýsingar gefa landverðir svæðisins.

Auk stuttra gönguleiða í næsta nágrenni lindanna, er fyrst lengri leiða að nefna stikaða gönguleið að rótum Herðubreiðar. Sú ganga tekur tvo tíma fram og til baka. Einnig er gönguleiðin að uppgöngustað á Herðubreið stikuð úr Lindum norður og síðan vestur með fjallsrótum (þrír tímar hvora leið). Leiðin upp á fjallið er óstikuð. Ef gengið er á Herðubreið, sem tekur um 12 tíma úr Lindum fram og til baka, er nauðsynlegt að leggja snemma af stað, sérstaklega þegar skyggja fer í ágúst. Fjallgangan tekur um þrjá tíma. Lagt er upp frá enda vegarins vestan fjallsins en þangað má aka og tekur aksturinn um tvo tíma úr Lindum. Ekið er áleiðis að Dyngjufjöllum og með rótum Herðubreiðartagla þvert um skarðið milli þeirra og Herðubreiðar. Gengið er eftir slakka er nær upp í gegnum hamrabeltið efst í fjallinu. Varist að fara annars staðar á fjallið. Uppgangan er oft torveld vegna snjóa og íss framan af sumri. Einnig má alltaf búast við grjóthruni og því er heppilegt að ganga ekki mjög þétt saman. Gerið ferðaáætlun, aflið upplýsinga hjá landvörðum og látið þá vita um fyrirætlanir ykkar.

Ef ganga á að Bræðrafelli við Kollóttudyngju er gengið frá uppgöngustað á Herðubreið, um Flötudyngju að skála Ferðafélags Akureyrar sem stendur austan við Bræðrafell. Leiðin er stikuð og tekur gangan 7-9 klst. úr Herðubreiðarlindum.

Í Ódáðahrauni er lítið um vatn en stundum  má finna snjó ofan til í fjöllum fram eftir sumri. Göngufólk verður því að bera með sér vatn.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira