Hornstrandir

Af hverju var svæðið friðlýst?

Leiðarljós fyrir friðlandið á Hornströndum er að vernda víðfeðmt svæði með einstakri náttúru og dýralífi þar sem kyrrð ríkir og innviðir eru ekki áberandi. Á svæðinu skulu náttúrulegir ferlar vera ríkjandi án afskipta manna, með það að leiðarljósi að komandi kynslóðir hafi tækifæri til að njóta þess að upplifa slík svæði.

 Árið 1975 voru Hornstrandir, Aðalvík, Rekavík bak Látur og Fljótavík ásamt hluta Jökulfjarða friðlýst sem friðland. Friðlandið á Hornströndum er 589 km2 að stærð og er staðsett á norðanverðum Vestfjörðum. Eitt af aðal einkennum friðlandsins er hve afskekkt það er og lítið mótað af umsvifum og ágangi manna. Innan svæðisins eru að finna mikilfengleg fuglabjörg, einstakt gróðurfar og menningarminjar sem standa sem minnisvarðar um tíðaranda og búsetuhætti sem liðnir eru undir lok.

 Markmið friðlýsingarinnar á Hornströndum er að vernda lífríki, jarðminjar og menningarminjar svæðisins.
 Friðlandið hefur hátt verndargildi bæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða þar sem svæðið er mikilvægt búsvæði fyrir fjölda fuglategunda auk þess sem friðlandið er eitt mikilvægasta búsvæði refa í Evrópu.

Hvar eru Hornstrandir?

Magnað landsvæði nyrst á Vestfjörðum. Mörk friðlandsins eru um Skorarheiði milli Hrafnsfjarðar og Furufjarðar og nær friðlandið því yfir Hornstrandir og hluta af Jökulfjörðum, eða Sléttuhrepp og hluta af Grunnavíkurhreppi.

Stærð friðlandsins er 58,915 ha.

Hvað er áhugavert?

Landslag

Jökulfirðir eru umluktir fjöllum og þar sést vel hvernig svæðið hefur byggst upp af röð eldgosa þar sem hraunlög eru vel sýnileg og setlög á milli. Jarðlögin eru hluti af blágrýtismynduninni sem er um 12-15 milljón ára gömul og eru ein hin elstu á landinu. Fjöldi bergganga skerst í gegnum hraunlagastaflann og mynda víða stórkostlega dranga og bríkur. Sjávarrof einkennir landmótun á Hornströndum en í Jökulfjörðum eru ummerki eftir jökulrof einkennandi. 

Gróðurfar

Gróðurfar á Hornströndum er sérstakt, annars vegar vegna þess að veðurfar þar líkist því sem gerist á heimaskautasvæðum og hins vegar vegna þess að ekki hefur verið beit á svæðinu í hálfa til heila öld. Snjóalög eru oft mikil og samfelld og verja gróðurinn vel fyrir frosthörkum yfir vetrartímann. Það leysingavatn sem streymir síðan úr snjóalögunum veldur því að jarðvegur er rakur allt sumarið. Af þessu leiðir að vaxtarskilyrði fyrir ýmsar plöntutegundir eru góð og finnast því einstök blómlendi innan friðlandsins. Flóran er fjölbreytt og skráðar hafa verið 260 tegundir æðplantna innan friðlands. Samfelldur gróður nær ekki nema upp í 300-400 m hæð en ekki er minni fegurð fólgin í smávöxnum fjallajurtum eins og jöklasóley, en hávöxnu stóði af burnirót, hvönn og blágresi. Þá má einnig nefna baunagras og blálilju í fjörum. 

 

 
Dýralíf

Innan friðlandsins eru sjö alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði sem öll eru sjófuglabyggðir:  Grænahlíð,  Ritur,  Kögur, Kjalarárnúpur,  Hælavíkurbjarg,  Hornbjarg og Smiðjuvíkurbjarg.  Í friðlandinu er einnig að finna mikið af æðar- og andfugli en Hornstrandir eru mikilvægt fjaðrafellisvæði æðarfugla auk þess sem hluti friðlandsins er vetrardvalarstaður straumanda. Fleiri tegundir eins og sendling, snjótittling og þúfutittling er algengt að sjá og einnig verpa hafernir, fálkar og smyrlar innan friðlandsins. Stöðuvötn eru fá svo lítið er um vatnafugla en þó má finna lóma, stokkendur, álftir og óðinshana.

 Af spendýrum er refurinn mest áberandi og er hann alfriðaður.  Heimskautarefurinn er skráður í II. viðauka Bernarsamningsins og er tegundin friðuð í Evrópu. Friðlandið er  eitt helsta griðland refa í álfunni.
Fjöldi ferðamanna heimsækir friðlandið á Hornströndum til að sjá og taka myndir af villtum heimskautarefum, bæði sumar og vetur. Rannsóknir hafa verið gerðar á refnum, lífsháttum hans og áhrifum ferðamanna á hegðun hans og afkomu. Þær hafa sýnt fram á að ferðamennska getur í sumum tilfellum haft neikvæð áhrif á afkomu refa.
Reglur um refaskoðun hafa verið settar fram til að draga úr álagi á refinn, þær má finna hér.
Af öðrum spendýrum innan friðlandsins má nefna að hagamýs eru þar algengar og við ströndina má gjarnan sjá seli, bæði landsel og útsel.

 Árið 1952 flutti síðasti ábúandinn af svæðinu (Hesteyri). Fram til ársins 1995 var vitavörður í Hornbjargsvita en síðan þá hefur enginn búið í friðlandinu. Eftir standa hús sem flest voru byggð á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, af þeim eru Staðarkirkja í Aðalvík og bænahúsið í Furufirði friðlýst. Í Aðalvík eru minjar um hersetu  og víða má finna rústir ýmissa húsa. Gönguleiðir innan friðlandsins eru helstu samgönguleiðir sem farnar voru meðan svæðið var í ábúð. Leiðirnar eru flestar merktar með vörðum og falla þær ásamt götum undir minjavernd.  

Tenglar á rannsóknaniðurstöður:

Aðgengi

 Algengasta aðkomuleiðin á Hornstrandir er af sjó. Boðið er upp á áætlunarferðir frá Ísafirði, Bolungarvík og Norðurfirði á Ströndum inn í friðlandið. Einnig er hægt að koma landleiðina og ganga þá frá Ófeigsfirði á Ströndum annarsvegar eða frá  Dalbæ á  Snæfjallaströnd. 
Samkvæmt aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar eru tvö óskráð lendingar- og flugtakssvæði án nokkurs búnaðar, á Látrum í Aðalvík og í Fljótavík.  Óheimilt er að lenda þyrlum innan friðlandsins.

Á þeim tíma þegar gróður, lífríki og gönguslóðar eru viðkvæmir þarf að tilkynna Umhverfisstofnun rafrænt um allar ferðir í friðlandið, eða frá tímabilinu 1. mars til 15. júní og frá 1. september til 1. nóvember ár hvert . Þessi tilkynningarskylda tekur þó ekki til ferða hús- og landeigenda.

Gönguleiðakort

Helstu gönguleiðir á Hornströndum eru varðaðar en gestum getur auðveldlega  yfirsést vörður á ókunnum slóðum  og því er brýnt að hafa meðferðis gott kort og áttavita, eða GPS tæki til rötunar. Þokusælt er á svæðinu og stundum vandratað. Ár geta verið erfiðar yfirferðar í miklum vatnaveðrum og talsverður snjór er á hálendi svæðisins allt árið um kring. Skaflar geta verið brattir og þá ekki síst snemmsumars. Það er mikilvægt að gæta ávallt varúðar, ekki síst ef skyggni er slæmt.

HesteyriÁður en lagt er af stað í gönguferð á Hornstrandir er mikilvægt að undirbúa sig vel. Nauðsynlegt er að taka með sér góð kort og kynna sér leiðarlýsingar sem hafa verið gefnar út, skoða veðurspár og skilja eftir ferðaáætlun. Veður geta verið margbreytilegt á svæðinu og veðurskipti tíð. Nálægð við opið úthaf hefur mikil áhrif og þoka og kuldi getur lagst fyrirvaralaust yfir. Ávalt skal reikna með tíðum og snöggum veðrabreytingum yfir daginn og skal miða skjólfatnað og útbúnað við það. Ferðamenn verða að hafa með sér tjöld og góðan klæðnað, vatnsheldur fatnaður er mjög mikilvægur. Allan mat þarf að taka með sér. Gera þarf ráð fyrir að ferðaáætlun standist ekki og menn tefjist, því skal pakka með aukamáltíð. 
Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Umhverfisstofnun og  Upplýsingamiðstöð ferðamála á Ísafirði og á Hólmavík.

Upplýsingar um veður – www.vedur.is
Ferðaáætlun er hægt að skilja eftir á Safetravel – www.safetravel.is

Aðeins er heimilt að tjalda á skilgreindum tjaldsvæðum innan friðlandsins. Á Hornströndum eru fjórtán tjaldstaðir á vegum Umhverfisstofnunar og tveir að auki einkareknir þar sem heimilt er að talda. Sjá kort Við tjaldstaðina eru ýmist þurrsalerni eða vatnssalerni. 
Landeigendum er heimilt að leyfa tjöldun á sínu landi og sjá þá gestum sínum fyrir hreinlætisaðstöðu.
Vegna gróðurverndar er aðeins heimilt að hafa tjald innan tiltekins tjaldstaðar í eina viku í senn, að þeim tíma liðnum er gestum skylt að færa tjaldið innan tjaldstaðarins eða taka það niður.

Umhverfisstofnun er með aðstöðu fyrir landverði sína á tjaldstöðunum í Höfn í Hornvík og á Hesteyri og þeir eru gestum svæðisins þar til upplýsingagjafar.  

Önnur þjónusta innan svæðisins
Á Hesteyri er rekin ferðaþjónustua í Læknishúsinu öll sumur, þar er hægt að kaupa bæði gistingu og veitingar. 
Í Hornbjargsvita er Ferðafélag Íslands með rekstur fá lokum júní og fram í ágúst. Þar er bæði hægt að kaupa gistingu og veitingar.

Umgengnisreglur

 • Skildu ekki eftir nein ummerki um heimsókn þína. Það felur í sér að taka þarf allt rusl með sér til baka. Ekki byggja vörður, endurraða steinum eða á nokkurn máta skilja eftir ummerki. Skildu við svæðið í sama ásigkomulagi og það var í þegar þú komst. Ekki taka með þér steina, bein, rekavið eða annað sem kann að verða á vegi þínum.
 • Notum göngustígana, alltaf þegar það er mögulegt. Ef nauðsynlegt reynist að fara út fyrir stíg, verum vakandi fyrir því hvar við stígum niður og reynum að vernda gróðurinn á svæðinu. Notumst eingöngu við göngustafi þegar það er nauðsynlegt.
 • Takmörk eru sett á stærðir gönguhópa sem ferðast um friðlandið, þannig að hópar á vestari hluta svæðisins séu ekki fjölmennari en 30 og á austari hluta svæðisins eigi fleiri en 15.
 • Tjöldum eingöngu á skilgreindum tjaldsvæðum. Öll tjaldsvæði hafa salerni/kamar í næsta nágrenni. Vegna gróðurverndar er aðeins heimilt að hafa tjald innan tiltekins tjaldstaðar í eina viku í senn, þá þarf að færa tjaldið innan tjaldstaðarins eða taka það niður. 
 • Gestir innan svæðisins eru hvattir til að notast við kamra/salerni sem eru á svæðinu alltaf þegar það reynist mögulegt. Ekki má skilja eftir hreinlætisvörur í náttúrunni. 
 • Förum varlega með prímusa og önnur eldunaráhöld. Varðeldar eru bannaðir innan friðlandsins
 • Ónáðið ekki fugla og dýr að óþörfu.  Ef þú ert staddur/stödd nálægt dýrum eða fuglum á hreiðri, reyndu að halda hávaða í lágmarki. 
 • Virðum refinn. Höldum okkur í 40 metra fjarlægð frá refagrenjum og reynum að stoppa ekki hjá greninu lengur en í 20 mínútur. Ef nauðsyn reynist að ganga fram hjá refagreni, göngum þá rösklega og hljóðlega og stoppum ekki fyrr en við erum komin í 40 metra fjarlægð. Forðumst að verða á milli tófu og yrðlinga. Gefum refnum ekki að borða.
 • Virðum einkalíf húseigenda á svæðinu. Höldum okkur í fjarlægð frá húsum. Gægjumst ekki á glugga og förum ekki óboðin inn í hús.
 • Hundar eru ekki leyfir á svæðinu, nema hvað land- og húseigendum er heimilt að vera með sína hunda. Hundar skulu ávallt vera í taumi.
 • Hjólreiðar eru ekki heimilar innan friðlandsins.

Gönguleiðir í Hornstrandafriðlandi

Í friðlandinu eru margar gönguleiðir og eru aðeins nokkrar nefndar hér.

Hesteyri - Sæból í Aðalvík - um Sléttuheiði

Farið er út Hesteyrarfjörðinn ofan Sléttu, upp á Sléttuheiði (200 m). Heiðin er ágætlega vörðuð og stígur liggur um hluta hennar. Af heiðinni liggur leiðin fram hjá prestsetrinu á Stað og þaðan að Sæbóli (5-6 klst.). Ef komið er við á Sléttu lengist gangan um 1-2 klst.

Hesteyri - Látrar í Aðalvík - um Hesteyrarskarð

Leiðin liggur um göngustíg frá Hesteyri og upp í Hesteyrarskarð en þar tekur við vörðuð leið fram á efstu drög Stakkadals. Stakkadalsós þarf að vaða rétt neðan Stakkadalsvatns. Þaðan er skammur gangur að Látrum (3-4 klst.)

Látrar í Aðalvík - Fljótavík - um Tunguheiði

Frá Látrum er veginum á Straumnesfjall fylgt þar til hann beygir til vesturs ofan Rekavíkur og tekur þá fljótlega við vörðuð leið um Tunguheiði fram á brúnir Tungudals. Þar liggur leiðin á gönguslóða um bratta hlíð niður dalinn og áfram að Fljótavatni. Hægt er að vaða ósinn á tveimur stöðum eftir því hvernig stendur á sjávarföllum (6 klst.)

Fljótavík - Kjaransvík - um Þorleifsskarð

Farið er um mýrlendi vestan Fljótavatns eða austan og upp bratta hlíð með lausum skriðum í Þorleifsskarð. Þar tekur við stórgrýti niður í Almenninga og síðan er farið um Almenningaskarð og í Kjaransvík. Þetta er seinfarin leið og erfið (8-10 klst.)

Hesteyri - Kjaransvík - Hlöðuvík - um Kjaransvíkurskarð

Frá Hesteyri í Kjaransvíkurskarð er farið eftir varðaðri leið um Hesteyrarbrúnir og að skarðinu (426 m). Norðan við skarðið tekur við vörðuð leið niður í Kjaransvík. Þaðan er haldið um fjöruna fyrir Álfsfell og í Hlöðuvík. Líka er hægt að fara fjöruleið inn Hesteyrarfjörð og er þá farið fram hjá rústum hvalveiðistöðvarinnar á Stekkeyri en á þeirri leið þarf að sæta sjávarföllum (6-7 klst.)

Hlöðuvík - Hornvík - um Atlaskarð

Frá Hlöðuvík liggur leiðin upp gönguslóða í brattri hlíð í innanverðum Skálakambi. Þar tekur við vörðuð leið ofan Hælavíkur og í Atlaskarð (327 m). Úr skarðinu er gengið niður í Rekavík og áfram í bröttum hliðarsneiðingi fyrir Kollinn að Höfn í Hornvík (4-5 klst.)

Veiðileysufjörður - Hornvík - um Hafnarskarð

Úr botni Veiðileysufjarðar er farið um Hafnarskarð (519 m). Fáar vörður eru á leiðinni upp í skarðið en vel er varðað úr skarðinu niður í Hornvík (4-5 klst.)

Hrafnsfjörður - Furufjörður - um Skorarheiði

Leiðin liggur úr botni Hrafnsfjarðar um lága heiði, Skorarheiði (200 m), í Furufjörð. Hún liggur að hluta til á stíg en einnig eru vörður austan megin (3 klst.)

Furufjörður - Hornvík

Frá Furufirði er haldið út með firðinum að norðanverðu fyrir Bolungavíkurófæruna í norðanverðum Furufirði en þar þarf að sæta sjávarföllum. Úr Bolungavík er farið um Göngumannaskörð (366 m) í Barðsvík, um Smiðjuvíkurháls í Smiðjuvík og áfram norður Almenninga að Axlarfjalli. Fátt er um vegmerkingar á þeirri leið. Af Axlarfjalli er haldið niður að Hornbjargsvita í Látravík og þaðan í Hornvík (2-3 dagar).

Úr Furufirði er einnig hægt að ganga um Svartaskarð í Þaralátursfjörð og Reykjafjörð og þaðan áfram í Ófeigsfjörð og Ingólfsfjörð (4-5 dagar).

Hornvík - Hornbjarg

Gengið er fyrir víkina að Hafnarósnum. Þegar yfir ósinn er komið er haldið út með fjörunni á nyrsta hluta bjargsins og á Miðfell. Brattkleifir geta lagt leið sína á Kálfatind (534 m), hæsta hluta bjargsins, og virt fyrir sér tindinn Jörund (8-10 klst).

Friðlandið á Hornströndum var friðlýst sem friðland árið 1975 í samræmi við lög nr. 47/1971 um náttúruvernd með auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 366/1975. Friðlýsingin var endurskoðuð árið 1985 með auglýsingu nr. 332/1985. 

Hornastrandanefnd er starfandi samráðsnefnd um málefni friðlandsins á Hornströndum. Samkvæmt skipunarbréfi er hlutverk nefndarinnar m.a. að veita ráðgjöf um málefni friðlandsins, framkvæmdir á svæðinu, stefnu þess o.s.frv. Nefndin er skipuð fulltrúum tilnefndum af Ísafjarðarbæ, Landeigendafélagi Sléttu- og Grunnavíkurhrepps auk Umhverfisstofnunar. Friðlandið á Hornströndum heyrir undir starfsstöð Umhverfisstofnunar á Ísafirði, þar starfar sérfræðingur að málefnum friðlandsins allt árið.

 • Fulltrúar Hornstrandanefndar
 • Kristín Ósk Jónasdóttir, Umhverfisstofnun, formaður
 • Andrea Harðardóttir, Ísafjarðarbær
 • Guðmundur Gunnarsson, Ísafjarðarbær
 • Ingvi Stígsson, landeigendafélagi Sléttu- og Grunnavíkurhrepps
 • Margrét Katrín Guðnadóttir, landeigendafélagi Sléttu- og Grunnavíkurhrepps
 • Sölvi Sólbergsson, landeigendafélagi Sléttu- og Grunnavíkurhrepps
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira