Hornstrandir

Af hverju var svæðið friðlýst?

Friðlandið var stofnað 1975. Þar er að finna feikna há fuglabjörg eru iðandi af sjófugli. Á Hornströndum var áður byggð sem þótti um margt sérstæð. Núorðið hefur einungis vitavörðurinn þar fasta búsetu allt árið. Landslag á þessum slóðum hefur áhrif á ímyndunaraflið þannig að sagnir um tröll og forynjur vakna enda hefur náttúrutrúin líklega hvergi verið jafn sterk og á Hornströndum. Refur hefur átt sér griðland á Hornströndum. Ekki er ólíklegt að ferðalangar rekist á rebba því hann hefur vanist ferðum mannanna og er gæfur. Dýralíf og gróðurfar á svæðinu bera skýr merki þess að að ágangur manna og búfénaðar er takmarkaður.

Hvar eru Hornstrandir?

Magnað landsvæði nyrst á Vestfjörðum. Mörk friðlandsins eru um Skorarheiði milli Hrafnsfjarðar og Furufjarðar og nær friðlandið því yfir Hornstrandir og hluta af Jökulfjörðum, eða Sléttuhrepp og hluta af Grunnavíkurhreppi.

Stærð friðlandsins er 58,915 ha.

Hvað er áhugavert?

Landslag

Landslag í friðlandinu er stórbrotið. Jökulfirðir eru umluktir fjöllum en Hornstrandir eru fyrir opnu hafi. Þar sést vel hvernig svæðið hefur byggst upp af röð eldgosa því að hraunlög eru vel sýnileg og setlög á milli. Jarðlögin eru hluti af blágrýtismynduninni, um 12-15 miljón ára gömul, ein hin elstu á landinu. Fjöldi bergganga skerst í gegnum hraunlagastaflann. Sjávarrof einkennir landmótun á Hornströndum eins og sjá má á björgunum en í Jökulfjörðum eru ummerki eftir jökulrof einkennandi.

Gróðurfar

Í friðlandinu hafa fundist um 260 tegundir háplantna. Flestar þessar tegundir eru algengar á Vestfjörðum en þar eru líka ýmsar sjaldgæfar tegundir. Svæðið hefur verið alfriðað fyrir beit í nokkra áratugi og það sem vekur fyrst athygli er hin ótrúlega gróska blómgróðurs á bæjar-stæðum og í skjólsælum brekkum. Samfelldur gróður nær þó ekki nema upp í 300-400 m hæð og ekki er minni fegurð fólgin í smávöxnum fjallajurtum, eins og jöklasóley, en hávöxnu stóði af burnirót og blágresi. Þá má nefna baunagras og blálilju í fjörum. Mikil snjóalög gera það að verkum að land er að koma undan snjó allt sumarið. Gróður er því alltaf viðkvæmur fyrir traðki.

Dýralíf

Hagamýs eru algengar en af spendýrum er refurinn mest áberandi. Friðunin gerir það að verkum að refir hafa komist upp á lagið með að sníkja mat af ferðalöngum. Við ströndina er algengt að sjá seli, bæði landsel, útsel og flækinga. Í friðlandinu verpa um 30 fuglategundir en margar fleiri tegundir sjást þar. Áhugaverðust eru fuglabjörgin, Hornbjarg, Hælavíkurbjarg og Riturinn, en þar er gríðarleg mergð fugla. Í fuglabjörgunum er svartfugl (stuttnefja, langvía og álka) yfirgnæfandi. Þar verpur líka mikið af ritu og fýl. Í friðlandinu er mikið af sendlingi, snjótittlingi og þúfutittlingi. Smádýralíf er ekki síður áhugavert og menn verða oft óþægilega varir við flugur.

Aðgengi

Einfaldast er að komast í friðlandið á bát, bæði að vestan (frá Bolungarvík og Ísafirði) og að austan (frá Norðurfirði og Hólmavík). Algengustu viðkomustaðirnir eru Hrafnsfjörður, Veiði-leysufjörður, Hesteyri, Sæból og Látrar í Aðalvík, Hornvík, Bolungavík og Furufjörður, en þar er hægt að lenda mjög víða. Einnig er hægt að ganga frá Unaðsdal á Snæfjallaströnd eða úr Ingólfsfirði í Árneshreppi.

Gangandi fólki er heimilt að fara um svæðið, svo fremi það skaði ekki lífríki, jarðmyndanir eða mannvirki. Hestaferðir eru ekki leyfðar og umferð ökutækja er bönnuð. Allt sem menn hafa með sér inn á svæðið verða menn að fara með aftur. Ef þess er kostur skal tjalda á merktum tjaldstæðum og alltaf verður að skilja við tjaldstæði eins og komið var að þeim. Meðferð skotvopna er bönnuð og öll dýr eru friðuð en landeigendum eru leyfðar hefðbundnar nytjar.

Ferðamenn verða að hafa með sér tjöld og góðan klæðnað. Aldrei má gleyma að á Hornströndum eru veður válynd. Það getur snjóað hvenær sem er og illviðri getur skollið á fyrirvaralítið og staðið lengi. Því verður að vera við öllu búinn í gönguferðum í friðlandinu. Ekki er óalgengt að dimm þoka leggist yfir og því er nauðsynlegt að geta gengið eftir áttavita og staðsetningartæki geta komið að góðum notum. Það verður að taka allan mat með sér og alltaf þarf að gera ráð fyrir að ferðaáætlun standist ekki og menn tefjist. Bátar komast ekki alltaf til að sækja fólk þegar gert er ráð fyrir. Ekki er hægt að treysta á farsímasamband en talstöðvar eru í neyðarskýlum. Því þarf að skipuleggja ferð á Hornstrandir vandlega. Nauðsynlegt er að taka með sér góð kort og prýðilegar leiðarlýsingar hafa verið gefnar út. Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Náttúruvernd ríkisins, Náttúrustofu Vestfjarða og upplýsingamiðstöð ferðamála á Ísafirði og Hólmavík.

Ferðalög í Hornstrandafriðlandinu snemmsumars

Þeir sem hyggjast leggja leið sína í Hornstrandafriðlandið snemmsumars þurf að hafa eftirfarandi í huga:

Reglur Hornstrandafriðlands kveða á um að ferðamenn skuli tilkynna um ferðir sínar á tímabilinu 15. apríl til 15. júní, þ.e. áður en eiginlegt tímabil ferðamennsku hefst.  Landeigendur eru undanþegnir þessu ákvæði. Tilkynna má Hornstrandastofu í síma 591 2000 (biðja skal um Hornstrandastofu) eða hornstrandir@umhverfisstofnun.is.

HesteyriÁstæðan tilkynningaskyldu er nauðsyn þess að hafa yfirsýn yfir ferðir fólks á umræddu tímabili en þá er náttúra svæðisins hvað viðkvæmust (fugla- og dýralíf) og þolir lítið rask eða truflun. Svæðið er að koma undan snjó og yfirleitt  mjög blautt yfirferða. Jafnframt er brýnt að vita um ferðir og staðsetningu fólks ef ná þyrfti í það, s.s. vegna ísbjarnarkomu, eða annarrar váar. Ekki er æskilegt að margir og/eða fjölmennir hópar fari um svæðið á umræddu tímabili.  

Ferðamenn þurfa að gera sér grein fyrir því að fáir, ef nokkrir eru á svæðinu snemmvors. Ástand svæðisins og öryggisbúnaður hefur ekki verið tekinn út og því óvissa um ástand neyðarskýla, talstöðva o.s.frv.  

Talsverður snjór eða bleyta getur verið í fjallaskörðum og þau jafnvel verið illfær (háir, lóðréttir skaflar í brúnum).  Vöð á ám gætu hafa breyst yfir vetrartímann og óvissa um ástand brattra fjallastíga (einstiga). Hafa ber í huga að margar gönguleiðir liggja í miklum bratta og geta þær verið ísilagðar og varasamar langt fram á vor.  

Fara þarf varlega á tjaldsvæðum, jafnt vegna bleytu svo og vegna sinu (varlega með eldunaráhöld).  Flestir kamrar eru fergðir yfir vetrartímann (hurðir).  Gæta þarf þess að loka þeim tryggilega þegar tjaldsvæði eru yfirgefin.  Ekkert skal skilja eftir sig á svæðinu.  Fara skal varlega í blautum stígum og gæta þess að troða þá ekki út eða mynda nýja stíga.  

Brýnt er að fara varlega í nágrenni varpsvæða fugla og við refagreni.  Ekki skal dvelja á slíkum stöðum eða skilja eftir sig mat eða annað sem veldur truflun.  Dýralíf er viðkvæmt á þessum tíma og styggist auðveldlega. 

Af og til koma ísbirnir á svæðið með Grænlandsísnum. Þó slíkar heimsóknir séu ekki tíðar, þarf að hafa varan á sér og fylgjast vel með umhverfinu og ummerkjum (slóð) eftir dýrin. Strax skal tilkynna ef björns verður vart á svæðinu og forðast ber að nálgast dýrið.   

Landvörður fer um svæðið í maí og kannar aðstæður.  Brýnt er að slíku eftirliti sé lokið áður en ferðamenn leggja leið sína í einhverjum mæli um svæðið.

Gönguleiðir í Hornstrandafriðlandi

Í friðlandinu eru margar gönguleiðir og eru aðeins nokkrar nefndar hér.

Hesteyri - Sæból í Aðalvík - um Sléttuheiði

Farið er út Hesteyrarfjörðinn ofan Sléttu, upp á Sléttuheiði (200 m). Heiðin er ágætlega vörðuð og stígur liggur um hluta hennar. Af heiðinni liggur leiðin fram hjá prestsetrinu á Stað og þaðan að Sæbóli (5-6 klst.). Ef komið er við á Sléttu lengist gangan um 1-2 klst.

Sæból - Látrar í Aðalvík

Gengið er inn með fjörunni og um lítinn klettabás þar sem þarf að sæta sjávarföllum fyrir Hvarfnúp og síðan áfram fyrir Mannafjall og að Látrum. Vaða þarf tvær ár á leiðinni (4 klst.)

Hesteyri - Látrar í Aðalvík - um Hesteyrarskarð

Leiðin liggur um göngustíg frá Hesteyri og upp í Hesteyrarskarð en þar tekur við vörðuð leið fram á efstu drög Stakkadals. Stakkadalsós þarf að vaða rétt neðan Stakkadalsvatns. Þaðan er skammur gangur að Látrum (3-4 klst.)

Látrar í Aðalvík - Fljótavík - um Tunguheiði

Frá Látrum er veginum á Straumnesfjall fylgt þar til hann beygir til vesturs ofan Rekavíkur og tekur þá fljótlega við vörðuð leið um Tunguheiði fram á brúnir Tungudals. Þar liggur leiðin á gönguslóða um bratta hlíð niður dalinn og áfram að Fljótavatni. Hægt er að vaða ósinn á tveimur stöðum eftir því hvernig stendur á sjávarföllum (6 klst.)

Fljótavík - Kjaransvík - um Þorleifsskarð

Farið er um mýrlendi vestan Fljótavatns eða austan og upp bratta hlíð með lausum skriðum í Þorleifsskarð. Þar tekur við stórgrýti niður í Almenninga og síðan er farið um Almenningaskarð og í Kjaransvík. Þetta er seinfarin leið og erfið (8-10 klst.)

Hesteyri - Kjaransvík - Hlöðuvík - um Kjaransvíkurskarð

Frá Hesteyri í Kjaransvíkurskarð er farið eftir varðaðri leið um Hesteyrarbrúnir og að skarðinu (426 m). Norðan við skarðið tekur við vörðuð leið niður í Kjaransvík. Þaðan er haldið um fjöruna fyrir Álfsfell og í Hlöðuvík. Líka er hægt að fara fjöruleið inn Hesteyrarfjörð og er þá farið fram hjá rústum hvalveiðistöðvarinnar á Stekkeyri en á þeirri leið þarf að sæta sjávarföllum (6-7 klst.)

Hlöðuvík - Hornvík - um Atlaskarð

Frá Hlöðuvík liggur leiðin upp gönguslóða í brattri hlíð í innanverðum Skálakambi. Þar tekur við vörðuð leið ofan Hælavíkur og í Atlaskarð (327 m). Úr skarðinu er gengið niður í Rekavík og áfram í bröttum hliðarsneiðingi fyrir Kollinn að Höfn í Hornvík (4-5 klst.)

Veiðileysufjörður - Hornvík - um Hafnarskarð

Úr botni Veiðileysufjarðar er farið um Hafnarskarð (519 m). Fáar vörður eru á leiðinni upp í skarðið en vel er varðað úr skarðinu niður í Hornvík (4-5 klst.)

Hrafnsfjörður - Furufjörður - um Skorarheiði

Leiðin liggur úr botni Hrafnsfjarðar um lága heiði, Skorarheiði (200 m), í Furufjörð. Hún liggur að hluta til á stíg en einnig eru vörður austan megin (3 klst.)

Furufjörður - Hornvík

Frá Furufirði er haldið út með firðinum að norðanverðu fyrir Bolungavíkurófæruna í norðanverðum Furufirði en þar þarf að sæta sjávarföllum. Úr Bolungavík er farið um Göngumannaskörð (366 m) í Barðsvík, um Smiðjuvíkurháls í Smiðjuvík og áfram norður Almenninga að Axlarfjalli. Fátt er um vegmerkingar á þeirri leið. Af Axlarfjalli er haldið niður að Hornbjargsvita í Látravík og þaðan í Hornvík (2-3 dagar).

Úr Furufirði er einnig hægt að ganga um Svartaskarð í Þaralátursfjörð og Reykjafjörð og þaðan áfram í Ófeigsfjörð og Ingólfsfjörð (4-5 dagar).

Hornvík - Hornbjarg

Gengið er fyrir víkina að Hafnarósnum. Þegar yfir ósinn er komið er haldið út með fjörunni á nyrsta hluta bjargsins og á Miðfell. Brattkleifir geta lagt leið sína á Kálfatind (534 m), hæsta hluta bjargsins, og virt fyrir sér tindinn Jörund (8-10 klst).

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira