Grábrókargígar, Borgarbyggð

Grábrókargígar voru fyrst friðlýstir árið 1962 en friðlýsingunni var breytt árið 1975. Gígarnir eru þrír, Litla-Grábrók hvarf að mestu við framkvæmdir en Stóra-Grábrók rís fagurformuð fast við þjóðveginn. Þriðji gígurinn er vestar og heitir Grábrókarfell. Gígarnir tilheyra eldstöðvakerfi sem teygir sig langt vestur á Snæfellsnes. Hraun úr gígunum þekur stóran hluta Norðurárdals. Gangandi fólki er heimil för um hið friðlýsta svæði enda sé fylgt merktum slóðum og snyrtimennsku gætt í hvívetna.   

Stærð náttúruvættisins er 28,7 ha.

Myndin sýnir Grábrókarfell ofan frá Stóru-Grábrók

Ógnir 

 • Mikið álag er á svæðinu. Margir gestir heimsækja svæðið og það hefur troðist niður.
 • Tilkoma háskólaþorps á Bifröst hefur aukið álag á svæðið. Nýjar gönguleiðir hafa myndast á gígana frá Bifröst. 
 • Borið hefur á því að fólk tíni grjót úr Grábrókinni. 
 • Gestir á svæðinu hlaða vörður. 
 • Búfénaður gengur um viðkvæm svæði. 
 • Hópsamkomur, þar sem jafnvel nokkur hundruð manns fara í hópum upp gígana. 
 • Ritað hefur verið í mosann (mosi rifinn). 
 • Margir gamlir stígar setja neikvætt útlit á svæðið. 
 • Ekkert salerni er á svæðinu. 

 Tækifæri 

 • Gerð verndaráætlunar.
 • Koma þyrfti upp þurrsalerni inni á svæðinu.
 • Afmá þarf eldri gönguleiðir sem setja ljótan svip á gígana og endurheimta þeirra náttúrulega útlit.
 • Halda þarf áfram að endurheimta mosa á Grábrókarfelli. 
 • Halda þarf áfram með lagfæringar á göngustígum og pöllum og bæta við merkingar, þó svo að nýtt skilti hafi verið sett upp. 
 • Tengilið vantar á Bifröst. 
 • Þörf er á að mæla fjölda ferðamanna á svæðinu.
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira