Varasöm efni

Hér er að finna fróðleik um 14 varasöm efni í neytendavörum sem geta skaðað heilsu þína og umhverfi.
Arsenik er eitt af frumefnum jarðar. Það hefur verið notað til að gagnverja (fúaverja) timbur, við framleiðslu á glervörum til að hindra loftbólumyndun og í rafbúnaði.

Af hverju er það hættulegt?

Hin ýmsu arseniksambönd safnast fyrir í plöntum og dýrum í mismiklu mæli. Þau geta verið mjög eitruð lífríkinu og jafnvel valdið krabbameini. 

Í hvað er efnið notað? 
 • Gagnvarið timbur
 • Raftæki
 • Ýmsar gerðir af gleri
 • Plastvörur (PVC-vörur)
 • Steinefnaáburður 
 • Tóbak 
 • Rafgeyma í bíla
Áður fyrr var timbur gagnvarið með s.k. CCA þrýstimeðferð þar sem kopar (C), krómi (C) og arseniki (A) var þrýst inn í viðinn. Í dag er bannað að nota arsenik og króm í þrýstimeðferðir á timbur nema í sérstökum tilfellum innan atvinnulífsins. Þessi efni munu þó halda áfram að leka úr gömlu CCA- meðhöndluðu timbri næstu árin. 
CCA-meðhöndlað timbur flokkast undir spilliefni og því verður að skila því á endurvinnslustöð sem slíku. CCA-meðhöndlað timbur má ekki brenna því efnin mynda eitraðan reyk, ryk og ösku.

Bisfenol A er eitt af mikilvægustu byggingarefnunum í hörðu plasti (pólýkarbonatplast). Það er notað sem herði- og bindiefni í PVC plasti og til að gera efnasambönd plastsins stöðug. Bisfenól A finnst líka í hinum ýmsu vörutegundum úr epoxý.

Af hverju er það hættulegt?

Bisfenol A er flokkað sem ertandi og ofnæmisvaldandi við snertingu við húð og getur haft áhrif á frjósemi. Efnið getur raskað hormónajafnvægi og hefur skaðleg áhrif á lífríki vatns. Deilt hefur verið um áhrif Bisfenól A í neytendavörum vegna mismunandi túlkunar á niðurstöðum vísindarannsókna.  Bisfenól A er bannað í barnapelum á Íslandi og í Danmörku og hafa önnur lönd slíkt til athugunar.

Í hvað er efnið notað?

 • Pólýkarbonatplast, t.d. í pela og harða hlutann á snuði
 • Rafbúnað og raftæki
 • Geisladiska
 • PVC-plast, t.d. gólfefni
 • Epoxývörur, t.d. málning, lím, lakk.

 Ákveðnar reglur gilda um Bisfenól A í vörum sem komast í snertingu við matvæli eins og plastpoka þar sem ákveðið magn af efnunum má leka úr vörunni.

 

Blý er þungur og mjúkur málmur sem finnst í mörgum mismunandi efnasamböndum. Blý er góð ryðvörn og ýmis blýsambönd eru notuð í keramik og sem litar- og ryðvarnarefni í málningu. Auk þess eru blýsambönd notuð til að gera efnasambönd í PVC-plasti stöðug.

Af hverju er það hættulegt?

Blý safnast fyrir í líkama dýra og manna og getur náð þar háum styrk. Blý er eitrað og of mikið blý í líkamanum getur skaðað rauðu blóðkornin og taugakerfið. Þroskaferli heilans í fóstrum og ungum börnum eru sérstaklega viðkvæmt fyrir áhrifum blýs. Auk þess er blý skaðlegt lífverum sem lifa í vatni. 

Í hvað er efnið notað?

 • Rafgeymar í bílum
 • Veiðarfæri
 • Skotfæri
 • Málningu
 • Rautt og gult leirtau

Búið er að banna blý í bensíni, í blýhöglum við veiðar og rafbúnaði (með nokkrum undantekningum). Auk þess er bannað að nota einföld blýsambönd í málningu.

Brómeruð eldvarnarefni er samheiti yfir fjölda efna sem notuð eru í ýmsar vörutegundir til að eldverja þær. 

Af hverju eru þau hættuleg?

Einföld brómeruð eldvarnarefni eru mjög eitruð lífverum í vatni og mörg þessara efni brotna lítið niður í náttúrunni. Því safnast þau fyrir í lífríkinu, í bæði mönnum og dýrum og valda þannig skaða. Sum af þessum brómeruðu eldvarnarefnum geta valdið lifrarskaða og önnur raskað hormónajafnvægi, minnkað frjósemi, skaðað fóstur og valdið skemmdum á taugakerfinu. Enn er ekki vitað um langtímaverkun þessara efna.

Hvar eru þau notuð?

 • Rafbúnaður
 • Einangrunarefni úr plasti
 • Vefnaðarvörur

Þalöt (e. phtalates) erusamheiti yfir efni sem hafa þá eiginleika að gefa plasthlutum mýkt. Þau eru notuð í mörgum vörutegundum sem við notum daglega.

Af hverju eru þau hættuleg?

Þalöt geta haft skaðleg áhrif á frjósemi og skaðað fóstur. Skaðsemi þalatanna díbútýlþalats (DBP) og bis(2-etýlhexýl)þalats (DEHP) á frjósemi manna hefur verið kunn um áratugaskeið og eru fóstur og nýfædd börn viðkvæmust fyrir þessum efnum. Konur á barneignaraldri sem fá þalöt í líkama sinn, bera það í ófætt barn sitt og getur það skaðað þroska þess. Það á líka við um lítil börn sem eiga eftir að taka út mikinn þroska. Þalöt hafa fundist í brjóstamjólk.

Í hvað eru þau notuð?

 • Plast, PVC (t.d. byggingarefni, gólfefni, fatnaði, pokum)
 • Gúmmí (t.d. skóm)
 • Málningu
 • Lím

Þalötin BBP, DBP og DEHP eru bönnuð í leikföngum og vörum til nota við  umönnun barna og í efnavörum fyrir neytendur.

Þalöt brotna misvel niður í umhverfinu, hafa þau mælst víða og getur lífríkinu á sumum stöðum stafað hætta af þeim. Vegna þess hve þalöt eru notuð víða geta þau verið í örlitlu magni í innanhússlofti og eru því alltaf til staðar í líkama manna þó í mjög litlu magni sé.

Klórparafín er samheiti fyrir stóran flokk efna. Þau eru notuð sem eldtefjandi efni í plasti, gúmmíi og textílvörum og sem mýkingarefni í málningu og plasti.

Af hverju eru þau hættuleg?

Klórparafín brotnar hægt niður í umhverfinu og geta safnast fyrir í mönnum og dýrum. Auk þess eru þau mjög eitrað lífverum í vatni. Þessi efni hafa fundist víða í fæðukeðjunni, t.d. í fiskum, fuglum og móðurmjólk. Efnið getur borist til barns með móðurmjólkinni, getur hægt á þroska barnsins og haft áhrif á þroska heilans.

Í hvað er efnið notað?

 • Einangrunarefni
 • Plast
 • Glugga og hurðir

Króm er eitt af frumefnunum og finnst í hinum ýmsu efnasamböndum. Slík krómsambönd eru notuð til að hindra að timbur fúni og málmur ryðgi. Auk þess eru þau notuð sem litarefni og ryðvörn í málningu og við framleiðslu á grænu gleri.

Af hverju eru það hættulegt?

Hættulegustu krómsamböndin eru svokölluð sexgild krómsambönd. Þau eru krabbameins- og ofnæmisvaldandi mjög eitruð lífverum í vatni. Einnig geta sum þeirra valdið skemmdum á erfðaefni og minnkað á frjósemi. 

Í hvað er efnið notað?

 • Leður og skinn
 • Málningu
 • Sement 
 • Litaðar glerumbúðir
 • Þéttiefni (fúguefni)
 • Viðarvörn

Í dag er bannað að nota króm í þrýstimeðferðir á timbur nema í sérstökum tilfelllum innan atvinnulífsins. Þessi efni munu þó halda áfram að leka úr gömlu CCA- meðhöndluðu timbri næstu árin.


Kvikasilfur er eitt af frumefnunum og finnst í hinum ýmsu efnasamböndum. Það er ólíkt öðrum málmum á ýmsan hátt. Það er á fljótandi formi við stofuhita og því álitlegur kostur við gerð hitamæla. Blanda kvikasilfur og annars málms kallast amalgam og er slík blanda kvikasilfurs og silfurs notað í tannlækningum. Í sparperum og flúrljósum breytir kvikasilfrið raforku í ljósorku.

Af hverju eru það hættulegt?

Kvikasilfur getur safnast fyrir og magnast upp í dýrum og mönnum og valdið skaða á taugakerfi og nýrum. Hár styrkur í blóði barnshafandi konu getur valdið fósturskaða. 

Í hvað er efnið notað?

 • Flúrperur
 • Sparperur
 • Smárafhlöður

Strangar reglur gilda um kvikasilfur í neytendavörum og er leyfilegur hámarksstyrkur þess 0,0001%. Önnur hámarksgildi eiga þó við um raftæki, umbúðir, rafhlöður og bílhluti.

Musk-xylene er eitt af svokölluðu „gervi“-ilmefnum sem framleidd eru innan efnaiðnaðarins en til eru margar gerðir af musk-efnasamböndum. Musk-xylene er notað til að gefa lykt og notað í ilmvötnum og sápum sem annar valkostur við náttúrleg ilmefni.

Af hverju eru það hættulegt?

Efnið brotnar hægt niður og safnast fyrir í náttúrunni. Þannig getur það náð háum styrk í dýrum og mönnum. Það er talið geta valdið krabbameini og er mjög eitrað lífverum í vatni.

Í hvað er efnið notað?

 • Snyrtivörur
 • Bíla- og bátavörur
 • Þvotta- og hreinsiefni
 • Ilmkerti

Musk-xylene er á lista Evrópusambandsins yfir efni sem verða bönnuð. Eingöngu verður leyfilegt að nota þetta efni undir ströngum skilyrðum og með tilskilið leyfi upp á vasann.

Þessi efni hafa margskonar eiginleika og því notuð í mörgum og ólíkum vörutegundum. Í neytendavörum eru aðallega notuð nonylfenóletoxýlat og oktylfenóletoxýlat. Etoxýlöt bæta meðal annars úðunareiginleika í þvottaefnum og leysa upp fitu.

Af hverju eru það hættulegt?

Oktýl- og nonýlfenólar brotna hægt niður í umhverfinu og geta safnast fyrir í dýrum og mönnum. Þessi efni eru eitruð vatnalífverum og sýnt hefur verið fram á hormónaraskandi áhrif í fiskum. Í mönnum getur það haft áhrif á frjósemi og geta skaðað fóstur ef þú ert barnshafandi. Nonýlfenól er ertandi og skaðlegt við inntöku.

Í hvað er efnið notað?

 • Málningu og lakk
 • Lím
 • Vefnað
 • Byggingarvörur
Strangar reglur eru í gildi um leyfilegan hámarksstyrk á nonýlfenól, oktýlfenól og etoxýlatsamböndum þeirra í fjölda vörutegunda.

Paraben eru flokkur efna sem eru m.a. notuð sem rotvarnarefni í snyrtivörum fyrir bæði börn og fullorðna. Ástæðan fyrir því að paraben eru notuð í snyrtivörum er að þau hindra bakteríuvöxt og viðhalda gæðum vörunnar til lengri tíma, þ.e. rotverja hana.

Af hverju er það varasamt?

Parben fer auðveldlega í gegnum húð. Rannsóknir hafa sýnt að paraben raskar hormónastarfsemi og geta mögulega stuðlað að brjóstakrabbameini. Áhrifin aukast með stærð sameindarinnar.

Leyfilegur hámarksstyrkur parabena í snyrtivörum er háður takmörkunum og var lækkaður árið 2014 eftir skoðun vísindanefndar Evrópusambandsins um neytendavörur. Þetta á við um eftirtaldar fjórar gerðir parabena: metýlparaben, etýlparaben, própýlparaben og bútýlparaben. Fimm aðrar gerðir parabena voru bannaðar í framleiðslu á snyrtivörum 30. október 2014 og frá og með 30. júlí 2015 mátti ekki selja snyrtivörur sem framleiddar voru fyrir þann tíma og innihalda eitt eða fleiri af þeim parabenum. Um er að ræða isóprópýlparaben, ísóbútýlparaben, fenýlparaben, benzýlparaben og pentýlparaben.

Ef neytandinn vill forðast snyrtivörur sem innihalda paraben þá eru vörur án parabena til á markaði. Snyrtivörur með umhverfismerkinu Svaninum innihalda ekki paraben og hægt er að nálgast þær m.a. í ýmsum apótekum og heilsubúðum.

Í hvað er efnið notað?

Paraben eru notuð í snyrtivörur, s.s. ýmis krem, áburð, hárvörur, sólarvarnarefni og andlitsfarða.

Efnin PFOS og PFOA hrinda frá sér bæði vatni og fitu og eru notuð m.a. til að gera vörur vatnsþéttar og gefa þeim þann eiginleika að hrinda frá sér óhreinindum. Auk þess eru efnin notuð í teflonhúðun á pottum og pönnum. Venjuleg notkun á teflonpottum og pönnum er ekki heilsuskaðleg. Hér áður var PFOS mikið notað slökkvitækjafroðu sem notuð var til að slökkva olíubruna.

Af hverju eru það hættulegt?

PFOS og PFOA brotna mjög hægt niður í náttúrunni og geta safnast fyrir í mönnum og dýrum. Þau geta valdið fósturskaða og eru krabbameinsvaldandi. 

Í hvað er efnið notað?

 • Filman sem gefur útivistarfatnaði vatnsvörn
 • Teppi
 • Málning og lökk
 • Teflon pottar og pönnur 
 • Slökkvitækjafroða

Strangar reglur eru í gildi um leyfilegan hámarksstyrk PFOS-efna í ýmsum vörum, t.d. sem vatnsvörn í fatnaði.

D5 er efnasamband í efnahópnum Siloksan sem telur mörg ólík efni. D5 er notað t.d. í sjampói, kremum og þess háttar og gefur þessum vörum þá eiginleika að það verður auðveldara að „smyrja þeim á sig“ og nota. Efnið er einnig notað til lengja endingartíma málningar sem þarf að standast álag vinds og veðurs. Auk þess er það notað í raftækjum.

Af hverju eru það hættulegt?

Notkun efnisins er umfangsmikil í alls konar vörum og efnið því í miklu magni í umhverfinu. Efnið brotnar hægt niður og safnast því fyrir í lífríkinu. Ekki er mikið vitað um langtímaverkun efnisins.

Í hvað er efnið nota?

 • Snyrtivörur og vörur fyrir umhirðu líkamans
 • Hreinsi- og þvottaefni

Tríklósan er efni með bakteríudrepandi áhrif.

Af hverju eru það hættulegt?

Triclosan er mjög eitrað lífverum í vatni og notkun þess er talin geta valdið því að bakteríur verði ónæmar fyrir sýklalyfjum. Slíkt getur leitt til þess að smávægilegar sýkingar sem við getum í dag unnið gegn með sýklalyfjum, verði hættulegar þegar sýklalyfin virka ekki lengur á bakteríuna. Tríklósan hefur fundist í líkama manna út um allan heim.

Í hvað er efnið notað?

 • Tannkrem
 • Svitalyktareyði
 • Snyrtivörur
 • Textílvörur (t.d. æfingafatnað)

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira