Ágætis byrjun

Svanurinn auðveldar foreldrum að velja vöru og þjónustu sem standast ströngustu umhverfis-, heilsu– og gæðakröfur.

Ágætis byrjun er verkefni sem Umhverfisstofnun stendur fyrir til að kynna Svaninn og hvetja foreldra til að nota umhverfismerki sem hjálpartæki við vöruval. Með því að velja umhverfisvottaðar vörur fram yfir aðrar tekur maður sjálfur stjórnina og velur í auknum mæli hvaða efni maður kemst í snertingu við. 

Verkefnið Ágætis byrjun gengur út á að dreifa Svanspokum til nýbakaðra foreldra. Verkefnið er unnið að norskri fyrirmynd en þar hefur sambærilegt verkefni verið í gangi síðan 2005. Í pokunum er bæklingur sem fjallar um umhverfismerkið Svaninn og mikilvægi þess að velja umhverfisvottað fyrir ungabörn. Í pokanum eru einnig vöruprufur en tilgangurinn er ekki að kynna einstök vörumerki heldur að varpa ljósi á að Svanurinn hefur vottað breitt úrval af ungbarnavörum og því hafa foreldrar raunverulegt val um vöru sem er betri fyrir umhverfi og heilsu. Ágætis byrjun var rekið á árunum 2011-2013 við góðar undirtektir og var það sett aftur af stað í maí 2015.

Sem foreldrar viljum við það allra besta fyrir börnin okkar. Við viljum að þau séu örugg og hamingjusöm og vonum að þau muni lifa góðu lífi. Sjaldan er eins mikilvægt að vanda valið og þegar maður velur vörur fyrir nýfædda krílið sitt. Ungabörn eru mun viðkvæmari fyrir skaðlegum efnum heldur en fullorðnir. Varasöm efni geta leynst í öllum vörum og þess vegna er mikilvægt að vera meðvitaður um áhætturnar og velja skynsamlega. 

Þetta snýst ekki um að vera fullkominn, heldur að velja skynsamlega! Nýbakaðir foreldrar finna margir fyrir álagi því þeir vilja gera allt rétt. Sumum fallast jafnvel hendur því þeim finnst erfitt að leggja mat á mismunandi vörur eða efnainnihald. Skilaboð Svansins eru: Ekki missa móðinn, það er hægt að taka upplýsta og skynsamlega ákvörðun þegar kemur að vöruvali. Hægt er að velja Svansvottaðar vörur í stórum og algengum vöruflokkum en með vali sínu eru foreldrar að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og auka heilnæmi í umhverfi barnsins. 

Svanurinn vonar að verkefnið verði til þess að vekja athygli á mikilvægi neytendavals fyrir umhverfi og lýðheilsu.

Svansvottaðar vörur í öllum helstu vöruflokkum fyrir ungabörn og nýbakaða foreldra.

Tilgangurinn með vöruprufunum er ekki að kynna einstök vörumerki heldur að sýna foreldrum fram á raunverulegan möguleika þess að velja Svansvottað í öllum helstu vöruflokkum fyrir ungabörn og nýbakaða foreldra. Þegar foreldrar fá pokann með prufunum í hendurnar þurfa þeir ekki að velkjast í vafa um að þeir geta rölt út í búð og fundið Svansvottaða vöru án neinnar fyrirhafnar. Prufan veitir foreldrum einnig tækifæri til að prufa vöruna og sannreyna það sem við nú þegar vitum, að Svanurinn gerir strangar gæðakröfur til vottaðra vara. Því er virkni Svansmerktrar vöru vel sambærileg öðrum vörum.

Þetta er í annað sinn sem verkefnið fer að stað en það var áður keyrt árin 2011-2013. Svanurinn bauð fjölmörgum að vera með í verkefninu, þar á meðal öllum þekktum innflytjendum af Svansmerktum ungbarnavörum og öðrum stórum birgjum. Þökkum við þeim sem sóttust eftir að vera með kærlega fyrir þátttökuna. Við vekjum athygli á því að til eru mun fleiri Svansvottaðar ungbarnavörur á markaði en rúmast í einum svona poka.

Svanspokanum er dreift víða um landið en einnig er hægt að nálgast poka hjá Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24.

Svör við algengum spurningum foreldra

Hvað fæ ég út úr því að velja Svansvottað?
Þú getur verið viss um að þú sért að velja örugga vöru fyrir barnið þitt því Svanurinn bannar varasöm efni. Þú sendir líka skýr skilaboð til framleiðenda um að þeir eigi að leggja áherslu á umhverfismál.

Kosta vottaðar vörur meira?
Nei, ekki á heildina litið en auðvitað eru vörumerkin misdýr. Árið 2010 gerðu Neytendasamtökin verðsamanburð á algengum vörum sem fást í dagvöruverslun og þá var ekki mælanlegur munur á Svansvottuðum vörum og öðrum sambærilegum vörum.

Hvar fást Svansvottaðar vörur fyrir ungabörn?
Í öllum helstu dagvöruverslunum og apótekum. Úrval er þó mismikið á milli verslunarkeðja.

Hvaða vörur eru með Svaninn?
Þær eru ótal margar og úrvalið á landinu er sífellt að aukast. Í dag má finna fjölda vöruflokkar fyrir ungabörn og mjólkandi mæður í verslunum. Helstu vöruflokkar eru bleiur, blautþurrkur, sápur, krem, olíur, brjóstapúðar, dömubindi, brjóstakrem, sólarvörn, þvottapokar, fatnaður og leikföng.

Hvernig veit ég að vara sé Svansvottuð?
Ef Svansmerkið er á vörunni er varan vottuð. Svanmerkið auðveldar okkur að velja vöru sem stuðlar að betra umhverfi og bættri heilsu fyrir þig og þína.

Síða uppfærð janúar 2015

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira