Grænþvottur

Ekki umhverfismerki – hætta á grænþvotti

     

Þessi merki eru ekki umhverfismerki á nokkurn hátt en hönnun þeirra og notkun getur oft verið villandi. Merki sem er búin til að örvum sem vísa í hring er yfirleitt vísun í endurvinnslu. Til að mynda er græni hringurinn hér að ofan merki fyrir skilagjaldsskylda umbúðir í Þýskalandi og svarti þríhyrningurinn vísar í að varan sé búin til úr ákveðinni plasttegund (sjá flipa efst) og að hún sé endurvinnanleg. Hins vegar getur vara verið búin til úr afar eitraðri tegund af plasti PVC, sem losar skaðlegar klórsameindir út í náttúruna við niðurbrot, en það má vel búa til aðra PVC vöru úr henni með endurvinnslu. Varan er því ekki umhverfisvæn sem slík. Pandabjörninn hér að ofan er merki WWF (World Wildlife Fund) sem er ágætur sjóður en ef merkið er að finna á vöru þá þýðir það eingöngu að framleiðandi vörunnar hefur styrkt sjóðinn og segir ekkert til um umhverfislegt ágæti vörunnar eða framleiðslu hennar.

Ekki er óalgengt að rekast á loforð framleiðanda á umbúðum sinnar vöru um að hún sé umhverfisvæn, græn eða náttúruleg en þetta eru allt fullyrðingar sem erfitt er að skilgreina og enn erfiðara að færa rök fyrir. Slíkar yfirlýsingar mætti því flokka sem grænþvott og ættu neytendur að varast slíkt. Með því að velja vöru eða þjónustu með áreiðanlegum umhverfismerkjum, líkt og Svaninn eða Evrópublómið, geta neytendur verið vissir um að þeir eru að velja rétt.