Umhverfistofnun - Logo

Moltan

Jarðgerðarferlið er í raun stöðugt í gangi í safntunnunni og erfitt að segja hvenær því er alveg lokið.

Vinnslutími og lokaafurð stjórnast mikið af þeim efnum sem sett eru í tunnuna, hversu vel er hugað að jarðgerðinni og hvort það er heitt eða kalt í veðri. Sumt rotnar hraðar en annað, t.d. rotna ávextir og grænmeti fljótt en t.d. brauð, kjöt, pappír og trjágreinar mun hægar.

Þegar taka á upp það efni sem er neðst í safntunnunni er ráðlagt að sigta grófu efnin úr og setja þau aftur efst í tunnuna. Fína efnið  er þá tilbúin molta, dökkbrún, laus í sér og nánast lyktarlaus.


Notkun moltu

Moltan getur verið misrík af næringarefnum eftir því hráefni sem jarðgert er úr. Tilbúin molta inniheldur oft mikið af næringarefnunum (fosfór og köfnunarefni) því er heppilegt að blanda moltu í venjulegan jarðveg eða dreifa þunnu lagi yfir moldarbeð. Í görðum þar sem eru tré og runnar er þó í lagi að dreifa þykkara moltulagi. Rætur trjánna ná langt niður í jörðina og taka upp næringu sem aðrar plöntur í garðinum ná ekki að nýta.

Mismunandi leiðir til að nota moltu:

  1. Blanda saman við jarðveg
  2. Bera þunnt lag (1-2 sm) á beð
  3. Bera þykkt lag í trjá/runna beð 

ATH: ekki er ráðlagt að nota óblandaða moltu við sáningu.

Niðurbrot lífrænna efna heldur áfram eftir að búið er að dreifa moltunni á jarðveg og er það talið vera einn af meginkostum jarðgerðar, enda losna næringarefnin í henni hægt úr læðingi. Þannig endist næringargeta moltu mun lengur en tilbúins áburðar.