Umhverfistofnun - Logo

Plast

Plast var uppgötvað í kringum aldamótin 1900 og varð strax mikilvægur staðgengill fyrir vörur sem gerðar voru úr dýrum s.s. horn, skjalbökuskeljar o.fl. Plast kemur við sögu í lífi flestra á hverjum degi og er hluti af nánast öllum okkar daglegum athöfnum, bæði heima við og  í vinnu. Vörur úr plasti geta verið vörur sem auka öryggi okkar eins og öryggishjálmar- og gleraugu ásamt barnabílstólum. Margar vörur sem auðvelda líf okkar eru úr plasti t.d. umbúðir utan um matvæli, tölvur, farsímar og burðarpokar. Einnig er plast í vörum sem hafa skemmtanagildi fyrir okkur eins og leikföng, sjónvörp og annað.

Plast er því orðið nánast órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi og hefur marga kosti en því miður hefur samfélag okkar þróað með sér gríðarmikla neyslu og notkun á plasti, bæði fjölnota og einnota. Eins og með alla aðra hluti þurfum við að komast út úr þeim vítahring að líta hluti sem einnota, enda mikil umhverfisáhrif sem fylgja framleiðslu vara og því sorglegt að sóa auðlindum okkar á þann hátt. 

Til að framleiða plast er að mestu leyti notuð olía og jarðgas en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Eins og svo margt annað sem við erum að nýta frá jörðinni þá eru olíuauðlindir okkar ekki endurnýjanlegar. Sem þýðir að á endanum mun auðlindin klárast. Þess vegna er mikilvægt að fara vel með okkar dýru olíuauðlind og eyða henni ekki í efni sem síðan er hent eftir aðeins eina notkun.

Eiginleikar plasts eru þannig að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill. Plast er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri plasthluta í náttúrunni, kallað örplast. Plast er það létt efni að það flýtur. Það getur þar af leiðandi borist um hundruði kílómetra í vötnum og höfum og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum. Gríðarstórir flákar af plasti hafa þegar myndast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi þar sem hafstraumar hafa borið plastið þangað. Það er síðan fast þar í þessum gríðarstórum hringstraumum sem þar eru.

Magn umbúðaplasts

Notkunartími einnota plasts er mjög stuttur því einnota umbúðum er hent um leið og búið er að drekka vatnið, kaffið, borða brauðið, ávextina og fleira. Að meðaltali er talið að hver plastpoki sé notaður í um 20 mínútur og endi síðan í ruslinu eða úti í náttúrunni. Þessi óþarfa notkun á einnota plasti verður til þess að allt of mikið er til af því og það safnast fyrir í umhverfinu og veldur skaða á lífríki.

Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 40 kg á hvern íbúa á hverju ári eða alls á Íslandi um 13.000 tonn á ári. Þegar við tölum um umbúðaplast er átt við allt umbúðaplast sem tengist lífi einstaklings, heimili, skóli, vinna. Endurvinnsla á umbúðaplasti er aðeins um 11- 13% á Íslandi. Ekki eru til góðar heildartölur fyrir annað plast sem ekki er skilgreint sem umbúðir og er t.d. í raftækjum, leikföngum, húsgögn og slíkt. Svo þær tölur vantar hér.

Áhrif plasts á heilsu, lífríki og umhverfi

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á efnum í plasti og áhrifum þeirra á heilsu og umhverfi okkar. Áhyggjur manna eru aðallega tvíþættar: Í fyrsta lagi þá er ýmsum efnum (þalötum (e. phthalates), bisphenol A (BPA) og eldvarnarefnum (PBDEs og TBBPA) bætt út í plastið til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum. Við notkun geta efnin losnað úr plastinu og haft skaðleg áhrif á heilsu og umhverfi. Þessi efni eru þrávirk og safnast fyrir í lífverum upp fæðukeðjuna. Rannsóknir hafa sýnt að ákveðin efni úr plasti hafi mögulega hormónaraskandi áhrif. Þalöt sem notuð eru í t.d gólf vínil, matarumbúðir og sjúkragögn hafa fundist í mælanlegu magni í börnum og fullorðnum en talið er að þetta efni geti haft áhrif á þroska kynfæra drengja. Efnið bisphenol A (BPA) sem notað er t.d. í drykkjarflöskur og matarumbúðir getur lekið út í matinn. Efnið er hormónaraskandi og hefur verið tengt við hjartasjúkdóma og sykursýki. Um ákveðin þalöt og BPA efni gilda þó strangar takmarkanir og bönn í dag.  Í svokölluðu PVC-plasti er klór sem gerir það að verkum að bæði framleiðsla þess mengar meira en mörg önnur plastframleiðsla og við brennslu getur myndast díoxín. Það vantar þó fleiri rannsóknir, sér í lagi lýðheilsurannsóknir og rannsóknir á því hvort öll þessi efni geti haft samverkandi áhrif á heilsu og umhverfi okkar.

Í öðru lagi þá loða ýmis eiturefni vel við plast. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ýmis eiturefni geta loðað við plastagnir s.s. skordýraeitur, úrgangsefni frá bílum, iðnaði og landbúnaði, þessi eiturefni innbyrða dýrin með plastinu sem fer síðan út í vefi og líffæri dýranna. Rannsókn vísindamanna í Pangea- leiðangrinum sem farinn var frá Bermúda til Íslands í júní 2014, sýndi að sjávardýr og fuglar ruglast oft á þessum plastögnum og mat, sem sást á bitförum á plasti og magainnihaldi dýra. Einnig voru vísbendingar um að tenging sé á milli þess hve mengaðir fiskarnir eru og magni plastrusls í hafinu. Vegna eiginleika plasts til að fljóta geta eiturefni sem festast við plastið á einum stað borist víða vegu og mengað staði og dýr á fjarlægum stöðum. Líkur eru á að eiturefni sem loða við plast geti borist hærra og hærra upp fæðukeðjuna og að endingu til okkar. 

Plastrusl í hafi getur einnig haft verulegan kostnað í för með sér fyrir útgerðir þegar það festist í veiðarfærum, skrúfum o.s.frv. Til að mynda er talið að minnsta kosti 8 milljónir tonna af plasti endi í hafinu. Til Hornstranda berst mikið af rekavið frá hafi en í dag rekur þar einnig á fjörur gríðarmikið magn af plastrusli. Þar fer fram árlegt hreinsunarátak sem margir aðilar koma að til að hreinsa rusl úr fjörum í friðlandinu. Varðskipið Ægir flutti til að mynda um 46 rúmmetra af rusli til hafnar á Ísafirði sumarið 2015. Sambærileg hreinsun er nú hafin á ströndum Rauðasands þar sem sjálfboðaliðar og stofnanir taka til höndum. Einnig hafa samtökin Blái herinn staðið lengi fyrir hreinsunum við strandlengjuna og í maí 2017 hleypti Landvernd ásamt fleirum af stað samnorrænu verkefni sem kallast Hreinsum Ísland.

Það er ekki gott til þess að vita að í íslenskri náttúru sem við viljum kalla ósnortna, séu fleiri tonn af rusli bæði frá Íslendingum og rusl sem borist hefur hingað um óravegu með hafstraumum. Ruslið hefur ekki aðeins slæm áhrif á lífríkið í náttúrunni heldur einnig á ímynd Íslands.

Af hverju skiptir þetta mig máli?

 • Af því plast berst í höf eða vötn, veldur skaða á lífríki og getur drepið dýr. Dýr festast í plastrusli og hljóta af því ljót sár eða deyja vegna þess að þau geta ekki náð í mat. Dýrin geta líka innbyrt litlar plastagnir sem þau fyrir mistök telja vera mat. Þessar agnir geta stíflað meltingaveg dýra og valdið síðan kvalafullum dauðdaga. Plastið getur einnig safnast fyrir í dýrum og borist upp fæðukeðjuna og þar með endað í okkar líkama.
 • Plast er að stórum hluta gert úr óendurnýjanlegum auðlindum.
 • Plast getur verið erfitt að endurvinna
 • Í plasti eru stundum efni eins og þalöt, BPA, brómeruð eldvarnarefni og fleiri sem geta safnast fyrir í náttúrunni og geta hafa slæm áhrif á heilsuna.
 • Plast brotnar ekki niður heldur verður að minni og minni ögnum sem veltast um í sjó og vatni eða safnast fyrir í seti og jarðvegi.
 • Plast í sjó, ám og vatni getur virkað sem flutningstæki fyrir dýr og plöntur milli staða sem geta verið ágengar framandi lífverur á nýja staðnum og valdið þar miklum umhverfisáhrifum og breytingum á lífríki.

Hvað get ég gert?

Eins og áður sagði er plast til margs nýtilegs og er okkur mjög mikilvægt, en við erum að nota alltof mikið af því og við erum ekki að endurvinna eða endurnýta nægilega mikið af því. Þess vegna þurfum við að breyta hegðun okkar sem fyrst;

Nokkur góð ráð

 • Hætta notkun á einnota plasti s.s. poka, borðbúnað, umbúðir, rör, kaffimál og fleira.
 • Nota fjölnota matvælaumbúðir t.d. gler, plastbox, úr býflugnavaxi og umbúðir úr náttúrulegum efnum. Taka með okkur ferðamál fyrir drykki, þannig forðumst við plastlok og plaströr
 • Velja umbúðalausar vörur þar sem það er hægt, s.s. grænmeti í lausu eða þurrvörur sem hægt er að hella beint í eigið ílát. Taka með eigin ílát í kjöt- og fiskborð í búðinni. 
 • Flokka allt sem við getum, þar með minnkar þörf á einnota ruslapokum.
 • Velja hreinlætisvörur sem innihalda ekki t.d. polyethylene efni sem er plast og í tilvikum hreinlætisvara er það kallað örplast sem skolast beint út í sjó þegar við notum það.
 • Búa til eigið umhverfisvænt hreingerningarefni og geyma í glerflöskum eða brúsum sem við getum notað aftur og aftur
 • Kaupa minna af plastdóti, velja t.d. frekar heimilisbúnað og leikföng úr við eða öðrum efnum.