Losun Íslands

Árlega skilar Umhverfisstofnun Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report - NIR) til Evrópusambandsins og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (United Nation Framework Convention on Climate Cange – UNFCCC) í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Losunarbókhald Íslands með gróðurhúsalofttegundir er bókhald um bæði losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti og er unnið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Losuninni er skipt niður í flokka eftir því hver uppspretta losunarinnar er: orka (jarðeldsneytisbruni og jarðvarmafyrirtæki); iðnaðarferlar og efnanotkun (málmframleiðsla, notkun ýmissa efna eins og leysiefna, kælimiðla og flugelda), landbúnaður (húsdýr og áburðarnotkun), úrgangur (urðun úrgangs, meðhöndlun skólps og jarðgerð) og landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (Landuse, landuse change and forestry – LULUCF). Losun frá LULUCF fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Binding kolefnis úr andrúmslofti sem á sér stað t.d. við skógrækt er talin fram undir flokknum LULUCF og getur Ísland talið fram ákveðna bindingu frá LULUCF að einhverju leyti á móti losun frá öðrum geirum, en það er að mjög takmörkuðu leyti. Losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum er metin og kemur fram í losunarbókhaldinu, en er ekki hluti af losun sem telur gagnvart ESB og UNFCCC.

Útdrátt á íslensku úr nýjustu Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda er hægt að finna hér.

Árið 2017 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda 4.755 kílótonn af CO2 ígíldum (án losunar frá LULUCF), sem er 2,5% aukning í losun frá árinu 2016 og 32,1% aukning frá árinu 1990. Mest var losunin árið 2008 eða 5.241 kílótonn af CO2-íg.

Þegar horft er á heildarlosun árið 2017 (án LULUCF, alþjóðaflugs og alþjóðasiglinga), má sjá að mest losun kemur frá iðnaðarferlum, næstmest frá orku, svo landbúnaði og minnst losun frá úrgangi. Frá árinu 1990 til 2017 hefur hlutfall losunar frá iðnaðarferlum aukist úr 27% til 43%, hlutfall losunar frá orku hefur minnkað úr 52% í 40% á sama tímabili. Nánari upplýsingar um losun frá hverjum flokki má sjá undir síðunni „Losun eftir flokkum“.

.

 

Í losunarbókhaldinu er losun gróðurhúsalofttegunda er gefin upp í CO2-íg., en er einnig gerð grein fyrir því hversu mikil losun er af hverri gróðurhúsalofttegund. Gróðurhúsalofttegundirnar sem gefnar eru upp í bókhaldinu eru CO2, CH4, N2O, PFC, HFC, SF6 og NF3.

Gróðurhúsalofttegundirnar hafa mismunandi áhrif á hitastig í andrúmsloftinu. Þegar heildarútstreymi gróðurhúsalofttegundar (GHL) er metið er hverri lofttegund gefinn tiltekinn stuðull sem miðast við þessi ólíku áhrif. Þessi stuðull kallast hlýnunarmáttur og ræðst annars vegar af hlutfallslegum samanburði á áhrifum hennar á hitastig jarðar og hins vegar af áhrifum CO2 á tilteknu tímabili. Magn GHL er því gefið upp í CO2-ígildum. Nánar um gróðurhúsalofttegundirnar má lesa hér.

Hlýnunarmáttur gróðurhúsalofttegunda

 

Gróðurhúsalofttegund

Efnaformúla

Hlýnunarmáttur (GWP)

Koldíoxíð

CO2

1

Metan

CH4

25

Glaðloft

N2O

298

Brennisteinshexaflúoríð

SF6

23.900

 

Flúorkolefni

PFC

 

PFC 14

CF4

7.900

PFC 116

C2F6

12.200

PFC 218

C3F8

8.830

 

Vetnisflúorkolefni

HFC

 

HFC-23

CHF3

14.800

HFC-32

CH2F2

675

HFC-125

C2HF5

3.500

HFC-134a

C2H2F4 (CH2FCF3)

1.430

HFC-143a

C2H3F3 (CF3CH3)

4.470

HFC-152a

C2H4F2 (CH3CHF2)

124

HFC-227ea

C3HF7

3.220