Losun Íslands

Öll gögn sem koma fram á þessari síðu má sækja hérna.

Árlega skilar Umhverfisstofnun Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report - NIR) til Evrópusambandsins og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (United Nation Framework Convention on Climate Cange – UNFCCC) í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Losunarbókhald Íslands með gróðurhúsalofttegundir er bókhald um bæði losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti og er unnið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Losuninni er skipt niður í flokka eftir því hver uppspretta losunarinnar er: orka (jarðeldsneytisbruni og jarðvarmafyrirtæki); iðnaðarferlar og efnanotkun (málmframleiðsla, notkun ýmissa efna eins og leysiefna, kælimiðla og flugelda), landbúnaður (húsdýr og áburðarnotkun), úrgangur (urðun úrgangs, meðhöndlun skólps og jarðgerð) og landnotkun og skógrækt (votlendi, graslendi, skóglendi og fl.).

Losun frá landnotkun fellur eins og er ekki undir alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Binding kolefnis úr andrúmslofti sem á sér stað t.d. við skógrækt er talin fram undir flokknum landnotkun og getur Ísland talið fram bindingu að einhverju leyti á móti losun frá öðrum geirum, en það er að mjög takmörkuðu leyti. Losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum er ekki hluti af losun sem telur samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

Útdrátt á íslensku úr nýjustu Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda er hægt að finna hér.

Losun frá hverjum flokki fyrir sig má sjá hér.

 

Í losunarbókhaldinu er losun gróðurhúsalofttegunda gefin upp í CO2-ígildum, en er einnig gerð grein fyrir því hversu mikil losun er af hverri gróðurhúsalofttegund. Gróðurhúsalofttegundirnar sem gefnar eru upp í bókhaldinu eru CO2, CH4, N2O, PFC, HFC, SF6 og NF3. Nánar um gróðurhúsalofttegundirnar má lesa hér.