Öll gögn sem koma fram á þessari síðu má sækja hér.
Losunarbókhald Íslands með gróðurhúsalofttegundir er bókhald um bæði losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti og er unnið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
Losuninni er skipt í flokka eftir því hver uppspretta losunarinnar er.
Árlega skilar Umhverfisstofnun Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report - NIR) til Evrópusambandsins og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (United Nation Framework Convention on Climate Cange – UNFCCC) í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Útdrátt á íslensku úr nýjustu Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda er unnt að finna hér.
Losun frá LULUCF fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum eins og er. Losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum er metin og kemur fram í losunarbókhaldinu en er ekki hluti af losun sem telur gagnvart skuldbindingum Íslands.
Hér fyrir neðan er umfjöllun um heildarlosun Íslands sem inniheldur losun frá öllum uppsprettum sem taldar voru upp hér að ofan, þar með talið losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir ETS kerfið.
Losun Íslands var 4.722 kt CO2-íg. árið 2019 (með ETS, án LULUCF, án alþjóðaflugs/alþjóðasiglinga). Hún hefur aukist frá 1990 en dregist saman frá 2018 til 2019. Þessi mikla aukning frá árinu 1990 er aðallega tilkomin vegna aukningar í málmframleiðslu á Íslandi, auk þess sem losun frá úrgangi hefur aukist vegna losunar frá urðun.
Mynd 1: Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá 1990, (án LULUCF) (kt CO2-ígildi)
Þegar landnotkun og skógrækt eru meðtalin var heildarlosun Íslands 13.794 kt CO2-íg. árið 2019 (án alþjóðaflugs/alþjóðasiglinga). Hún jókst um 7% á milli 1990 og 2019 og dróst saman um 1,0% frá 2018 til 2019. Mynd 2 sýnir sögulega losun eftir geirum með LULUCF.
Mynd 2: Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi með LULUCF frá 1990 (kt CO2-ígildi)
Orka (jarðeldsneytisbruni og jarðvarmavirkjanir) er nú uppspretta um þriðjungs losunar Íslands (án LULUCF, alþjóðaflugs og -siglinga). Losun frá orkugeiranum hefur aukist lítillega síðan 1990. Aðalgróðurhúsalofttegundin sem losnar frá orkugeiranum er CO2 sem hefur verið 97-98% af losun geirans síðan 1990. Mesta aukningin hefur orðið í losun frá vegasamgöngum en einnig frá jarðvarmavirkjunum. Losun frá fiskiskipum, strandsiglingum og innanlandsflugi hefur hins vegar dregist talsvert saman;
Mynd 3: Losun frá orkugeiranum frá 1990 (kt CO2-ígildi).
Geirinn iðnaðarferlar og efnanotkun er nú uppspretta tæplega helmings af losun Íslands (án LULUCF, alþjóðaflugs og -siglinga). Öll losun á CO2 og perflúorkolvetni (PFC) frá ál- og málmblendiframleiðslu (stóriðja) fellur undir viðskiptakerfi ESB (ETS), og telst þ.a.l. ekki sem losun á beinni ábyrgð stjórnvalda. Sú losun er samt sem áður talin fram í losunarbókhaldinu og því innihalda tölurnar hér á eftir losun frá stóriðju.
Losunin í geiranum hefur meira en tvöfaldast síðan 1990 og er það aðallega vegna aukningar í málmiðnaði og notkun F-gasa til kælimiðlunar;
Mynd 4: Losun frá iðnaðarferlum og efnanotkun frá 1990 (kt CO2-ígildi).
Landbúnaður var uppspretta 13% af losun Íslands árið 2019 (án LULUCF). Losunin hefur dregist lítillega saman frá 1990. Gróðurhúsalofttegundirnar frá landbúnaði eru aðallega metan (CH4 vegna iðragerjunar) og glaðloft (N2O vegna nytjajarðvegs). Stærsti hluti losunar frá landbúnaði kemur frá búfé (iðragerjun og meðhöndlun húsdýraáburðar) og nytjajarðvegi.
Losunin hefur haldist nokkuð stöðug eða á milli 600 og 700 kt CO2-íg. á síðustu áratugum. Helstu breytingar síðan 2005 hafa verið aukin losun frá búfé (aðallega vegna aukins fjölda nautgripa 2013) og frá nytjajarðvegi (vegna breytinga í áburðarnotkun sem og breytinga á fjölda búfjár á beit).
Mynd 5: Losun frá landbúnaði frá 1990 (kt CO2-ígildi).
Meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5% af losun Íslands árið 2019 (án LULUCF). Losunin hefur aukist lítillega frá 1990. Stærsta uppspretta losunar frá úrgangi er losun metans frá urðunarstöðum. Losun frá urðun náði hámarki árið 2006, en hún hefur dregist saman síðan þá, aðallega vegna aukinnar endurvinnslu og söfnun á metani á tveimur urðunarstöðum á Íslandi. Einnig er talsverð losun frá meðhöndlun skólps sem hefur þó haldist nokkuð stöðug síðustu áratugi.
Mynd 6: Losun frá úrgangi frá 1990 (kt CO2-ígildi).
Losun sem kemur frá flokknum landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF) fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum eins og er og er þess vegna ekki talin með í umfjöllunni um losun fyrir ofan. Það er ennþá takmörkuð þekking á þessum losunarflokki og vantar frekari rannsóknir á alþjóðavísu. Þar af leiðandi er óvissa í losunartölunum sem verið er að gera úrbætur á. Ísland getur talið fram ákveðna bindingu frá LULUCF á móti losun frá öðrum geirum en það er að mjög takmörkuðu leyti.
Losun frá LULUCF hefur dregist saman lítillega á tímabilinu 1990-2019. Mest af losun frá LULUCF kemur frá graslendi og næst mest frá votlendi. Binding kolefnis í skóglendi hefur næstum tífaldast síðan 1990.
Nánar má lesa um losun frá LULUCF hér.
Mynd 7: Losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF) frá 1990 (kt CO2-ígildi).
Í losunarbókhaldinu er losun gróðurhúsalofttegunda gefin upp í CO2-ígildum en er einnig gerð grein fyrir því hversu mikil losun er af hverri gróðurhúsalofttegund. Gróðurhúsalofttegundirnar sem gefnar eru upp í bókhaldinu eru koldíoxíð (CO2), metan (CH4), glaðloft (N2O), flúorkolefni (PFC), halogeneruð vetniskolefni (HFC), brennisteinshexaflúoríð (SF6) og niturtríflúoríð (NF3).
Gróðurhúsalofttegundir hafa mismikil áhrif á hitastig í andrúmsloftinu. Þegar heildarútstreymi gróðurhúsalofttegundar er metið er hverri lofttegund gefinn tiltekinn stuðull sem miðast við þessi ólíku áhrif. Þessi stuðull kallast hlýnunarmáttur og ræðst annars vegar af hlutfallslegum samanburði á áhrifum hennar á hitastig jarðar og hins vegar af áhrifum CO2 á tilteknu tímabili. Magnið gróðurhúsalofttegunda er því gefið upp í CO2-ígildum. Nánar um gróðurhúsalofttegundirnar má lesa hér.
Gróðurhúsalofttegund | Efnaformúla | Hlýnunarmáttur (GWP)[1] |
Koldíoxíð | CO2 | 1 |
Metan | CH4 | 25 |
Glaðloft | N2O | 298 |
Brennisteinshexaflúoríð | SF6 | 23.900 |
Flúorkolefni PFC | ||
PFC 14 | CF4 | 7.900 |
PFC 116 | C2F6 | 12.200 |
PFC 218 | C3F8 | 8.830 |
Vetnisflúorkolefni HFC | ||
HFC-23 | CHF3 | 14.800 |
HFC-32 | CH2F2 | 675 |
HFC-125 | C2HF5 | 3.500 |
HFC-134a | C2H2F4 (CH2FCF3) | 1.430 |
HFC-143a | C2H3F3 (CF3CH3) | 4.470 |
HFC-152a | C2H4F2 (CH3CHF2) | 124 |
HFC-227ea | C3HF7 | 3.220 |
[1] skv. IPCC Assessment Report 4 (2007) þegar litið er til 100 ára