Umhverfistofnun - Logo

Flatey á Breiðafirði

Tillaga að endurskoðaðri friðlýsingu Flateyjar á Breiðafirði

Samstarfshópur, skipaður fulltrúum frá Umhverfisstofnun, sveitarfélaginu Reykhólahreppi, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Ríkiseignum, Minjastofnun Íslands, Framfarafélagi Flateyjar og ábúendum í Flatey, hefur unnið tillögu að endurskoðun á friðlýsingu Flateyjar á Breiðafirði. Tillagan er nú lögð fram til kynningar í samræmi við 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Skv. 2. mgr. fyrrnefndrar greinar skal Umhverfisstofnun gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu skal vera þrír mánuðir og skal stofnunin í kjölfarið vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir því hvort að náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.


Austurhluti Flateyjar á Breiðafirði var friðlýstur árið 1975 vegna fuglaverndar. Friðlandið nær yfir austurhluta eyjarinnar ásamt eyjum og hólmum sunnan við Flatey. Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og er þar að finna  fjölskrúðugt fuglalíf sem byggist m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði, miklum fjörum og takmörkuðu aðgengi rándýra að svæðinu

Í Flatey hefur um langt skeið verið náið samspil manns og náttúru þar sem nýting náttúruauðlinda hefur farið fram með sjálfbærni að leiðarljósi. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í að svæðið er búsvæði og varpsvæði mikilvægra fuglastofna á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða, þ.m.t. sjaldgæfra varpfugla á Íslandi og fugla sem eru á válista Alþjóða Náttúruverndarsamtakanna (IUCN).

Í friðlandinu er einstaklega fjölbreytt fuglalíf og þar er varpsvæði þórshana sem er sjaldgæfur fugl á landsvísu og er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í hættu. Einnig verpa þar ábyrgðartegundir Íslendinga, s.s. kría og lundi. Þá er mikið æðarvarp innan marka friðlandsins. Á svæðinu eru miklar leirur með fjölbreyttu lífríki sem eru mikilvægar til fæðuöflunar fyrir margar tegundir fugla. Gróðurfar einkennist af túnum, grasmóum, gulstararmýrum og sjóflæðagróðri. Þar finnst marhálmur sem er sjaldgæfur á landsvísu. Vísindalegt gildi svæðisins er hátt og er fuglalíf vaktað og rannsakað þar reglulega.

   Flatey – tillaga að friðlýsingarskilmálum
   Flatey - kort 
   Flatey - hnitaskrá  

Tillaga að mörkum svæðisins miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti.

Kynning á tillögu að friðlýsingu

Umhverfisstofnun leggur hér með fram tillögu að endurskoðuðum friðlýsingaskilmálum Flateyjar á Breiðafirði ásamt tillögu að endurskoðuðum mörkum svæðisins. Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 7. janúar 2021. Athugasemdum má skila á eyðublaði hér fyrir neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé þess óskað í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

Frekari upplýsingar veitir Freyja Pétursdóttir (freyjap@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000. 

Senda athugasemd/ábendingu

Upplýsingar

Skrár