Goðafoss í Þingeyjarsveit

Tillaga að friðlýsingu Goðafoss í Þingeyjarsveit 


Umhverfisstofnun leggur hér með fram tillögu að friðlýsingu Goðafoss í Þingeyjarsveit sem náttúruvættis í samræmi við ákvæði 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Tillagan er unnin af samstarfshópi sem í áttu sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Þingeyjarsveitar, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, landeigenda Hriflu, Ljósavatns og Rauðár og Minjastofnunar. 

Goðafoss er í foss í Skjálfandafljóti í Bárðardal í Þingeyjarsveit. Hann er einn af vatnsmestu fossum landsins og greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri. Ásýnd fossins er fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Fossinn er 9-17 m hár og um 30 m breiður. Landið við vesturbakka Goðafoss heitir Hrútey og afmarkast hún af Hrúteyjarkvísl sem greinist frá Skjálfandafljóti ofan við Goðafoss en sameinast fljótinu aftur alllangt neðar. 

Þjóðsaga segir að Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði hafi varpað goðalíkneskjum sínum í fossinn í kjölfar þess að honum hafi verið falið það hlutverk að ná lögsáttum milli heiðinna manna og kristinna og hann tekið upp nýjan sið. Af þessu á Goðafoss að hafa dregið nafn sitt. 
Goðafoss er vinsæll ferðamannastaður og þangað kemur fjöldi ferðamanna allan ársins hring. Megin markmiðið með verndun svæðisins er að vernda sérstakar náttúruminjar, breytileika jarðmyndana og fossinn sjálfan, m.a. með því að viðhalda náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn, vegna fegurðar og sérkenna og útivistargildis svæðisins. 

Tillaga að friðlýsingu Goðafoss er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. 

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til og með 9. mars 2020. Ábendingum og athugasemdum má skila inn á formi hér fyrir neðan , með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé þess óskað í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012. 

Frekari upplýsingar um málið veita Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is) og Davíð Örvar Hansson (david.hansson@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000. 

Tillaga að auglýsingu

 

Upplýsingar

Skrár