Goðafoss í Þingeyjarsveit


Umhverfisstofnun hefur lagt til við umhverfis- og auðlindaráðherra að Goðafoss í Skjálfandafljóti í Þingeyjarsveit verði friðlýstur sem náttúruvætti. Goðafoss er einn af vatnsmestu fossum landsins og greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri. Ásýnd fossins er fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Fossinn er 9-17 m hár og um 30 m breiður. Landið við vesturbakka Goðafoss heitir Hrútey og afmarkast hún af Hrúteyjarkvísl sem greinist frá Skjálfandafljóti ofan við Goðafoss en sameinast fljótinu aftur alllangt neðar.  

Þjóðsaga segir að Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði hafi varpað goðalíkneskjum sínum í fossinn i kjölfar þess að honum hafi verið falið það hlutverk að ná lögsáttum milli heiðinna manna og kristinna og hann hafi tekið upp nýjan sið. Af þessu á Goðafoss að hafa dregið nafn sitt.  

Goðafoss er vinsæll ferðamannastaður og þangað kemur fjöldi ferðamanna allan ársins hring. Megin markmið með verndun svæðisins er að vernda sérstakar náttúruminjar, breytileika jarðmyndana og fossinn sjálfan, m.a. með því að viðhalda náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn, vegna fegurðar og sérkenna og útivistargildis svæðisins.  

Samstarfshópur skipaður fulltrúum Umhverfisstofnunar, Þingeyjarsveitar, landeigenda jarðanna Hriflu, Rauðár og Ljósavatns, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Minjastofnunar Íslands vann að undirbúningi að friðlýsingu svæðisins í samræmi við ákvæði laga um náttúruvernd nr. 60/2013.  

Áform um friðlýsingu Goðafoss voru auglýst þann 17. júlí 2019. Alls bárust þrjár athugasemdir við áformin. Umsögn Umhverfisstofnunar um athugasemdirnar og viðbrögð við þeim má finna hér:  

Í kjölfar auglýsingar um áform um friðlýsingu svæðisins vann samstarfshópur tillögu að friðlýsingu svæðisins og mörkum þess. Tillagan var auglýst opinberlega í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Alls bárust athugasemdir frá sjö aðilum. Gerð er grein fyrir athugasemdum og viðbrögum við þeim í greinargerð Umhverfisstofnunar sem er að finna hér:  

Þann 3. apríl 2020 vísaði Umhverfisstofnun máli varðandi friðlýsingu Goðafoss í Þingeyjarsveit sem náttúruvættis til umhverfis- og auðlindaráðherra með vísan til 39. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 þar sem lagt var til að 0,224 km2 svæði yrði friðlýst sem náttúruvætti í samræmi við framlögð gögn: