Lundey í Kollafirði

Áform um friðlýsingu
Umhverfisstofnun, ásamt Reykjavíkurborg og landeiganda, kynnir hér með áform um friðlýsingu Lundeyjar í Kollafirði sem friðland, í samræmi við 49. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda mikilvæga sjófuglabyggð og sérstætt gróðurlendi.Lundey liggur á innanverðum Kollafirði, milli Geldinganess og Brimness á Kjalarnesi. Eyjan er um 400 m löng og 150 m breidd þar sem hún er breiðust. Lægst er hún að austanverðu en hækkar til vesturs og er hún um 14 m.y.s þar sem hún er hæst. Klettabelti stendur í sjó fram og stórgrýtt fjara að neðan. Eyjan er að mestu úr grágrýti, algróin og stórþýfð.Eyjan hefur fyrst og fremst hátt verndargildi vegna stórrar sjófuglabyggðar, einkum lunda, en á eyjunni verpa hátt í 10.000 pör. Samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar Íslands er lundi flokkaður sem tegund í bráðri hættu. Auk þess er svæðið mikilvægt bú- og varpsvæði fleiri mikilvægra fuglategunda s.s. ritu, æður og teistu sem einnig eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands.Í Lundey er að finna sérstætt gróðurlendi en á tveimur stöðum á svæðinu vaxa blettir með gulstör sem blandast við haugarfa. Nálægð eyjarinnar við höfuðborgarsvæðið eykur þá mikilvægi hennar, bæði til fræðslu og náttúruskoðunar ferðamanna.

Tillaga að mörkum svæðisins miðast við hnitsett mörk skv. korti. 

 

Áform um friðlýsinguna eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Reykjavíkurborgar, landeiganda og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að lokum verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.

Friðlýsingin miðar að því að varðveita einkenni og sérstöðu svæðisins. Í auglýsingum um friðlýsingar er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og 
framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.


Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 29. júlí 2020. Athugasemdum má skila á eyðublaði hér fyrir neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frekari upplýsingar veita Aron Geir Eggertsson, aron.geir@ust.is  og Hildur Vésteinsdóttir, Hildurv@umhverfisstofnun.is með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl:
Samráðsáætlun
Hnitaskrá

 

Upplýsingar

Skrár