Rammaáætlun

Umhverfisstofnun hefur hafið undirbúning að friðlýsingu svæða í 2. áfanga rammaáætlunar. Forsaga málsins er sú að þann 14. janúar 2013 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða, svokölluð rammaáætlun. Í þingsályktuninni kemur fram að samkvæmt verndar- og orkunýtingaráætluninni verði tryggt að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið verði tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í verndar- og orkunýtingaráætluninni er lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar.

Í verndar- og orkunýtingaráætluninni eru 21 vatnasvið og háhitasvæði flokkuð í verndarflokk.

 

Umhverfisstofnun er falið það hlutverk að undirbúa friðlýsingu þeirra svæða sem flokkuð eru í verndarflokk samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í 6. gr. laganna er fjallað um verndarflokkinn, en þar kemur fram að í hann falli virkjunarkostir sem ekki er talið rétt að ráðast í og þau landsvæði sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Þar kemur jafnframt fram að stjórnvöldum sé ekki heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkosta eða landsvæða sem flokkuð hafa verið í verndarflokk. Aðrar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar eru ekki heimilar á þessum svæðum að því undanskildu að heimilt er að veita leyfi til yfirborðsrannsókna á þessum svæðum að fengnu samþykki Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Forsendur fyrir afmörkun svæða

Við afmörkun verndarsvæða vegna landsvæða í verndarflokki styðst umhverfis- og auðlindaráðuneytið almennt við aðferðir sem faghópur 1 í 2. áfanga rammaáætlunar notaði til að afmarka svæði, annars vegar vegna vatnsafls- og hins vegar vegna jarðhitavirkjana. Afmörkun svæða vegna vatnsaflsvirkjana er lýst á bls. 48-49  í lokaskýrslu verkefnisstjórnar 2. áfanga og afmörkun svæða vegna jarðhitavirkjana er lýst á bls. 49 í sömu skýrslu.

Afmarkanir einstakra svæða má sjá á síðum einstakra svæða hér að neðan.

 

Málsmeðferð

Við undirbúning að friðlýsingu þeirra landsvæða sem hafa að geyma virkjunarkosti í verndarflokki rammaáætlunar er lögð fram tillaga að friðlýsingarskilmálum þar sem fram kemur að orkuvinnsla sem fellur undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun sé óheimil. Ekki er gert ráð fyrir að friðlýsingarskilmálar taki til annarra atriða eða að landvarsla eða sérstök umsjón sé á svæðunum.

 

Undirbúningur að friðlýsingu svæðanna í verndarflokki rammaáætlunar er unnin í samræmi við þá málsmeðferð sem lýst er í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í henni felst að tillagan er kynnt opinberlega þar sem öllum gefst kostur á að gera athugasemdir við hana. Tillagan er einnig kynnt fyrir sveitarstjórnum, náttúruverndarnefndum og náttúrustofum og öðrum opinberum aðilum eftir því sem ástæða þykir til. Einnig skal senda tillöguna þeim aðilum sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta vegna hennar. Eftir að þriggja mánaða kynningartíma lýkur tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við tillöguna og vísar tillögu að friðlýsingarskilmálum til ráðherra.

 Tillögur að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar í kynningarferli