Svæði í Þjórsárdal


 Samstarfshópur, skipaður fulltrúum frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Umhverfisstofnun, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, forsætisráðuneyti, Minjastofnun Íslands og Skógræktinni, hefur undanfarið unnið að undirbúningi friðlýsingar svæðis í Þjórsárdal á grundvelli náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Samkvæmt 39. gr. sömu laga annast Umhverfisstofnun undirbúning friðlýsingar. Skv. 2. mgr. fyrrnefndrar greinar skal Umhverfisstofnun gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu skal vera þrír mánuðir og skal stofnunin í kjölfarið vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir því hvort að náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.  

 Sú tillaga að friðlýsingarskilmálum sem Umhverfisstofnun kynnir nú byggir á því samtali sem hefur átt sér stað á vettvangi samstarfshóps.  

 Verndargildi svæðisins í Þjórsárdal felst fyrst og fremst í jarðfræðilegri sérstöðu, fágætu, sérstöku og fögru landslagi ásamt sérstökum náttúrufyrirbærum sem þar er að finna, þ.e. Gjánni, Háafossi, Granna og Hjálparfossi, ásamt þykkum gjóskulögum og þyrpingum gervigíga. Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu. Á svæðinu eru einnig mikil tækifæri til útivistar og sjálfbærrar ferðamennsku. Sérstaða svæðisins felst einkum í einstakri náttúru, sérstökum jarðmyndunum og menningarminjum sem vitna til um mannvistir á svæðinu á fyrri tímum, t.a.m. eru rústir bæjarins að Stöng innan svæðisins.

 Þá er að finna í dalnum merka sögu varðandi endurheimt birkiskóga og uppgræðslu vikra sem unnið hefur verið að síðan árið 1938 með það að markmiði að endurheimta birkiskóga til að gera landsvæðið betur í stakk búið til að standast áföll, s.s. vegna öskufalls úr eldgosum.  

 Er undirbúningur friðlýsingar svæðis í Þjórsárdal liður í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um átak í friðlýsingum.


 Umhverfisstofnun leggur hér með fram tillögu að friðlýsingaskilmálum fyrir landslagsverndarsvæði í Þjórsárdal ásamt tillögu að mörkum svæðisins og náttúruvættum þar innan. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til og með 16. september 2019. 

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé óskað eftir í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.  

Ábendingum og athugasemdum má einnig koma á framfæri á netfangið ust@ust.is eða í gegnum þetta form eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frekari upplýsingar veita Ingibjörg M. Bjarnadóttir (ingibjorgb@ust.is) og Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.  

Tillaga að friðlýsingaskilmálum

Tillaga að afmörkun landslagsverndarsvæðis og náttúruvætta:
Svæði í Þjórsárdal
Gjáin
Háifoss - Granni
Hjálparfoss 

Hnitaskrá

Kynning á fyrirhugaðri friðlýsingu í Árnesi 20. júní 2019