Umhverfistofnun - Logo

Auglýsing um áform

Áform um friðlýsingu á sunnanverðum Vestfjörðum

Umhverfisstofnun, í samstarfi við samstarfshóp sem vinnur að undirbúningi friðlýsingar, kynnir hér með áformum stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum, skv. 47. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.  
Svæðið nær m.a. til Dynjanda, Geirþjófsfjarðar, Vatnsfjarðar og Hrafnseyrar.

Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita einstakt svæði fyrir komandi kynslóðir. Með friðlýsingunni verður til heilstætt svæði sem hefur að geyma ómetanlegar náttúru- og menningarminjar og sögu.

Dynjandi var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1981. Hann er meðal hæstu fossa landsins, nær 100 metra hár og af mörgum talinn ein fegursta náttúruperla Íslands.
Vatnsfjörður var friðlýstur árið 1975 sem friðland og þar má finna mikla gróðursæld, fjölbreytt dýralíf, jarðhita ásamt menningarminjum.
Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti 1975 til að vernda einstakar steingerðar leifar gróðurs sem klæddu landið á teríer-tímabilinu.
Geirþjófsfjörður er eyðifjörður á náttúruminjaskrá, þar ríkir mikil gróðursæld og kyrrð. Fjörðurinn er sögusvið Gíslasögu Súrssonar og þar má finna tóftir og rústir tengdri sögunni.
Á Hrafnseyri í Arnafirði fæddist og ólst upp Jón Sigurðsson, frelsishetja íslensku þjóðarinnar. Til að minnast hans var fæðingardagur hans 17. júní valin sem þjóðhátíðardagur Íslendinga. Á Hrafnseyri er fræðslusetur tileinkað ævi og minningu hans.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga, en gert er ráð fyrir að svæði sem eru ekki á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir um áformin og skilar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Jafnframt mun skipaður samstarfshópur um undirbúning friðlýsingarinnar vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Að því loknu mun stofnunin auglýsa fyrirhugaða friðlýsingu í þrjá mánuði þar sem öllum gefst kostur á að gera athugasemdir við framlagða tillögu.

Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða á um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að varðveita verndargildi svæðisins og þær takmarkanir sem á svæðinu eiga að gilda. Jafnframt er heimilt kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi svæðisins. Setja má mismunandi reglur fyrir einstaka hluta svæðis. 

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 2. janúar 2021. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Samhliða auglýsingu um áform um friðlýsingu er óskað eftir tillögum að nafni fyrir fyrirhugaðan þjóðgarð.

Þjóðgarður - kort

Þjóðgarður - hnitaskrá

Frekari upplýsingar veitir Freyja Pétursdóttir (freyjap@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.