Hvítabirnir

Nær allar hættur sem steðja að hvítabirninum eru af mannavöldum. Ef hafísbreiður minnka verulega vegna hlýnunar andrúmsloftsins getur það orðið alvarleg ógn við tegundina. Aðrar hættur stafa af eiturmengun, hugsanlegum olíuslysum, aukinni skipaumferð um hafsvæði Norðurheimskautsins ásamt veiðum og öðru ónæði. Tvö Norðurlönd eru meðal þeirra landa sem eiga land að heimkynnum hvítabjarnarins á Norðurheimskautssvæðum og bera því mikla ábyrgð á verndun tegundarinnar.

Hvítabjörninn er háður hafísnum en þar veiðir hann seli og kópa sér til matar. Orkurík fæðan gerir birninum kleift að byggja upp fituforða sem er honum lífsnauðsynlegur til að lifa af íslaus tímabil þegar lítið er um æti. Fituforðinn sem birnurnar safna á sig gerir þeim einnig mögulegt að lifa af föstutímabil meðan þær leggjast í híði og annast húna sína.

Vegna hlýnunar myndast hafísinn seinna en áður, hann þekur minna svæði og ísröndin hopar fyrr. Sá tími sem hvítabirnir geta dvalið á helstu veiðisvæðum sínum við ísröndina hefur því styst til muna. Af þessum ástæðum verður hvítabjörninn að eyða lengri tíma á landi en áður við lélegri veiðiskilyrði.

Á íslausum tímabilum étur hvítabjörninn m.a. fugla, egg og fisk. Á syðstu búsvæðum hvítabjarnarins hefur hann átt við ætisskort að stríða sökum styttri ístíma. Við slíkar aðstæður leitar hvítabjörninn oftar til mannabyggða og stundum sést til hans í ætisleit á sorphaugum.

Upplýsingablað um Hvítabirni