Gönguleiðir

Margar og fjölbreyttar gönguleiðir eru í og við Snæfellsjökulsþjóðgarð og ættu allir að geta fundið leið við sitt hæfi. Sumar þeirra eru stikaðar eða merktar og flestar er auðvelt að rata. Hægt er að tengja gönguleiðirnar saman á ýmsan hátt. 

Vert er að hafa í huga að lítið er um drykkjarvatn í þjóðgarðinum og því nauðsynlegt að hafa með sér eitthvað að drekka þegar lagt er í göngu. 

Þjóðgarðurinn er að miklu leyti þakin yfirborðshraunum. Ganga um þau getur verið varasöm og gjótur leynst undir mosagróðri. Best er að halda sig á merktum gönguleiðum en þær má finna í bæklingum þjóðgarðsins. Bæði í almennum bæklingi og gönguleiðabæklingi. Þeir sem hyggja á lengri gönguferðir í þjóðgarðinum og göngur á Snæfellsjökul eru hvattir til að láta aðstandendur sína eða starfsmenn þjóðgarðsins vita af ferðum sínum. 

Gönguleiðum er lýst nánar í gönguleiðabæklingi sem nálgast má hjá þjóðgarðinum eða hér fyrir neðan.

Náttúruskoðun

Fuglalíf

Fuglaskoðun er skemmtan sem öll fjölskyldan getur notið saman. Til að njóta fuglaskoðunarinnar sem best er gott að hafa meðferðis sjónauka og fuglabók. Gætum varúðar við fuglabjörgin, göngum ekki of nærri klettabrúnum og vörumst að valda fuglunum of miklu ónæði. Snögg viðbrögð og köll fæla fugla en rólegar hreyfingar og lágvært tal gerir það ekki.

Þúfubjarg og Saxhólsbjarg eru aðgengileg fuglabjörg. Sjá má stöku lunda í björgunum og teistur verpa helst við Malarrif. Í Beruvík eru fallegar tjarnir sem ýmsar tegundir fugla heimsækja. Stór kríuvörp eru rétt utan þjóðgarðsins, við Arnarstapa og Rif en þar er eitt stærsta kríuvarp Evrópu.

Önnur dýr

Á gönguferð eftir ströndinni má búast við að sjá sel, bæði útsel og landsel. Ekki eru þó stór látur innan þjóðgarðsins. Hvalir eru algengir við Snæfellsnes, t.d. háhyrningur, hrefna og hnísa. Dýpra undan halda stórhveli sig. Stundum má sjá hvalatorfur út af Öndverðarnesi. Ekki er óalgengt að sjá ref í hrauninu og meðfram ströndinni. Minkur heldur sig í fjörunni þar sem æti er helst að hafa.

Í pollum og gjótum á ströndinni er oft líflegt, einkum þegar sjór er nýfallinn frá. Kuðungar, marflær, krabbar, sprettfiskar og fleiri smádýr vekja þá áhuga athugulla gesta. Auðvelt er að gleyma sér við að fylgjast með öldurótinu eða við að skoða fjölbreytt lífríki fjörunnar. Ef steini er snúið við er nauðsynlegt að færa hann aftur í fyrra horf til þess að líf undir honum spillist ekki. Munum að þang og kuðungar á klöppum og steinum eru lifandi.

Öryggi ferðamanna

Góður undirbúningur er mikilvægur í öllum ferðalögum. Slysavarnarfélagið Landsbjörg heldur úti vefsíðu með góðum ráðum fyrir slysalaust ferðalag. GSM símasamband er stopult í sunnanverðum þjóðgarðinum, á Jökulhálsi og í hlíðum Snæfellsjökuls. Eigið ánægjulega dvöl í þjóðgarðinum og komið heil heim!

Ströndin

Þjóðgarðurinn liggur að sjó og er strandlengja hans fjölbreytt. Varasamt er að fara út á brún kletta þar sem bergið getur verið laust í sér og molnað. Á fallegum ströndum er oft freistandi að vaða og synda á góðviðrisdögum en slíkt getur verið mjög varasamt. Við strendur þjóðgarðsins eru mjög sterkir hafstraumar og víða aðdjúpt.

Snæfellsjökull

Þeim sem hyggja á göngu á Snæfellsjökul er eindregið ráðlagt að kynna sér ástand jökulsins áður hjá staðkunnugum. Í jöklum myndast jökulsprungur og svelgir sem geta orðið tugir metra að dýpt. Skapar það mikla hættu fyrir þá sem á jökla fara. Á snjólausum jökli má auðveldlega greina hættuna á yfirborði jökulsins en að sama skapi eru sprungur og svelgir illgreinanleg þegar þau eru hulin snjó. Snjóhulan er oft aðeins þunnt lag sem ber lítinn eða engan þunga og skapar því sérstaklega varhugaverðar aðstæður. 

Snögg veðrabrigði á Íslandi koma mönnum oft í opna skjöldu og getur það haft afdrifaríkar afleiðingar, sér í lagi á jöklum og hálendum svæðum líkt og Jökulhálsi.

Umgengni

Öllum er frjálst að ganga um land þjóðgarðsins og friðlandanna en ætlast er til að merktum gönguleiðum sé fylgt þar sem þær eru fyrir hendi. Akstur er leyfður á akvegum og merktum slóðum og hjólreiðar einnig. Hestaumferð er heimil á merktum reiðleiðum. Þeir sem hyggjast fara með hesta um þjóðgarðinn eru beðnir um að hafa áður samband við starfsmenn hans.

Göngum vel um náttúruna og vinnum ekki spjöll, svo sem með því að rífa upp gróður, trufla dýralíf eða raska jarðmyndunum og fornminjum. Kveikjum ekki eld á víðavangi og tökum allt sorp með okkur. Höfum hunda og önnur gæludýr í bandi og þrífum eftir þau úrgang.

Tilgangur friðlýsingar er að vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar. Með friðun er tekið frá land fyrir eðlilega framvindu náttúrunnar, útivist og upplifun manna á náttúrunni. Aukin þekking og skilningur almennings og virk þátttaka í náttúruvernd eru grundvallaratriði til að ná fram þessum markmiðum. Virðum reglur og rétt fólks til að njóta náttúrunnar.

Eigið ánægjulega dvöl í þjóðgarðinum og komið heil heim. Skiljum ekkert eftir og tökum aðeins myndir og minningar!