Stjórnunar- og verndaráætlun

Almennt

Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun viðkomandi svæðis og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Auk þess að marka stefnu til framtíðar er áætlunin stjórntæki sem tekur m. a.  á landvörslu, skipulagi, vernd og stjórnun. Verkefni sem vinna þarf að til að markmiðin náist eru skilgreind í aðgerðaáætlun sem er fylgiskjal stjórnunar- og verndaráætlunar. Í vinnu við verndaráætlun er gerð grein fyrir þeim verðmætum sem viðkomandi svæði býr yfir og hvert verndargildi þess er. Með verndaráætlun er horft til framtíðar og hugsað til þess hvernig við viljum að ástand svæðisins verði í framtíðinni og til hvaða ráðstafana þarf að grípa þannig að sú sýn raungerist. Þeirri spurningu er velt upp hvernig verndun verði best tryggð um leið og svæðið er gert aðgengilegt fyrir gesti. 

Stjórnunar- og verndaráætlun Snæfellsjökulsþjóðgarðs
Meginmarkmið með gerð áætlunarinnar er að tryggja áfram vernd náttúru- og menningarminja þjóðgarðsins um leið og fólki er gert kleift að njóta hans án þess að verndargildi svæðisins rýrni. Lögð er áhersla á hvernig viðhalda megi verndargildinu í sátt við heimamenn og aðra hagaðila. 
Árið 2010 var fyrsta áætlun þjóðgarðsins staðfest. Vinna við núgildandi áætlun hófst vorið 2020 og er unnin af samstarfshópi sem skipaður var vegna gerðar hennar og er sett í samræmi við 81. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Áætluninni er ætlað að vera stefnumótandi skjal þar sem framtíðarsýn svæðisins er mótuð og er hún hugsuð sem stjórntæki til að ná fram þeirri sýn.
Áætlunin var unnin af starfsmönnum Umhverfisstofnunar, þar með talið þjóðgarðsins, og samstarfshópi sem skipaður var fulltrúum Náttúrustofu Vesturlands, Minjastofnunar Íslands, Snæfellsbæjar og Ferðamálasamtaka Snæfellsness. Kallað var eftir áliti og hugmyndum ólíkra hópa hagaðila. Á þá fundi voru boðaðir fulltrúar hestamanna, sauðfjáreigenda, sveitarstjórna og stofnana, ferðaþjónustu, þyrluþjónustu, hjólreiðafólks, viðbragðsaðila og þeirra sem fara á jökul á vélknúnum tækjum. Auk framangreindra funda var haldinn opinn íbúafundur og auk þess sérstakir fundir með grunn- og framhaldsskólanemendum á svæðinu. Stjórnunar- og verndaráætlunin var loks send í lögbundið kynningarferli. 

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð var undirrituð og staðfest af ráðherra þann 24. mars 2023.