Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

LOKUN VEGNA COVID-19

Frá og með mánudeginum 23. mars 2020 lokar Gestastofan á Malarrifi vegna COVID-19 um óákveðinn tíma.
Útisalernin verða opin áfram og eru þrifin daglega.

Neyðarnúmer:                       112
Skrifstofa þjóðgarðsins:        436-6860
Þjóðgarðurinn, bakvakt:        822-4061
Bílaaðstoð:                               895-4558


 

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er staðsettur á utanverðu Snæfellsnesi á Vesturlandi. Hann er um 170 km² að stærð og eini þjóðgarður landsins sem nær að sjó. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er opinn allt árið. Gestastofa þjóðgarðsins er við Malarrif. Í sumar er gestastofan opin alla daga frá kl. 10-17 fram í október þegar vetraropnun tekur við. Þar er upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins og áhugaverð náttúru- og verminjasýning. Reynt er að höfða til allra aldurshópa.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull
Klettsbúð 7 360 Hellissandur
Sími: 436 6860
Fax: 436 6861
Netfang: snaefellsjokull@umhverfisstofnun.is
Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður
Linda Björk Hallgrímsdóttir, sérfræðingur

Gestastofa

Gestastofa þjóðgarðsins er við Malarrif. Gestastofan var fyrst opnuð árið 2004 á Hellnum í gömlum fjárhúsum. Gestastofan var svo flutt yfir í fyrrverandi fjárhús á Malarrifi árið 2016. Þema sýningarinnar í gestastofunni er vermaðurinn og náttúruan og er leitast við að sýna hvernig vermenn nýttu náttúruna til að sjá sér farboða. Höfðað er til allra skilningarvitanna og eru gestir hvattir til að smakka, lykta og reyna. Hægt er að finna eitthvað skemmtilegt fyrir fólk á öllum aldri í gestastofunni. Þar má einnig nálgast upplýsingar og fræðslu um svæðið undir Jökli hjá landvörðum sem þar starfa.

 

Vatnshellir

Vatnshellir er hraunhellir en þeir myndast á meðan hraunið rennur og það er enn að storkna og kólna. Hraunið og hellirinn eru talin vera um 5-8000 ára gömul. Heildarlengd Vatnshellis er um 200 m og þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Hellirinn hefur verið gerður aðgengilegur með hringstigum en umferð um hann er aðeins leyfð með leiðsögn.

 

Ferðir með leiðsögn í Vatnshelli

Boðið er upp á 45 mínútna ferðir með leiðsögn allt árið, á sumrin frá kl. 10:00 til 18:00 en á veturna eru fimm ferðir á dag, kl 11.00, 12.00, 13.00, 14:00 og 15:00. Gestir fá hjálma og ljós hjá leiðsögumönnum en nauðsynlegt er að vera vel klæddur, í góðum skóm og með hanska en kalt er í hellinum.

Vatnshellir er staðsettur í suðurhlíðum Purkhólahrauns, upp af Malarrifi, ofan við Útnesveg (574). Bílastæði er rétt við aðalveginn. Finna má kort af staðsetningu hellisins á vef Summit Adventure Guides sem sjá um leiðsögn ferða ofan í hellinn.

Frekari upplýsingar má nálgast í síma 665-2818, vatnshellir@vatnshellir.is og á www.summitguides.is

 

Vegvísir

Frá Reykjavík

Akið þjóðveg 1 í Borgarnes. Akið aðra útkeyrslu úr hringtorginu norðan við Borgarnes inn á þjóðveg 54 sem liggur til Snæfellsness. Við Vegamót er hægt að velja veg 56 yfir Vatnaleið og við gatnamót vegar 54 skiptist leiðin annars vegar í átt að Stykkishólmi og hins vegar til vesturs eftir norðanverðu Snæfellsnesi og í þjóðgarðinn. Við Vegamót er einnig hægt að halda beint áfram til vesturs eftir sunnanverðu Snæfellsnesi og í þjóðgarðinn. Vegurinn er lagður bundnu slitlagi 

Á milli Búða og Fróðárhrepps liggur vegur um Fróðárheiði. Á sumrin er vegurinn um Jökulháls opinn en hann liggur á milli Arnarstapa og Ólafsvíkur. Hluti Fróðárheiðar og allur Jökulháls eru malarvegir. 

Frá Akureyri

Akið þjóðveg 1 að botni Hrútafjarðar. Akið þá þjóðveg 61 í norðurátt uns komið er að vegi yfir Laxárdalsheiði. Akið þá þjóðveg 59 yfir í Dalina og þaðan þjóðveg 60 að vegamótum Skógarstrandarvegar. Akið þá inn á þjóðveg 54 og leiðin liggur á Snæfellsnes. Vegirnir um Laxárdalsheiði og Skógarströnd eru malarvegir. Vegur 574, Útnesvegur, liggur um þjóðgarðinn og að friðlöndunum á Búðum, Arnarstapa og Hellnum. Vegurinn er lagður bundnu slitlagi.

 

Umgengni

Öllum er frjálst að ganga um land þjóðgarðsins og friðlandanna en ætlast er til að merktum gönguleiðum sé fylgt þar sem þær eru fyrir hendi. Akstur er leyfður á akvegum og merktum slóðum og hjólreiðar einnig. Hestaumferð er heimil á merktum reiðleiðum. Þeir sem hyggjast fara með hesta um þjóðgarðinn eru beðnir um að hafa áður samband við starfsmenn hans.

Göngum vel um náttúruna og vinnum ekki spjöll, svo sem með því að rífa upp gróður, trufla dýralíf eða raska jarðmyndunum og fornminjum. Kveikjum ekki eld á víðavangi og tökum allt sorp með okkur. Höfum hunda og önnur gæludýr í bandi og þrífum eftir þau úrgang.

Tilgangur friðlýsingar er að vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar. Með friðun er tekið frá land fyrir eðlilega framvindu náttúrunnar, útivist og upplifun manna á náttúrunni. Aukin þekking og skilningur almennings og virk þátttaka í náttúruvernd eru grundvallaratriði til að ná fram þessum markmiðum. Virðum reglur og rétt fólks til að njóta náttúrunnar.

Skiljum ekkert eftir og tökum aðeins myndir og minningar!