Umhverfistofnun - Logo

Ströndin við Stapa og Hellna

14. desember 2020


Undanfarið hefur samstarfshópur unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið Ströndin við Stapa og Hellna.

Drög að áætluninni eru hér með lögð fram til kynningar.

Ströndin við Stapa og Hellna er á sunnanverðu Snæfellsnesi, 15-100 metra breitt belti sem liggur eftir ströndinni frá Brúnkolluholti í vestri og að Grísafossá í austri. Sker úti fyrir ströndinni tillheyra friðlandinu. Ströndin er sjónarspil með töngum og gjám sorfnum af hafinu. Ríkt fuglalíf er í sjávarhömrum. Svæðið var friðlýst sem friðland árið 1979 og er rúmlega 1,3km2 að stærð.

Verndargildi friðlandsins felst í jarðfræðilegum fyrirbærum, landmótun og fuglalífi. Svæðið er einnig ríkt af sögu, sögnum og menningarminjum. Leiðarljós áætlunarinnar er að manneskjan upplifi áfram þá sterku tilfinningu sem ganga með ströndinni veitir, að hún finni þann kraft sem náttúran gefur og að auðlindir náttúrunnar séu áfram nýttar á sjálfbæran hátt.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ströndina við Stapa og Hellna er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við landeigendur, sveitarfélag og hagsmunaaðila og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun friðlandsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til 10 ára, ásamt hlaupandi aðgerðaáætlun til þriggja ára.

Hér að neðan má sjá stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið auk aðgerðaáætlunar til þriggja ára og auglýsingar nr. 284/1988.

Frestur til að skila inn athugasemdum og ábendingum fyrir friðlandið er til og með 28. janúar 2021.

Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með því að senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Nánari upplýsingar veita Guðbjörg Gunnarsdóttir, gudbjorg@umhverfisstofnun.is  og Jón Björnsson, jonb@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl:
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ströndina við Stapa og Hellna
Aðgerðaáætlun til þriggja ára
Auglýsing B nr. 284-1988

Senda ábendingu

Upplýsingar

Skrár