Umhverfistofnun - Logo

Vegir og slóðar

Það er ekki alltaf ljóst hvað eru vegir og slóðar. Til að leysa þann vanda skipuðu Umhverfisráðuneytið og Samgönguráðuneytið haustið 2004 starfshóp sem átti að gera tillögur um hvaða vegir og slóðar í óbyggðum skuli teljast vegir með hliðsjón af afdráttarlausu ákvæði um bann við akstri utan vega í náttúruverndarlögum.

Hópinn skipa þau Árni Bragason, forstöðumaður náttúruverndarsviðs hjá Umhverfisstofnun, en hann er formaður hópsins, Eydís Líndal Finnbogadóttir frá Landmælingum Íslands og Eymundur Runólfsson frá Vegagerðinni. Landmælingar og Vegagerðin, hafa mælt um 22.000 km af vegum og slóðum á undanförnum árum. Starfshópurinn vann að því að skoða kort og meta hvaða slóðum megi halda opnum fyrir umferð og hverjum skuli loka.

Tillögur hópsins voru kynntar í apríl 2005. Umhverfisráðuneytið vinnur nú að því að gera tillögur um framhaldið.

Auk þess sem bannað er að aka utan vega getur hlotist af því verulegt tjón á umhverfi og ökutækjum sem ekki er tryggingarbært. Algengt er að farartæki sökkvi í bleytu og festist og mikið jarðrask hlýst af því að koma farartækinu burtu. Það getur því hlotist verulegt fjárhagslegt tjón af því að lenda í óhappi utan vega á hálendi Íslands.