Stök frétt

Umhverfisstofnun Sameinuðuþjóðana hefur lýst því yfir að 16. september ár hvert skuli vera tileinkaður ósonlaginu og verndun þess. Ósonlagið er náttúruleg sólarvörn jarðar. Það verndar menn, dýr og gróður gegn skaðlegri útfjólublárri geislun sólar. Aukning útfjólublárra geisla við yfirborð jarðar veldur hærri tíðni húðkrabbameins og getur einnig hækkað tíðni augnskaða, veikt ónæmiskerfi manna og dýra og dregið úr vexti plantna á landi og í sjó. Ósonlagið er hátt yfir jörðu í 15-35 km hæð og mest er þéttni þess í 25 km hæð. Styrkur þess er þó svo lítill að væri óson þjappað niður við jörðu myndi það aðeins mynda 3 mm lag á yfirborði jarðar. Efnafræðilega er óson náskylt súrefni sem við öndum að okkur, en óson er 3ja frumeinda sameind en súrefni er 2ja frumeinda sameind.

Útfjólubláir geislar sólar leika stórt hlutverk í myndun ósons, en í efri lögum lofthjúpsins myndast óson við að útfjólubláir geislar sólar rjúfa súrefnissameindina og mynda súrefnisstakeindir sem dragast að súrefnissameindum og mynda óson. Í heiðhvolfinu er jafnvægi á milli myndunar og niðurbrots ósons vegna efnahvarfa við aðrar lofttegundir í lofthjúpnum. Dreifing ósonlagsins í lofthjúpnum er breytileg eftir árstíma og styrkur þess í lofthjúpnum er sömuleiðis breytilegur. Almennt gildir að ósonlagið er þynnst yfir miðbaug og þykkast yfir pólunum.

Þegar talað er um ósoneyðingu er ekki átt við að óson hverfi, heldur er átt við að styrkur ósons í andrúmsloftinu minnkar. Það er talað um gat á ósonlaginu þegar styrkur ósons hefur minnkað um 50% yfir ákveðnu svæði. Ástæða myndunar gats á ósonlagið er vegna lofttegunda sem innihalda klór- og brómfrumeindir og framleiddar voru til nota í loftkælingar, ísskápa, drifefni í úðabrúsa, sem leysiefni, slökkviefni og til að búa til frauðplast svo eitthvað sé nefnt. Þessi efni eru stöðug og brotna ekki niður í andrúmsloftinu, en þegar þau berast upp í heiðhvolfið brotna þau niður fyrir tilstuðlan útfjólublárra geisla sólar. Við niðurbrotið losna klór- og brómfrumeindir frá aðalefninu og lausa frumeindin (kölluð stakeind) kemur af stað keðjuhvörfum sem brýtur niður óson af miklum krafti. Talið er að ein stök klór- eða brómstakeind geti eytt meira en 100.000 ósonsameindum. Skaðsemi þessara efna uppgötvaðist ekki fyrr en á fyrri hluta áttunda áratugarins og í kjölfarið tók alþjóðasamfélagið við sér og hleypti af stað samningaferli sem hefur komið því til leiðar að búið er að ná utan um ósoneyðinguna. Reiknað er með að ósonlagið verði búið á ná fyrri styrk árið 2050.

Fyrsti alþjóðasamningurinn til að taka á ósoneyðingunni var Vínarsáttmálinn frá 1985. Þegar 1987 var gerð bókun við Vínarsáttmálann í Montreal í Kanada. Síðar voru gerðar bókanir við Montrealbókunina sem flýttu fyrir ferlinu við að taka ósoneyðandi efni úr umferð. Í kjölfar þessara bókana voru settar reglugerðir sem bönnuðu innflutning og notkun klórflúorkolefna, vetnisklórflúorkolefna, vetnisflúorkolefna og brómflúorkolefna (halóna) hér á landi. Bannað hefur verið að flytja inn klórflúorkolefni á úðabrúsum frá 1989 og bannað að flytja inn ný kælikerfi með klórflúorkolefnum síðan 1. janúar1995. Halónar hafa verið bannaðir á ný slökkvikerfi frá 1. janúar 1994 og vetnisklórflúorkolefni á kælikerfi frá 1. janúar 1996. Halónar hafa 10 sinnum meiri ósoneyðingarmátt en klórflúorkolefni, og 100 sinnum meiri ósoneyðingarmátt en vetnisklórflúorkolefni.

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna telur að ef ekki hefði verið gripið til aðgerða gegn losun ósoneyðandi efna fyrir 20 árum mætti búast við að magn ósoneyðandi lofttegunda væri 5 sinnum meiri í heiðhvolfinu árið 2050 en það er í dag. Útfjólublágeislun sólar væri tvöfalt meiri en hún er í dag á miðlægum breiddargráðum á norðurhveli en fjórum sinnum meiri á miðlægum breiddargráðum á suðurhveli.

Ísland fylgir norrænu samstarfi og Evrópusambandinu í takmörkun á notkun ósoneyðandi efna.