Stök frétt

Í Bankok á Tælandi haf nú staðið yfir samningaviðræður um markvissa alþjóðlega stefnu um meðhöndlun efna. Tilgangurinn er að vinna að því markmiði, sem sett var á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg árið 2002, að eigi síðar en árið 2020 verði efni notuð og framleidd þannig að ekki hljótist af umtalsverður skaði fyrir umhverfið eða heilsu manna. Þessar samningaviðræður eru á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP, en eru unnar í nánu samráði við sjö alþjóðlegar stofnanir þar á með Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Alþjóða vinnumálastofnunina.

Við upphaf viðræðnanna var fulltrúi Íslands Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, kjörinn forseti samningaferilsins. Í þessari kosningu felst viðurkenning á því forystuhlutverki sem Ísland hefur gengt í alþjóðlegri umræðu um þessi mál um langt árabil. Íslensk stjórnvöld hafa verið meðal forysturíkja í því að vinna gegn því á alþjóðavettvangi að hættuleg efni berist út í umhverfið enda eiga Íslendingar mikið undir vernd hafsins gegn mengun af manna völdum.

Fyrsta samningafundinn í Bankok sitja um fjögur hundruð fulltrúar 118 ríkja, 16 alþjóðlegra stofnana og 23 félagasamtaka. Að því er stefnt að niðurstaða úr samningaferlinu náist fyrir alþjóðlegan ráðherrafund um umhverfismál árið 2006.