Stök frétt

Athuga ber að þessi könnun var gerð áður en umræða fór í gang um friðun rjúpunnar og má því ætla að niðurstöður hennar varðandi rjúpuna séu ólitaðar af hita umræðunnar í þjóðfélaginu.

 

Helstu niðurstöður

- Meginniðurstaðan og ein sú mikilvægasta er sú að áreiðanleiki veiðitalna er mjög ásættanlegur. Veiðimenn virðast almennt vera mjög heiðarlegir í skilum á veiðitölum og hefur því helsti tilgangur með þessari skoðanakönnun náðst, en það var að kanna hversu áreiðanlegar veiðitölur skotveiðimanna væru.

- Nýliðun meðal skotveiðimanna virðist fara minnkandi á síðastliðnum tíu árum. Veiðikortakerfið hóf göngu sína fyrir átta árum og hugsanlegt er að auknar kröfur með tilkomu þess hafi dregið úr fjölgun veiðimanna. Virðist þetta sýna fram á svipaða þróun og er að gerast í nágrannalöndunum.

- Um helmingur gæsaveiðimanna segja að lengsta skotfærið sem þeir skjóti á gæsir á sé lengra en 40 m. Mikil þörf er á að fá gæsaveiðimenn til þess að stytta skotfærið inn fyrir 40 metra þar sem danskar rannsóknir benda til þess að of langt skotfæri sé helsta ástæðan fyrir því að fuglar séu særðir og að því lengra sem færið er, því fleiri högl og skot þurfi til þess að aflífa fuglinn. Almennt er álitið að 40 metrar séu hámark skotfæris með haglabyssu á gæsir.

- Frítíminn ræður mestu (48%) um það hvort rjúpnaveiðimenn halda til rjúpnaveiða eða ekki. Veðrið kemur þar á eftir (45%). Ennfremur fara 55% þeirra þrjá daga eða færri til rjúpnaveiða á árinu sem spurt var um.

- 20% rjúpnaveiðimanna og 42% gæsaveiðimanna sem nota hálfsjálfvirkar byssur eða pumpur viðurkenna að þeir taki skotgeymispinnann alltaf eða stundum úr byssunni á veiðum til þess að hafa kost á fimm skotum í stað þriggja. Um 21% veiðimanna nota tvíhleypu á gæsaveiðum en 34% á rjúpnaveiðum. 38% nota hálfsjálfvirkar byssur á rjúpnaveiðum en 48% á gæsaveiðum. Svörin benda til þess að skotveiðimenn hafi verið hreinskilnir í svörum og benda til þess að veiðimenn telji sig eiga meiri veiðivon með fimm skotum í stað þriggja, en munurinn hvað þetta varðar á rjúpnaveiði og gæsaveiði gæti falist í því að eftirlit sé meira með rjúpnaskyttum.

- Aðspurðir um það til hvaða aðgerða skotveiðimenn vildu grípa ef rannsóknir sýndu að takmarka þyrfti rjúpnaveiði voru þrjú atriði helst nefnd til sögunnar, en 41% nefndu að stytta veiðitímabilið, 36% nefndu sölubann og 33% vildu setja á svæðisbundna friðun. 17% skotveiðimanna nefndu alfriðun í tiltekinn árafjölda og 18% nefndu kvóta. Hafa ber í huga að könnunin var gerð áður en umræða fór í gang í þjóðfélaginu um alfriðun rjúpunnar næstu þrjú árin og ættu niðurstöður því að endurspegla afstöðu skotveiðimanna við hefðbundnar aðstæður.

 

Athyglisverðar niðurstöður

Alls var spurt um 90 spurninga í könnuninni og er hér stiklað á stóru.

- Um helmingur rjúpnaveiðimanna fer ekki með áttavita til rjúpnaveiða í rjúpnaárum.  GPS tæki koma ekki í stað áttavita þar sem þau eru háð rafhlöðum, geta skemmst o.s.frv. Þarna er þörf á bragabót meðal skotveiðimanna þegar rjúpnaveiðar hefjast aftur (spurning 48).

- 3% gæsaveiðimanna skutu 60 gæsir eða fleiri, 65% skutu innan við tíu gæsir.

- 7% rjúpnaveiðimanna skutu 60 rjúpur eða fleiri, 49% skutu innan við tíu rjúpur.

- 88% skotveiðimanna telja sig vera með enga eða innan við 10% skekkju í sínum veiðitölum.

- 9% rjúpnaveiðimanna fóru með hunda til rjúpna, en 12% gæsaveiðimanna fara með hund á gæsaveiðar. Afar lítill munur er á veiði þeirra sem fara með eða án hunda á rjúpnaveiðar, en þeir sem eiga hunda fóru hinsvegar talsvert oftar.  Munurinn var sá að hundaeigendur fóru að meðaltali 9,6 daga til rjúpna á meðan hundlausir fóru 4,4 daga að meðaltali.

Meðfylgjandi er skýrsla með niðurstöðum úr þessari viðhorfskönnun meðal skotveiðimanna og er þeim sem hana lesa bent á að varast að túlka niðurstöður einstakra spurninga án þess að hafa í huga samspil þeirra við undangengnar spurningar með tilliti til þess hverjir eru svarendur og hve margir þeir eru. Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar mun í náinni framtíð vinna nánar úr niðurstöðunum og kynna þær fyrir skotveiðimönnum sem og öðrum.