Stök frétt

Stórvirkið Náttúra norðursins - Náttúruvernd á Norðurlöndum á 20. öld - er komin út í vandaðri þýðingu Hálfdanar Ómars Hálfdanarsonar, en bókin hefur nýlega verið gefin út á öðrum norrænum tungumálunum og á ensku.

Með þessari ríkulega myndskreyttu bók er Norræna ráðherranefndin að kynna náttúruauðlegð Norðurlanda og vekja athygli á aðgerðum sem gripið var til á síðustu öld til að vernda einstakar náttúruperlur.

Lýst er í máli og myndum 53 þjóðgörðum og friðuðum svæðum, frá Grænlandi í vestri til Finnlands í austri, og fjallað er um verndargildi fjölbreyttra náttúruminja, svo sem jökla og fjalla, straumvatna og strandsvæða. Þá er greint frá nauðsyn frekari verndunaraðgerða á 21. öldinni m.a. til að tryggja líffræðilega fjölbreytni.

Náttúra norðursins er samstarfsverkefni margra höfunda og var því stýrt af fastanefnd um náttúruvernd, útivist og menningarminjar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Þeir sem skrifa um íslenska náttúru eru Auður Sveinsdóttir landslagsarkitekt, Árni Einarsson líffræðingur, Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, Kári Kristjánsson landvörður og Trausti Baldursson líffræðingur. Í bókinni eru kaflar um náttúru við Breiðafjörð, Þjórsárver, lífríki við Mývatn, þjóðgarðana á Þingvöllum og í Skaftafelli, Herðubreiðalindir og friðlýst svæði á gosbeltinu.

Fjölmargar litmyndir prýða bókina og eru þær teknar af fremstu landslags- og náttúruljósmyndurum Norðurlanda,.

Náttúra norðursins er 258 blaðsíður og er með ítarlegri örnefna- og tegundaskrá. Hún er til sölu í bókaverslunum Máls og menningar og Eymundssonar og kostar 4.995 kr.