Stök frétt

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi: Stefna á vottun sem sjálfbært samfélag

 

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær, Stykkishólmsbær og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, afhentu í dag samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, framtíðarstefnu sína fyrir Snæfellsnes. Er hún liður í undirbúningi að vottun GREEN GLOBE 21 á Snæfellsnesi sem SJÁLFBÆRU SAMFÉLAGI með megináherslu á ferðaþjónustu.

 

Stefna í sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála á Snæfellsnesi til ársins 2015 er byggð á skýrslu Samgönguráðuneytisins sem ber heitið: Íslensk ferðaþjónusta – framtíðarsýn. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru þau fyrstu sem vitað er að hafi mótað sér framtíðarstefnu samkvæmt henni, en þar er megináherslan lögð á sjálfbæra þróun.

 

Alþjóðleg vottun

GREEN GLOBE 21 eru alþjóðleg samtök sem votta umhverfisstjórnun fyrirtækja og stofnana innan ferðaþjónustunnar. Þau njóta alþjóðlegrar viðurkenningar og hafa nú vottað eða vinna að undirbúningi á vottun fyrirtækja í yfir fimmtíu löndum. Staðlar þeirra eru byggðir á Staðardagskrá 21, en þrjú stærri sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa unnið að henni í nokkur ár og þau minni hafa nýverið hafið vinnu að henni.

Í fyrstu var talað um vottun á umhverfisvænni ferðaþjónustu þegar lagt var af stað í þetta verkefni en nánari skilgreining í undirbúningsgögnum frá GG21 gerir ráð fyrir því að Snæfellsnes í heild verði vottað sem sjálfbært samfélag með megináherslu á ferðaþjónustu. Vottun Snæfellsness er ekki ætlað að loka landinu fyrir ferðamönnum, heldur miklu frekar undirbúa það og vernda þannig að komandi kynslóðir fái líka notið þeirra gæða sem Snæfellsnes býr yfir í dag.

 

Næstu skref

Formleg vinna við verkefnið hófst í september á síðasta ári. Verkefnisstjórn er í höndum Guðrúnar og Guðlaugs Bergmann frá Leiðarljós ehf. á Hellnum og Stefáns Gíslasonar frá Umís ehf. í Borgarnesi. Gerð hefur verið umfangsmikil úttekt á svæðinu, auk þess sem stýrihópur hefur unnið að stefnumótun fyrir Snæfellsnes með verkefnisstjórn. Stýrihópurinn, sem skipaður var fulltrúum frá öllum sveitarfélögunum, Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, Ferðamálaráði, Vegagerðinni og Rarik, skilaði af sér einkar framsækinni stefnu. Næsta skref er að vinna úr henni framkvæmdaáætlun en vottunarverkefninu verður fylgt eftir af framkvæmdaráði.

Einnig þarf að bera saman samfélagið á Snæfellsnesi og viðmið GREEN GLOBE 21. Gert er ráð fyrir að því verkefni verði lokið í apríl eða maí n.k. og hefur svæðið þá leyfi til að kynna sig undir merki GREEN GLOBE 21 án haks, eins og það er kallað. Snæfellsnes verður síðan tekið út og vottað, væntanlega af Hólaskóla sem er úttektaraðili GREEN GLOBE 21 á Íslandi. Stefnt er að því að vottun fari fram í september á þessu ári. Að henni lokinni fær Snæfellsnes að nota GREEN GLOBE merkið með hakinu. Snæfellsnessvæðið verður síðan árlega tekið út og endurvottað, væntanlega með bættum árangri ár hvert.

Snæfellsnesverkefnið er frumherjaverkefni hjá GREEN GLOBE 21. Forstjóri alheimsskrifstofunnar og stjórnarformaður samtakanna heimsóttu Ísland sl. haust. Að henni lokinni sögðust þeir þess fullvissir að Ísland hefði alla möguleika á að verða fyrsta landið í heiminum sem fengi vottun frá samtökunum sem sjálfbært samfélag.

Fyrirlestur Kristins bæjastjóra á Snæfellsnesi er hér fyrir neðan:

Fyrirlestur