Stök frétt

Mynd: Jónas Erlendsson

Baldvin Þorsteinsson EA 10 strandaði rétt fyrir austan Skarðsfjöruvita aðfaranótt 9. mars eins og kunnugt er. Giftusamlega gekk að bjarga allri áhöfninni, 16 manns og er því næsta atriði að kanna björgun skipsins.

Í tengslum við slíka atburði hljóta að vakna spurningar um hugsanlega mengunarhættu vegna olíu og fleiri efna í skipinu og hver beri ábyrgð á þeim málum. Samkvæmt lögum er Umhverfisstofnun viðbragðsaðili vegna bráðamengunar sjávar utan hafnarsvæða og hefur stofnunin fylgst með málinu frá upphafi, verið í sambandi við Landhelgisgæslu Íslands og útgerðina og í viðbragðsstöðu ef eitthvað kemur upp á. Viðbragðsulltrúi frá stofnuninni hefur og farið á strandstað til að skoða aðstæður.

Skipið situr sem stendur skorðað og í vari frá mestu öldunni. Ekki er talin hætta á því að olía leki úr skipinu og heldur Umhverfisstofnun því að sér höndum eins og er. Samkvæmt upplýsingum eigenda eru um borð u.þ.b. 415 tonn af flotaolíu, 20 tonn af smurolíu og glussa auk ríflega 1500 tonna loðnuafla.

Sjá einnig verkefni Umhverfisstofnunar við bráðamengun sjávar.