Stök frétt

Kiran Pacific (Mynd: Manuel Hernández Lafuente)
Tyrkneska súrálflutningaskipið Kiran Pacific strandaði á skeri 3,3 sjómílur (6 km.) norðvestur af Straumsvíkurhöfn í gærkvöldi. Alls er 21 maður um borð í skipinu, allir frá Tyrklandi. Skipið er talið nokkuð stöðugt á skerinu og því ekki óttast um að áhöfnin sé í hættu. Varðskip kom á vettvang í morgun og er áhöfn þess að kanna aðstæður og ástand skipsins.

Kiran Pacific var að koma frá Bandaríkjunum með 45 þúsund tonn af súráli sem flytja átti til Straumsvíkur. Í skipinu eru 456 rúmmetrar af svartolíu, 52 rúmmetrar af dísilolíu og 31 rúmmetri af smurolíu. Skipið er 21968 brúttótonn og 193 metrar að lengd. Talið er að 3 göt séu á sjótönkum framarlega í skipinu. Ekki er vitað um göt á olíutönkum og ekki hefur orðið vart við mengun.

Fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Siglingastofnunar og Umhverfisstofnunar fylgjast grannt með framvindu mála og taka sameiginlega ákvörðun um aðgerðir eftir því sem þurfa þykir