Stök frétt

Þegar sumra tekur vill bera á óboðnum gestum í görðum landsmanna. Þessir óboðnu gestir tæta í sig laufin á trjánum í stórum stíl og skilja eftir sig slóð eyðileggingar. Allur gangur er á því hversu umburðarlyndir menn eru gagnvart þessum smádýrum og ýmsar skoðanir á lofti hvað best er að gera. Margir telja það ekki góðan kost að úða þar sem úðun getur raskað jafnvægi í lífríki garðsins.

Notkun varnarefna er alltaf inngrip í náttúruna sem ekki á að nota nema í hófi. Auk þess drepur eitrið jafnt gagnlegar sem skaðlegar pöddur og hætt við að dragi úr heimsóknum fugla í garðinn þegar smádýrunum hefur verið eytt. Oft dugar að beita forvörnum eins og að velja plöntur í garðinn sem eru þekktar fyrir að vera ekki viðkvæmar fyrir fiðrildalirfum og blaðlúsum og búa vel að þeim hvað varðar næringu og vökvun.

Ef nauðsynlegt reynist að úða garðinn er mikilvægt að gera það á réttum tíma þegar maðkur og lús eru komin á skrið og nota sem hættuminnst efni. Ef garðeigendur fá utanaðkomandi til að úða skal þess gætt að úðun sé eingöngu framkvæmd af aðila sem hefur til þess fullgild réttindi.

Hægt er að ganga úr skugga um hvort svo sé með því að biðja um framvísun leyfisskírteinis frá Umhverfisstofnun sem öllum þeim aðilum er skylt að hafa sem stunda úðun í atvinnuskyni. Einungis þeir sem hafa tilskylda menntun geta sótt um leyfi til þess að starfa við garðaúðun í atvinnuskyni. Slík menntun er til dæmis nám í Garðyrkjuskóla ríkisins eða námskeið um meðferð varnarefna. Það er mikilvægt að neytendur gæti að sér þar sem borið hefur á aðilum sem ekki kunna nægilega vel til verka og geta þar að leiðandi valdið óskunda.

Vinsamlega hafið samband við Umhverfisstofnun í síma: 591 2000 ef óskað er frekari upplýsinga.