Stök frétt

Öll viljum við hafa hreint og fallegt í kringum okkur og höfum einhverja reynslu af því sem gera þarf til að svo megi verða . Fæst okkar leiða hinsvegar hugann að því sem slíkur þrifnaður hefur í för með sér fyrir umhverfið utan veggja heimilisins. Flestir nota ógrynni af hreinsiefnum við þrif, oftast miklu meira en er þörf fyrir. Hreinsiefni innihalda iðulega efni sem eru eitruð fyrir vatnalífverur en meginhluti hreinsiefnanna lenda á endanum í jarðvegi, vötnum og sjó.

Svanurinn, sem er norrænt umhverfismerki sem við Íslendingar höfum verið aðilar að frá árinu 1991, hefur útbúið umhverfis- og gæðaviðmið fyrir ýmsar hreinlætisvörur. Samskonar viðmið fyrir ræstingarfyrirtæki hafa einnig verið sett og má reikna með því að ef öll ræstingarfyrirtæki á Norðurlöndunum fylgdu þessum viðmiðum myndu sparast um 35-40 þúsund tonn af hreinsiefnum á ári hverju (þar af eru um 80% vatn en 15-20% virk efni). Jafnframt væri tryggt að einungis vistvæn hreinsiefni yrðu notuð og að aukiu myndi notkun plastpoka minnka um allt að 4.000 tonn á ári. Það er því ljóst að fyrir utan augljósan ávinning af þessu fyrir umhverfið yrði fjárhagslegur ávinningur fyrirtækjanna einnig umtalsverður. Að sjálfsögðu er þess einnig gætt í viðmiðum Svansins að gæði ræstinganna haldist óbreytt, það er jú takmarkaður ávinningur af því að gera þrifin umhverfisvænni ef þau eru illa unnin.

Fyrirtækjaþjónusta Enjo er ungt og vaxandi fyrirtæki sem sinnir öllum almennum þrifum. Fyrirtækið hefur nú staðist viðmið Svansins og þar með unnið sér rétt til að nota umhverfismerkið Svaninn. Það er staðfesting þess að fyrirtækið vinnur mjög gott starf, jafnt á sviði umhverfismála sem og ræstinga.

Svanurinn var afhentur Fyrirtækjaþjónustu Enjo á sýningunni Rekstur 2004 sem fram fór í Fífunni í Kópavogi 22.október kl. 14.30. Viðstödd afhendinguna voru helstu forsvarsmenn Enjo með Erlend Pálsson framkvæmdarstjóri Fyrirtækjaþjónustu Enjo í broddi fylkingar og fyrir hönd Umhverfisstofnunar, sem ber ábyrgð á rekstri Svansins hér á landi voru þau Sigrún Guðmundsdóttir og Helgi Jensson forstöðumaður Framkvæmda- og eftilitssviðs Umhverfisstofnunar

Við óskum Enjo innilega til hamingju með að vera komin í hóp Svansmerktra fyrirtækja og þökkum þeim fyrir frábært umhverfisvænt framtak.