Stök frétt

Í reglugerðinni er fjallað um aðferðir við mat á reykbragðefnum til notkunar í eða á matvæli. Einnig er fjallað um sérstakan jákvæðan lista fyrir slík efni sem leyft verður að nota innan Evrópusambandsins.

Reglugerðin nær til:

  • reykbragðefna til notkunar í eða á matvæli
  • hráefna til framleiðslu á reykbragðefnum
  • aðstæðna við framleiðslu á reykbragðefnum
  • matvæla sem innihalda reykbragðefni

Megintilgangur reglugerðarinnar er að tryggja öryggi neytenda. Í reglugerðinni segir að notkun reykbragðefna í eða á matvæli megi einungis leyfa ef sýnt sé fram á að:

  • fólki stafi ekki hætta af efnunum
  • að notkun þeirra sé ekki villandi fyrir neytendur

Ennfremur segir að óleyfilegt sé að setja á markað reykbragðefni eða vöru sem inniheldur reykbragðefni nema að efnið sé á áðurnefndum lista og að notkunin sé í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Á lista fyrir reykbragðefni á að koma fram fyrir hvert efni: sérstakt númer, heiti efnis, nafn og heimilisfang leyfishafa, lýsing á efninu og eiginleikum þess, notkunarleiðbeiningar fyrir matvæli og dagsetning átgáfu leyfis. 

Framleiðendur reykbragðefna eða hráefna til þeirra hafa 18 mánuði frá gildistöku reglugerðarinnar, 16.12.2003, til að sækja um leyfi fyrir efnum. Að þeim tíma loknum mun sambandið gefa út fyrsta jákvæða lista reykbragðefna til notkunar í aðildarríkjum. Ákvæði reglugerðarinnar um jákvæðan lista gildir frá 16. júní 2005. Fram að þeim tíma gilda reglur hvers aðildarríkis.

Í reglugerðinni er gefinn ákveðinn aðlögunartími að þessum breytingum. Eftirfarandi reykbragðefni og hráefni til framleiðslu þeirra ásamt matvælum sem innihalda þessi efni mega vera á markaði í tiltekinn tíma samkvæmt eftirfarandi upptalningu: 

  • Reykbragðefni og hráefni fyrir reykbragðefni, sem leyfi hefur verið sótt um fyrir 16. júní 2005: þar til áðurnefndur jákvæður listi hefur verið tekinn í notkun.
  • Matvæli sem innihalda reykbragðefni sem leyfi hefur verið sótt um fyrir 16. júní 2005: í 12 mánuði eftir að áðurnefndur jákvæður listi hefur verið tekinn í notkun. 
  • Matvæli sem innihalda reykbragðefni sem leyfi hefur ekki verið sótt um fyrir 16. júní 2005: til 16. júní 2006.
     

Hvaða áhrif hefur reglugerðin á íslenska matvælaframleiðendur?

Í fyrsta lagi ber að taka fram að reglugerðin tekur einungis til reykbragðefna sem notuð eru í matvæli. Ákvæði reglugerðarinnar gilda ekki um hefðbundna reykingu í reykofnum.

Sjá einnig ákvæði um aðlögunartíma hér að ofan. Þau fyrirtæki sem nota reykbragðefni þurfa að tryggja að þeir framleiðendur eða byrgjar sem þau skipta við uppfylli ákvæði reglugerðarinnar eftir að gefinn hefur verið út jákvæður listi.