Stök frétt

Því miður hafa fjölmargar vísbendingar komið fram undanfarin misseri um að akstur utan vega fari vaxandi. Þegar ekið er um landið má víða sjá vegaslóða sem virðast ekki þjóna neinum tilgangi. Enn virðast Íslendingar fara um óbyggðir og öræfi til þess eins að sýna hversu megnug tæknin er í höndum mannsins. Þetta hátterni skilur eftir sár sem eru lýti í landinu auk þess sem þau geta komið af stað jarðvegsrofi. Landgæði eru rýrð og náttúrunni og komandi kynslóðum er sýnd ótrúleg lítilsvirðing með þessum hætti. Við þessu þarf að bregðast.

Laugardaginn 30. apríl kl. 13:00-17:00 verður haldið málþing um akstur utan vega á vegum Landverndar og Umhverfisstofnunar í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 Reykjavík.

Á málþinginu verður fjallað um akstur utan vega frá ýmsum sjónarhornum með pallborðsumræðum í lokin. Megináhersla verður lögð á varpa ljósi á hvar vandinn liggur og að greina hvað er til ráða.

Davíð Egilsson forstjóri Umhverfisstofnunar setur málþingið og í kjölfarið mun Eymundur Runólfsson forstöðumaður hjá Vegagerðinni fjalla um vegaskilgreiningar og umfang utanvegaumferðar. Halldór Jónsson í Gæsavatnahópnum mun í framhaldinu ræða um ástæður og afleiðingar utanvegaakstur og Freysteinn Sigurðsson varaformaður Landverndar um fjalla um galla á lagalegu umhverfi. Af því loknu mun Inga Rósa Þórðardóttir kennari kynna framtak Ferðafélags Fljótdalshéraðs. Síðasta erindi fyrir kaffihlé flytur Árni Bragason en kynnir tillögur starfshóps sem Umhverfisráðuneytið og Samgönguráðuneytið skipuðu haustið 2004 um utavegaakstur. Eftir kaffihlé mun Sigríður Anna Þórðardóttir kynna áætlanir Umhverfisráðuneytisins. Í lokin verða síðan pallborðsumræður um aðstæður og hagsmuni ólíkra aðila.

Björgólfur Thorsteinsson formaður Landverndar stjórnar málþinginu. Boðið verður upp á kaffiveitingar.

Aðgangseyrir er 500 kr.

Allir eru boðnir velkomir