Stök frétt

Umhverfisráðuneytið hefur nú gefið út nýja reglugerð um merkingu matvæla. Eldri reglugerð var uppfærð með breytingum sem gerðar hafa verið á henni og jafnframt voru teknar upp þrjár nýjar EB gerðir.

Veigamestu breytingarnar við útgáfu nýrrar reglugerðar eru eftirfarandi:

1.     Merkingar á ofnæmis og óþolsvöldum.

Nýr listi hefur verið gefin út yfir ofnæmis og óþolsvalda.  Merkja skal með skýrum hætti öll efni og efnisþætti sem upprunnin eru úr einhverjum þeirra innihaldsefna sem koma fram á eftirfarandi lista yfir ofnæmis- og óþolsvalda:

  • Egg og afurðir úr þeim;
  • Fiskur og fiskafurðir;
  • Hnetur, þ.e.
    • möndlur (Amygdalus communis L.),
    • heslihnetur (Corylus avellana),
    • valhnetur (Juglans regia),
    • kasjú hnetur (Anacardium occidentale),
    • pekanhnetur (Carya illinoiesis (Wangenh.) K. Koch),
    • parahnetur (Brasilíuhnetur) (Bertholletia excelsa),
    • pistasíur (hjartaaldin) (Pistacia vera),
    • macadamiahnetur (Macadamia ternifolia) og afurðir þeirra.
  • Jarðhnetur og afurðir úr þeim;
  • Korn sem inniheldur glúten (þ.e. hveiti, rúgur, bygg, hafrar, spelt, kamut eða afbrigði þessarar tegunda) og kornafurðir;
  • Krabbadýr og afurðir úr þeim;
  • Mjólk og mjólkurafurðir (laktósi meðtalinn)
  • Sellerí og afurðir úr því;
  • Sesamfræ og afurðir úr því;
  • Sinnep og afurðir úr því;
  • Sojabaunir og afurðir úr þeim;
  • Súlphúr díoxíð og súlfíð í meira magni en 10 mg/kg eða 10 mg/L, gefið upp sem SO2.

Frestur til að merkja eftirtalda ofnæmis- og óþolsvalda er til 1. janúar 2006:

  • Sesamfræ
  • Krabbadýr og afurðir úr þeim;
  • Sellerí og afurðir úr því;
  • Sesamfræ og afurðir úr því;
  • Sinnep og afurðir úr því;
  • Súlphúr díoxíð og súlfíð í meira magni en 10 mg/kg eða 10 mg/L, gefið upp sem SO2.

Frestur til að merkja eftirtalda ofnæmis- og óþolsvalda er til 25. nóvember 2007:

  • Glúkósasíróp, þ.m.t. dextrósi úr hveiti,
  • Maltdextrín úr hveiti,
  • Glúkósasíróp úr byggi,
  • Korn notað í gerjunarvökva til að eima vínanda úr.
  • Lýsósím (úr eggi) notað í léttvín,
  • Albúmín (úr eggi) notað sem felliefni í léttvín og sítra.
  • Fiskigelatín notað sem burðarefni fyrir vítamín og bragðefni,
  • Fiskigelatín eða fiskilím til nota sem felliefni fyrir bjór, sítra og léttvín.
  • Fullhreinsuð sojabaunaolía og fita,
  • Náttúrulegt, blandað tókóferól (E306), náttúrulegt D-alfa-tókóferól, náttúrulegt D-alfa-tókóferólasetat, náttúrulegt D-alfa-tókóferólsúksínat úr sojabaunum,
  • Fýtósteról úr jurtaolíu og fýtósterólestrar úr sojabaunum,
  • Stanólestri úr sojaolíusterólum.
  • Mysa notuð í gerjunarvökva til að eima vínanda úr,
  • Laktítól,
  • Mjólkurafurðir (kasín) til nota sem felliefni fyrir sítra og léttvín.
  • Hnetur notaðar í gerjunarvökva til að eima vínanda úr,
  • Hnetur (möndlur, valhnetur) notaðar (sem bragðgjafi) í vínanda.
  • Olía úr sellerílaufi og sellerífræi,
  • Óleóresín úr sellerífræi.
  • Sinnepsolía,
  • Sinnepsfræsolía,
  • Óleóresín úr sinnepsfræi.

 

2. Merkingar á samsettum innihaldsefnum

Heimilt hefur verið að merkja samsett hráefni undir eigin heiti í innihaldslýsingu án nánari innihaldslýsingar efnanna sem hráefnið er samsett úr þegar samsetta hráefnið er minna en 25% af nettóþyngd vörunnar. Með nýrri reglugerð hefur þetta hlutfall verið lækkað í  2% af nettóþyngd vörunnar. Ávallt þarf þó að merkja ofnæmis og óþolsvalda.

Veittur er frestur til 1. janúar 2006 til að uppfylla ákvæði um merkingar á samsettum innihaldsefnum.

 

3.  Merkingar á lakkrís

Ákveðnar viðbótarupplýsingar eiga að koma fram á umbúðum um lakkrís eða matvæli sem innihalda lakkrís í eftirtöldum tilvikum:

Gerð eða flokkur matvæla

Merking

Sælgæti eða drykkir sem innihalda glýcýrrhizinicsýru eða ammóníumsalt hennar, þar sem efninu eða lakkrísplöntunni Glycyrrhiza glabra hefur verið bætt í vöruna í magninu 100 mg/kg eða 10 mg/l eða meira.

"inniheldur lakkrís" skal koma fram strax á eftir innihaldslýsingu, nema að orðið lakkrís komi fram í innihaldslýsingu eða heiti vörunnar. Þegar innihaldslýsing er óþörf skulu upplýsingarnar koma fram nálægt vöruheiti.

Sælgæti sem inniheldur glycyrrhizinicsýru eða ammóníumsalt hennar, þar sem efninu eða lakkrísplöntunni Glycyrrhiza glabra hefur verið bætt í magninu 4 g/kg eða yfir.

"inniheldur lakkrís – fólk með háþrýsting ætti að forðast óhóflega neyslu" skal koma fram á eftir innihaldslýsingu. Þegar innihaldslýsing er óþörf skulu upplýsingarnar koma fram nálægt vöruheiti.

Drykkir sem innihalda glycyrrhizinicsýru eða ammóníumsalt hennar þar sem efninu eða lakkrísplöntunni Glycyrrhiza glabra hefur verið bætt í magninu 50 mg/l eða yfir eða í 300 mg/l eða yfir í drykkjum sem innihalda meira en 1,2% alkóhól.

"inniheldur lakkrís – fólk með háan blóðþrýsting skal forðast óhóflega neyslu" skal koma fram á eftir innihaldslýsingu. Þegar innihaldslýsing er óþörf skulu upplýsingarnar koma fram nálægt heiti vörunnar

Veittur er frestur til 17. maí 2006 til að uppfylla ákvæði um viðbótarupplýsingar á vörum sem innihalda lakkrís.

 

Reglugerð nr. 503/2005 um merkingu matvæla