Stök frétt

Mynd: Mika Baumeister á Unsplash

Hér til hliðar hefur verið bætt við tengli inn á fæðubótarvef Umhverfisstofnunar. Fæðubótarefni (food supplements) eru matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði og eru með hátt hlutfall af vítamínum, steinefnum eða annars konar efnum sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif. Þessi efni geta verið ein sér eða blönduð saman og eru markaðssett í formi skammta, nánar tiltekið sem hylki, brjóstsykur, töflur, pillur og í öðru svipuðu formi, duftpokar, vökvaampúlur, dropaglös og í öðru svipuðu formi vökva og dufts sem er ætlað til inntöku í mældum, smáum skömmtum.

Þar sem fæðubótarefni flokkast nú sem matvæli þá gilda sömu reglur um fæðubótarefni og önnur matvæli. Inná fæðubótarvefnum má ýmsar upplýsingar svo sem:

  • Reglugerð nr. 624/2004 um fæðubótarefni
  • Hvernig fyrirtæki ættu að bera sig að við markaðssetningu á fæðubótarefnum
  • Tilkynningareyðublað sem nota skal þegar fæðubótarefni eru markaðssett hér á landi í fyrsta sinn
  • Lista yfir hámarksdagskammta vítamína, steinefna og annars konar efna sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif í fæðubótarefnum
  • Ýmsar aðrar upplýsingar

Reglugerð nr. 624/2004 um fæðubótarefni tók gildi þann 30. júlí 2004. Umhverfisstofnun vill minna á að frestur fyrir innflytjendur/framleiðendur fæðubótarefna til að uppfylla öll ákvæði reglugerðarinnar, rennur út 1. ágúst 2005.

Innlendir framleiðendur og innflutningsaðilar eru ábyrgir fyrir því að fæðubótarefni séu í samræmi við ákvæði reglugerðar um fæðubótarefni og aðrar reglur er gilda um matvæli.

Þá minnir stofnunin á að framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðilar fæðubótarefna skulu hafa starfsleyfi frá viðkomandi heilbrigðisnefnd til að mega dreifa þeim. Umsókn og útgáfa starfsleyfa fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.

 Tilkynningarskylda

Samkvæmt 9. grein reglugerðar um fæðubótarefni sem tók gildi þann 30. júlí 2004 ber að tilkynna um vöru, sem flokkast sem fæðubótarefni, til Umhverfisstofnunar þegar hún er markaðssett í fyrsta sinn.

 Umhverfistofnun óskar því eftir upplýsingum um ný fæðubótarefni er kunna að hafa verið flutt til landsins eða framleidd á Íslandi og markaðssett hér á landi eftir gildistökutíma reglugerðarinnar.