Stök frétt

Umhverfisstofnun og Landlæknisembættið vilja benda foreldrum, forráðamönnum, forstöðumönnum heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsfólki á að kynna sér vel ráðleggingarnar um blöndun á þurrmjólk sem teknar hafa verið saman, þýddar og staðfærðar að fyrirmynd frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu. Foreldrum er bent á að leita til heilsugæslunnar til að fá nánari leiðbeiningar.

Ungbörn og smábörn eru sérstaklega viðkvæm fyrir matarsýkingum. Séu ungbörn ekki höfð á brjósti er mjög mikilvægt að meðhöndla og blanda ungbarnablöndur (infant formula) af mikilli varkárni. Gildir þetta líka um þurrmjólkurduft sem ætlað er börnum með ofnæmi eða óþol.

Rannsóknir hafa sýnt að mjólkurduft er stundum mengað með bakteríunum E. Sakazakii og Salmonella sem geta valdið sýkingum og alvarlegum veikindum. Áðurnefndar bakteríur drepast við gerilsneyðingu en geta borist í duftið t.d. við áfyllingu eða við meðhöndlun. Hafa skal í huga að heilbrigð ungbörn og smábörn geta þolað þessar bakteríur í blandaðri þurrmjólk í litlu magni en ungbörn yngri en 4-6 vikna og þá sérstaklega fyrirburar, léttburar og ónæmisbæld ungbörn er hópur sem er í sérstakri áhættu gagnvart sýkingum. Sýking af völdum E. Sakazakii getur valdið heilahimnubólgu, blóðeitrun eða iðrakveisu.

Til að koma í veg fyrir mengun og/eða fjölgun baktería þegar verið er að blanda mjólkurdufti saman við soðið vatn skiptir hreinlæti lykilmáli. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur gefið út leiðbeiningar um meðhöndlun á ofangreindum blöndum fyrir starfsfólk á sjúkrahúsum og foreldra, og eru þær á þessa leið.

Leiðbeiningar um blöndun, meðhöndlun, geymslu og notkun í heimahúsum:

  • Gott hreinlæti er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir mengun og tekur það til handþvottar, hreinlætis í eldhúsinu og þess að öll áhöld séu hrein fyrir notkun.
  • Útbúa skal mjólkurblönduna stuttu fyrir hverja gjöf og ekki skal blanda fyrir meira en eina gjöf í einu.
  • Nota skal hreina pela þegar verið er að útbúa mjólkurblönduna. Best er að sjóða pelana alltaf eða sótthreinsa í þar til gerðum tækjum. Nægir að þvo pelana vel eftir að ungbarnið er byrjað að fá fasta fæðu, sem má í allra fyrsta lagi vera við 4 mánaða aldurinn.
  • Ávallt skal notað soðið vatn fyrir hverja blöndu (>70°C) eða vatn sem búið er að sjóða og kæla, en þá er mikilvægt að það hafi ekki mengast.
  • Eftir að mjólkurdufti hefur verið blandað við soðið vatn á að kæla mjólkurblönduna hratt í það hitastig sem hentar fyrir gjöf og skal mjólkurblandan notuð þegar í stað.
  • Ekki er æskilegt að nota örbylgjuofna til að hita mjólkurblönduna þar sem hún getur verið volg yst en sjóðheit innst.
  • Eftir hverja gjöf skal hella niður afgangsmjólk.

Leiðbeiningar um blöndun, meðhöndlun, geymslu og notkun á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum:

Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir eru hvattar til að gera ítarlegri verklagsreglur um blöndun, meðhöndlun, geymslu og notkun fyrir ungbarnablöndur (infant formula).

  • Heilbrigðisstarfsfólk skal fá leiðsögn um hvernig skuli meðhöndla þurrmjólk þar sem blöndun fer fram og einnig á vökudeildum.
  • Tilbúnar blöndur (þ.e. sem ekki krefjast blöndunar á staðnum) eru dauðhreinsaðar og því öruggari til notkunar fyrir börn í áhættuhópi.
  • Gott hreinlæti er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir mengun þegar blanda skal mjólkurdufti saman við soðið vatn.
  • Öll áhöld tengd blöndun og pelar skulu vera dauðhreinsaðir og helst skal blöndun fara fram í dauðhreinsuðu rými (air sterile cabinet) til að forðast mengun frá umhverfinu.
  • Blandið ávallt mjólkurdufti við heitt vatn (>70°C) til að forðast mengun.
  • Ef notuð er ungbarnablanda (þurrmjólk) sem er blönduð á staðnum í sondunæringu þá skal næringargjöfin taka sem stystan tíma eða í mesta lagi í 4 klst.
  • Eftir að mjólkurduft hefur verið blandað við soðið vatn þá má geyma mjólkurblönduna ef hún hefur sannanlega verið kæld hratt undir 4-5 °C. Hana má þó ekki geyma lengi og þá þarf að hita hana í heppilegt hitastig rétt fyrir gjöf.
  • Fáið ráðleggingar frá dreifingaraðila eða framleiðanda um hversu lengi má geyma mjólkurblönduna í kæli.
  • Halda skal tímaskráningu yfir hvenær þurrmjólk hefur verið blönduð og hitastigsskráningu meðan á geymslu stendur.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (European Food Safety Authority, EFSA): http://www.efsa.eu.int/science/biohaz/biohaz_opinions/691_en.html

Reglur um merkingar ungbarnablanda

Sérstök merkingarákvæði gilda um ungbarnablöndur skv. reglugerð nr. 735/1997 um ungbarnablöndur og stoðblöndur. þar segir að ákveðnar upplýsingar skulu ávallt merktar á íslensku. Þessi ákvæði gilda einnig um ungbarnablöndur s.s. sojamjólk sem ætlaðar eru ungbörnum með ofnæmi og óþol. Hér að neðan eru gefin dæmi um hvaða upplýsingar er um að ræða :

  • Merking "áríðandi" eða sambærilegt hugtak þar sem í framhaldi skal gerð grein fyrir ágæti brjóstagjafar. Einnig skal taka fram að leita beri ráðgjafar hjá fagfólki sem annast mæðra- og ungbarnavernd.
  • Yfirlýsing þess efnis að varan sé ætluð sem sérfæði fyrir ungbörn sem ekki eru höfð á brjósti.
  • Nákvæmar leiðbeiningar um blöndun ásamt aðvörun um hættu samfara rangri blöndun.

 

Heimildir: