Stök frétt

Mynd: Yakov Leonov á Unsplash

Niðurstöður gerlarannsókna á ferskum kryddjurtum og fleiri matvælum frá Tælandi eru betri en búist var við ef tekið er mið af niðurstöðum sambærilegra rannsókna í Noregi. Salmonella hefur greinst í 7% sýna sem tekin voru í sumar og er það sambærilegt við niðurstöður frá Svíþjóð, en samt ekki ásættanlegt.

Mattilsynet í Noregi greindi fyrr á árinu Salmonella í yfir 25% rannsakaðra sýna af ferskum kryddjurtum frá Tælandi og sambærilegar rannsóknir Livsmedelsverket í Svíþjóð sýndu að 5% sýna þar voru menguð af Salmonella. Jafnvel hefur frést frá Finnlandi að Salmonella hafi fundist í ferskri basilikum frá Tælandi. Á grundvelli þessara upplýsinga hafði Umhverfisstofnun samband við matvælaeftirlit Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar og var ákveðið að örverufræðilegt ástand þessara matvæla hér á landi yrði kannað.

Niðurstöðurnar

Samkvæmt upplýsingum frá matvælaeftirliti Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar hefur það nú þegar látið rannsaka 42 sýni af ferskum kryddjurtum, grænmeti og ávöxtum frá Tælandi hjá rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Sýnin hafa verið rannsökuð m.t.t. Salmonella, saurkólígerla og E. coli. Salmonella hefur fundist í 7% sýnanna og auk þess hafa greinst saurkólígerlar og E. coli í of miklu magni í mörgum sýnum. Niðurstöðurnar eru betri en í Noregi en þó ekki ásættanlegar.

Hert eftirlit

Matvælaeftirlit Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar og önnur heilbrigðiseftirlitssvæði, eins og við á, mun fylgja þessum niðurstöðum eftir og er nú þegar m.a. dreifingar- og sölubann á tilteknum vörum. Ljóst er að innflutningsfyrirtæki verða að taka tillit til þessa í innra eftirliti fyrirtækjanna og gera kröfu um fullnægjandi örverufræðileg gæði og sérstaklega ef vörurnar eiga uppruna í Tælandi.

Tilmæli til neytenda

Umhverfisstofnun ráðleggur neytendum að meðhöndla ferskar kryddjurtir, grænmeti og ávexti sem hugsanlega eiga uppruna í Tælandi þannig að lágmarkslíkur séu á að krossmengun gerla verði yfir í tilbúin matvæli. Best er að skola kryddjurtirnar og grænmetið vel og nota aðeins í rétti sem eru hitaðir (>75°C) þannig að Salmonella drepist, sé hún til staðar.