Stök frétt

Á Íslandi kemur það reglulega fyrir að hvalir synda upp í fjöru, festast þar og drepast. Á Vísindavef Háskóla Íslands má finna svar við spurningunni "Hvers vegna synda hvalir upp á land?" með ýmsum vangaveltum um það. Þó er í raun lítið vitað um hvalreka annað en að hvalir enda margir hverjir lífið í fjörum, þar sem þeir eru ýmist til happs fyrir samfélag manna og dýra, sem nýta sér hvalrekann, eða til ama ef hræin trufla aðra útivist manna eða eru of nálægt híbýlum manna.

Á Íslandi hefur Náttúrufræðistofnun fylgst með og kortlagt hvalreka, Hafrannsóknastofnun hefur gert rannsóknir á sumum dýrunum og tekið sýni, Embætti Yfirdýralæknis hefur umsjón með því að bjarga dýrunum eða aflífa þau, séu þau lifandi, en lögregla og heibrigðiseftirlit sjá um að fjarlægja hvalhræ.

Tilkynna skal viðkomandi lögregluembætti um strandaða hvali !!

Lögreglan hefur samband við viðeigandi stofnanir sem gera ráðstafanir í samræmi við viðeigandi verklagsreglur þegar tilkynnt er um hvalreka. Gott væri ef hægt er að gefa lögreglunni upplýsingar um staðsetningu hvals, ástandi dýrsins, tegund og fjölda dýra, eftir því sem við á.