Stök frétt

Ágætu rjúpnaveiðimenn

Í sumar tók umhverfisráðherra þá ákvörðun að heimila veiðar á rjúpu frá 15. október til 30. nóvember nk. Þetta var m.a. gert í ljósi þess að rjúpnastofninn hefur styrkst mjög á síðustu tveimur árum. Eins og fram hefur komið gilda þær reglur að bannað er að selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Veiðimenn eru hvattir til að gæta hófs við veiðar.

Þrátt fyrir að veiðar á rjúpu séu aftur heimilar um stærsta hluta landsins verða veiðar á rjúpu áfram óheimilar á stóru svæði á suðvesturhorni landsins.

Umhverfisstofnun vill sérstaklega minna veiðimenn á að allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.

Þá vekur Umhverfisstofnun athygli að veiðar skulu óheimilar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs. Búðahraun, Geitland, Hraunfossar og Barnafoss, Ströndin við Stapa og Hellna, þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, Hornstrandir, Hrísey, Vatnsfjörður, Miklavatn, þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum, friðlands í Svarfaðardal, Herðubreiðarlindir, Vestmannsvatn, fólkvangur Neskaupstaðar, Hólmanes, Hvannalindir, Lónsöræfi, Salthöfðamýri, Herdísarvík, Oddaflóð, Pollengi og Tunguey og Þjórsárver.

Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn að gæta hófs við rjúpnaveiðar. Einnig hvetur stofnunin veiðimenn til að ganga vel um landið og minnir á að bannað er að nota vélsleða, fjórhjól, sexhjól eða önnur torfærutæki við veiðarnar. Einnig er bannað að nota slík tæki til þess að flytja veiðimenn til og frá veiðislóð. Einungis má nota önnur vélknúin farartæki á merktum vegum.